Stjórnarskipunarlög
Miðvikudaginn 13. febrúar 1991


     Matthías Á. Mathiesen :
    Herra forseti. Út af fyrir sig hef ég ýmsar skoðanir í sambandi við það frv. sem hér er til meðferðar. En ég veit að hér er um að ræða samkomulagsfrumvarp sem menn hyggjast láta ganga fram og það vonandi gerist svo. Hér eru hins vegar fjórar brtt. fluttar á þskj. 639. Ég er efnislega sammála þremur þeirra, hefði kosið að óbreytt væri, og helst hefði ekki verið lengur heimild til bráðabirgðalagaútgáfu með tilliti til þeirrar þróunar sem átt hefur sér stað í þjóðfélaginu og met að það hefði verið óþarfi.
    En ég kom hér í ræðustólinn aðeins til að spyrja frsm. allshn., hv. 3. þm. Austurl., hvort ekki er rétt skilið hjá mér að fjórða brtt., eins og hún er orðuð, er ekki annað en staðfesting á þeirri skoðun sumra þingmanna að kosningar hefðu átt að fara fram á þessu ári laugardaginn 27. apríl. Ef ég skil rétt er hér verið að tala um að upphaf og lok kjörtímabils miðist við sama vikudag í mánuði, talið frá mánaðamótum, miðað við fjögurra ára kjörtímabil og kosning, miðað við þetta ákvæði, fari því fram 27. apríl í ár eins og fjölmargir hafa skýrt, lögskýrt kosningadagsákvörðun og venja hafði skapast, m.a. þegar síðast var kosið fyrir fjórum árum síðan og ef ég man rétt árin 1963, 1967 og 1971 þó að vísu réði þingrof í einu tilfelli dagsetningu.