Einkaleyfi
Miðvikudaginn 13. febrúar 1991


     Guttormur Einarsson :
    Virðulegi forseti. Af þessu tilefni vil ég nota tækifærið og fagna því að ný lög um einkaleyfi eru að líta dagsins ljós hér á Íslandi. Það er langt um liðið síðan Íslendingar fengu sín einkaleyfislög sem eru í gildi og satt best að segja eru þau með öllu úrelt. Má þar nefna sem dæmi atriði er varða alþjóðleg samskipti okkar varðandi skráningu einkaleyfa og ýmis þau ákvæði sem okkur ber að uppfylla til að geta slegist í hóp þeirra þjóða sem hafa þá samvinnu með sér.
    Mér varð ljóst að nokkur styrr var um einstök ákvæði í hinum nýju lögum en sé nú að þau hafa fengið farsæla úrlausn. Hitt setur að mér nokkurn ugg þegar það nú upplýsist að til skrafs og ráðagerða við hv. iðnn. hafa verið kallaðir ýmsir aðilar en, sem vekur athygli mína og hugsanlega annarra, að þar voru ekki boðaðir á fund hagsmunaaðilar sem kannski fyrst og fremst eiga allt undir því að vönduð einkaleyfislöggjöf sé í gildi á Íslandi. Hér vitna ég til félagsskapar sem heitir Félag ísl. hugvitsmanna, félagsskapar þeirra manna sem fást við nýjungar og þurfa á réttarvernd að halda eins og þeirri sem lög þessi boða.
    Það er einkum athyglisvert vegna þess að hið hv. Alþingi og fjvn. hefur í verknaði viðurkennt þessi félagssamtök með því að veita þeim styrk á síðasta ári og að því er ég best veit hefur í hyggju að gera það núna að nokkru leyti. Allt um það mun ég ekki, sem og aðrir sem hafa fengist við málefni hugvitsmanna, láta mér úldna í hjarta þó þarna hafi verið sneytt um að eiga orðastað við hugvitsmenn og lýsi enn og aftur að lokum fögnuði yfir því að mál þetta skuli komið á svo góðan rekspöl.