Einkaleyfi
Miðvikudaginn 13. febrúar 1991


     Frsm. iðnn. (Hjörleifur Guttormsson) :
    Virðulegur forseti. Ég mæli hér fyrir nál. iðnn. um frv. til laga um einkaleyfi. Það er 133. mál þessarar deildar. Nál. er að finna á þskj. 631. Það er svohljóðandi:
    ,,Nefndin hefur fjallað um frv. á mörgum fundum og fékk á sinn fund til viðræðna um það Gunnar Guttormsson, Ómar Grétar Ingvarsson og Rán Tryggvadóttur frá iðnrn., Gunnar Örn Harðarson tæknifræðing, Jón Arnalds borgardómara, Hrafn Bragason, formann réttarfarsnefndar, Árna Vilhjálmsson, formann Samtaka áhugamanna um vernd eignarréttar á sviði iðnaðar, Árna Reynisson og Gunnlaug B. Daníelsson frá Félagi ísl. stórkaupmanna, Sindra Sindrason frá Pharmaco, Kristján Sverrisson frá Glaxo, Davíð Lúðvíksson og Bjarna Þór Jónsson frá Félagi ísl. stórkaupmanna, Friðrik Kristjánsson og Birki Árnason frá Omega Farma, Ottó B. Ólafsson og Guðbjörgu Eddu Eggertsdóttir frá Delta hf. Þá bárust nefndinni umsagnir um frv. frá Félagi ísl. stórkaupmanna og frá Glaxo.
    Nefndin leggur til að frv. verði samþykkt með fáeinum breytingum sem flutt er tillaga um á sérstöku þingskjali. Í brtt. er annars vegar um að ræða breytingu á gildistökuákvæði og hins vegar brottfall og breytingu á tilvísun til annarra laga.``
    Þetta er gert á Alþingi 12. febr. 1991 og undirritað af öllum nefndarmönnum í hv. iðnn. án fyrirvara.