Vökulög
Fimmtudaginn 14. febrúar 1991


     Sjávarútvegsráðherra (Halldór Ásgrímsson) :
    Virðulegi forseti. Það er leitt að hv. þm. Skúli Alexandersson þurfi að fara að blanda þessum málum saman. Auðvitað er það oft sem Íslendingar hafa vakað og hafa þurft að vaka við ýmsa vinnu. Og það verður aldrei komið á því opinbera eftirliti að komið verði í veg fyrir það að einstakir aðilar vaki umfram það sem sagt er í lögum. Ég veit ekki betur en þingið sé hér oft langtímum saman að næturlagi þótt það standi í lögum að slíkt sé óheimilt að því er varðar vinnutíma. Hv. þm. segir að þetta sé vegna breyttrar fiskveiðistefnu. Ég veit ekki betur en að það hafi verið gert þegar menn stunduðu síldveiðar hér áður fyrr, og ég gæti trúað því að hv. þm. hafi verið með í því eins og sá sem hér stendur. Ætli það hafi ekki stundum verið vakað í yfir tvo sólarhringa ef því var að skipta? Og ef lítið veiðist, t.d. við nótaveiðar, ætli menn vaki nú ekki oft langtímum saman og umfram það sem segir nákvæmlega í lögum? Það verður aldrei hægt að setja allar lífsreglur í lög. Íslendingar eru mjög gefnir fyrir að setja lög um hvað eina en það er ekki hægt að reikna með því að hið opinbera fylgist með öllu að því er varðar samskipti vinnuveitenda og launþega. Þess vegna verða launþegarnir sjálfir að vera hið vakandi eftirlit sem gerir mest gagn í þessum efnum.