Stjórnarskipunarlög
Miðvikudaginn 13. febrúar 1991


     Ólafur G. Einarsson :
    Herra forseti. Sem formaður þeirrar nefndar sem undirbjó þetta mál vil ég þakka hv. allshn. fyrir röska og vandaða afgreiðslu á málinu og formanni nefndarinnar fyrir skýra framsögu fyrir brtt. og því starfi sem unnið var í nefndinni. Það eru aðeins örfá atriði sem mig langaði til að koma inn á og ég hef fengið tilefni til vegna ummæla sem hér hafa fallið.
    Í fyrsta lagi varðandi brtt. sem hér er flutt af hv. þm. Friðjóni Þórðarsyni og Inga Birni Albertssyni á þskj. 640, um að 14. gr. frv. falli brott, en þar er eins og ljóst er gert ráð fyrir að eiðvinning nýrra þingmanna falli brott úr stjórnarskrárákvæðinu. Eins og ég held að hafi komið fram í máli fyrri flm. till. er þetta ekki eitt af veigameiri atriðunum í þessu máli, en hann sagði í sinni ræðu að það væri rökstuðningur okkar fyrir brtt. að við teldum að eiðvinningin sé úrelt. Hv. þm. Friðjón Þórðarson sagði að þetta ákvæði hefði staðið í stjórnarskránni frá upphafi. Það er vissulega rétt og það er einmitt það sem staðfestir þá röksemdafærslu okkar að ákvæðið sé úrelt vegna þess að eiðvinningin hefur ekki verið viðhöfð. Ég þekki í raun og veru engin dæmi þess, án þess að ég hafi nú látið fara fram neina vísindalega könnun á því, en það eru ekki þekkt dæmi þess að nýir þingmenn hafi unnið eið að stjórnarskránni og þess vegna er þetta ákvæði úrelt að okkar mati og það er ástæðan fyrir því að þessi tillaga okkar er flutt.
    Hv. þm. sagði jafnframt að eiður og drengskaparheit hefði sömu þýðingu að lögum og það er alveg rétt. Það gerir það líka að drengskaparheitið ætti að nægja.
    Eins og ég sagði er þetta ekki eitt af veigameiri atriðunum og ég legg ekki neina höfuðáherslu á þetta, hvorki til né frá, en mun hins vegar ekki greiða þessari brtt. atkvæði.
    Hv. þm. Ingi Björn Albertsson minntist hér nokkuð á rétt minni hlutans sem hann vill tryggja og undir það tek ég mjög ákveðið að við eigum að gera það sem best við getum og það mun koma sérstaklega fram í þingskapalögunum, kemur að nokkru leyti fram í þeim tillögum að nýjum þingskapalögum sem fylgja sem fylgiskjal með þessu frv. og eiga að sjálfsögðu eftir að fá miklu meiri meðferð áður en það verður lagt fram sem sérstakt frv. sem verður væntanlega ekki fyrr en á næsta þingi.
    Það hefur reyndar komið fram hér hjá fleirum að menn óttast að málfrelsið verði skert. Það hefur komið fram hjá okkur flm. frv. að það eru engar fyrirætlanir uppi um að það verði gert. Alls ekki. En við sem nú sitjum á þingi getum auðvitað ekki tryggt það um alla framtíð að málfrelsi verði ekki skert. Það kunna að koma fram tillögur um það einhvern tíma síðar á Alþingi en þær tillögur eru alla vega ekki uppi núna.
    Ég hef sagt það áður og tek undir með hv. þm. Inga Birni Albertssyni að það þarf að fylgja mjög ákveðið þeim tímamörkum sem sett verða frá því að mál er lagt fram og til þess tíma að það verði tekið fyrir og einnig að fylgt verði þeim tímamörkum sem

gilda milli umræðna og að afbrigði frá þessum ákvæðum verði ekki veitt nema með auknum meiri hluta. Undir þetta tek ég.
    Hv. þm. Hjörleifur Guttormsson ræddi hér nokkuð um kjördaginn og var ósáttur við það, ég held að ég hafi skilið það rétt, að ekki væri tekið ákveðnar á því máli þannig að nú þurfum við að kjósa í apríl. Hv. þm. nefndi það sérstaklega að um þetta væri rætt vegna hinna misjöfnu aðstæðna sem eru á landinu. Það þarf auðvitað ekkert um það að ræða, ég held að allir þingmenn séu því sammála að kjördagur í maí sé heppilegri heldur en kjördagur í apríl. Það eru áreiðanlega allir sammála um það. Menn verða hins vegar að átta sig á því að við höfum ekki frjálst val um að ákveða kjördag einhvern tímann og einhvern tímann eftir að fjögurra ára kjörtímabili er lokið. Og eins og reyndar kom fram í máli hv. þm. Hjörleifs Guttormssonar er ekki hægt að tryggja það að kjördagur verði ætíð í maí eða júní, eða hvaða dag sem við viljum velja, nema með því að upphefja þingrofsréttinn alveg. Það kom fram hér við 1. umr. þessa máls að um það var ekki samstaða í nefndinni sem undirbjó frv., að fara yfir í þetta svokallaða norska kerfi, en meðan við höfum þennan þingrofsrétt þá er auðvitað ekki hægt að tryggja það að ætíð verði kosið í einhverjum tilteknum mánuði. Þetta eru nú þær einföldu staðreyndir. Það er heldur ekki eðlilegt að fara að ræða um kjördaginn núna, það er sérstakt dagskrárefni hér. Það er komið frv. til laga um viðauka við lög um kosningar til Alþingis, 358. mál, þar sem talað er um 20. apríl. Og ég tek undir með hv. þm. Stefáni Valgeirssyni að ég skil ekki hvers vegna það var ekki hægt að velja 27. En ég geymi mér frekari umræðu um það mál þar til það kemur hér sérstaklega til meðferðar.
    Hv. þm. Hjörleifur Guttormsson nefndi líka í sambandi við kjördaginn sem er ráðgerður núna, 20. apríl, hvers vegna það sé ekki hægt að fara yfir í 11. maí og ákveða það þá með lögum. Án þess að ég ætli að fara að ræða það sérstaklega núna þá held ég því fram að það sé ekki hægt. Við getum ekki ákveðið það með lögum hér á Alþingi að kjósa 11. maí. Ég skal hins vegar ekki leggja dóm á það hvort forsrh. hefur vald til þess að ákveða þennan kjördag. Hann taldi sig hafa þetta vald og ef hann hefur það þá getur hann alveg eins valið hann eins og 20. apríl. En frekari umræður um þetta ætla ég að geyma mér þangað til síðar.
    Ég vil svo líka aðeins taka undir það sem ég held að hafi komið fram í máli hv. þm. Stefáns Valgeirssonar um bráðabirgðalagaréttinn. Ég sé það fyrir mér að þessi réttur verði ekki notaður nema í hreinum undantekningartilvikum þegar við höfum breytt þessum ákvæðum þannig að auðveldara er en áður að kalla þingið saman til fundar og hefja strax störf að afgreiðslu þeirra mála sem bíða en þurfa ekki að fara að kjósa í nefndir og kjósa forseta þingsins sem tekur einn eða tvo daga.
    Ég vil svo aðeins að lokum segja það að þær breytingar á störfum þingsins, sem leiða af þessum

stjórnarskrárbreytingum, sjáum við svo sem ekki allar fyrir í dag, þær koma fram í hinum nýju þingskapalögum sem hljóta að fylgja og samþykktar verða þá á næsta þingi. Ég sé fyrir mér ýmsar veigamiklar breytingar á starfi þingsins sem leiða af stjórnarskrárbreytingunni og svo sem einnig aðrar sem ég vona að komi til um leið. Ég nefni þar atkvæðagreiðslukerfi, sem við höfum rætt um að verði sett upp til þess að auðvelda hér allar atkvæðagreiðslur og flýta þeim, og fleira mætti nefna sem rætt hefur verið í sambandi við atkvæðagreiðslur til þess að þær taki skemmri tíma.
    Ég sé líka fyrir mér forsætisnefnd þingsins öðruvísi skipaða heldur en nú. Það liggja ekki fyrir neinar endanlegar tillögur um það þó að gert sé ráð fyrir í þessu fylgiskjali að nýjum þingskapalögum að varaforsetar verði fjórir. En það á eftir að ræða það betur hvernig þeir verði kosnir. Ég hef sagt það áður og get ítrekað það að ég tel eðlilegt að þar hafi stjórnarandstaða rétt til áhrifa en sé ekki upp á náð og miskunn stjórnarflokka komin eins og hún er nú, hver sem hún er. Það er einfaldlega orðið samkomulag, má segja kannski hefð eftir 20 ár, að stjórnarandstaða fái fyrri varaforseta. Nú breytist það auðvitað og þess vegna þarf að setja um þetta skýrar reglur.
    Ég sé það líka fyrir mér sem kom fram í máli hv. þm. Inga Björns Albertssonar að þingflokkar fái formennsku í nefndum þingsins eftir þingstyrk, sem þýðir með öðrum orðum að stjórnarandstaðan hafi möguleika á formennsku í einhverjum nefndum þingsins, eftir þá ákveðnu samkomulagi, hafi hún til þess þingstyrk. Ég er sannfærður um að það mun leiða til meiri samvinnu um þingstörfin og meiri ábyrgðar hvers þingflokks á þingstörfunum og þar að auki svo virkara starfs hér í þinginu.
    Herra forseti. Ég skal ekki hafa um þetta fleiri orð, en ég ítreka þakkir mínar fyrir góðar undirtektir við þetta frv.