Vökulög
Fimmtudaginn 14. febrúar 1991


     Sjávarútvegsráðherra (Halldór Ásgrímsson) :
    Virðulegur forseti. Hv. þm. Árni Gunnarsson hefur lagt fram fsp. um hvernig háttað er eftirliti með framkvæmd vökulaga, þ.e. laga nr. 53/1921, um borð í frystitogurum. Þessari fsp. var beint til sjútvrh.
    Því er fyrst til að svara að ekki er með öllu vafalaust á verkefnasviði hvaða ráðuneytis lögin um hvíldartíma háseta á íslenskum botnvörpuskipum eru. Enda þótt sjútvrn. fari með málefni er varða sjávarútveg og frv. að vökulögunum hafi á sínum tíma verið til umfjöllunar í sjútvn. Alþingis hafa málefni er varða starfsskilyrði og aðbúnað á vinnustöðum, þar á meðal um borð í fiskiskipum, verið falin öðrum ráðuneytum. Eru þau almennt falin félmrn. en þó eru slík málefni varðandi loftför og skip almennt á verkefnasviði samgrn., sbr. 2. og 3. gr. laga nr. 46/1980. Af hálfu sjútvrn. hefur ekki farið fram sérstakt eftirlit með því hvernig framkvæmd vökulaganna er háttað um borð í frystitogurum. Leiðir það raunar af eðli máls að slíku opinberu eftirliti með vinnutíma verður ekki við komið varðandi starfsemi sem fram fer úti á rúmsjó. Er stjórnvöldum heldur ekki falið sérstakt eftirlitshlutverk í lögum nr. 53/1921. Virkt eftirlit með framkvæmd laganna getur aldrei orðið nema þeir sem lögunum er ætlað að vernda, þ.e. sjómennirnir sjálfir og samtök þeirra, láti í sér heyra ef þeir telja rétt á sér brotinn. Hefur ekki orðið vart við kvartanir sjómanna í þessu efni fyrr en á allra síðustu vikum.
    Vökulögin sjálf kveða skýrt á um hvernig með skuli fara ef grunur vaknar um að þau hafi verið brotin. Skal fara með slík mál að hætti opinberra mála. Eðlilegur gangur mála af þessu tagi er því sá að þeir sem telja rétt á sér brotinn eða samtök þeirra kæri meint brot til lögreglu eða eftir atvikum ríkissaksóknara. Málin sæta síðan venjulegri meðferð í réttarkerfinu en í lögunum er kveðið á um viðurlög í formi sekta eða réttindamissis. Enda þótt beinu eftirliti stjórnvalda með framkvæmd einstakra skipstjóra á ákvæðum vökulaga séu í eðli sínu takmörk sett er ekki þar með sagt að stjórnvöld geti ekki gert meira en hingað til varðandi aðbúnað og starfsaðstöðu um borð í vinnsluskipum.
    Á síðustu árum hefur fullvinnsla á sjávarafurðum færst í auknum mæli út á sjó og hafa þau störf verið mjög eftirsótt. Eru nú 20 -- 30 skip sem vinna bolfisk úti á sjó, flest í frystingu. Eflaust má gagnrýna stjórnvöld fyrir að vera sein til þess að bregðast við þessum breyttu aðstæðum á ýmsum sviðum, þar á meðal varðandi vinnuvernd og aðbúnað á vinnustað. Í sjútvrn. eru nú á lokastigi reglur um að auknar kröfur verði gerðar til nýtingar þessara skipa og aukaafla og því sem hingað til hefur verið kallaður úrgangur. Þótt vinnuumhverfismál á sjó séu ekki beinlínis á verksviði sjútvrn. er eðlilegt að þau verði tekin til skoðunar í tengslum við fyrirhugaðar breytingar og verður það gert í samvinnu við samgrn. og Siglingamálastofnun.