Ákvörðun dauða
Miðvikudaginn 13. febrúar 1991


     Frsm. heilbr.- og trn. (Guðmundur G. Þórarinsson) :
    Virðulegi forseti. Ég mæli hér fyrir nál. heilbr. - og trn. um frv. til laga um ákvörðun dauða.
    Nefndin hefur fjallað ítarlega um frv. Á fund nefndarinnar komu Björn Björnsson prófessor, Páll Ásmundsson yfirlæknir og Páll Sigurðsson ráðuneytisstjóri. Umsagnir um þetta frv. bárust frá biskupi Íslands, Prestafélagi Íslands, Læknafélagi Íslands, læknaráði Landakotsspítala, læknaráði Borgarspítala, landlækni, læknaráði Landspítala, guðfræðideild Háskóla Íslands, læknadeild Háskóla Íslands, Rannsóknastofnun Háskóla Íslands í siðfræði, Hjúkrunarfélagi Íslands og Félagi háskólamenntaðra hjúkrunarfræðinga.
    Í umsögnum komu fram nokkrar athugasemdir við hvernig staðið yrði að setningu reglna, sbr. 4. gr. frv., en ekki voru gerðar efnislegar athugasemdir við sjálfa greinina. Nefndin er sammála um að öryggi felist í því að skipuð verði fastanefnd fagfólks sem málið varðar. Fastanefndin mundi fylgjast með framþróun mála á því sviði sem hér um ræðir og gerði jafnframt tillögur til breytinga á reglugerð ef þurfa þætti.
    Einnig ítrekar nefndin nauðsyn þess að öllum bestu rannsóknum, sem völ er á í landinu, verði beitt til þess að ákvarða heiladauða.
    Nefndin er sammála um afgreiðslu málsins og leggur til að frv. verði samþykkt óbreytt.