Raðsmíðaskip
Fimmtudaginn 14. febrúar 1991


     Sjávarútvegsráðherra (Halldór Ásgrímsson) :
    Virðulegur forseti. Hér er um fyrirspurn að ræða sem beint er til tveggja ráðherra. Skal ég reyna að upplýsa það sem ég get að því er sjútvrn. varðar.
    Í lögum nr. 97/1985, um stjórn botnfiskveiða 1986 -- 1987, var heimilað að veita skipum sem smíði var hafin á hér á landi fyrir árslok 1983 veiðileyfi sem einkum skyldu miðast við veiðar á vannýttum fiskstofnum. Á grundvelli þessarar heimildar var raðsmíðaskipum veitt leyfi til veiða á úthafsrækju sem á þeim tíma var talinn vannýttur stofn. Með þessu móti var leitast við að skapa þessum skipum rekstrargrundvöll og skerða þannig aflahluta annarra skipa sem minnst. Á þessum tíma gengu veiðar á úthafsrækju vel og verð á henni var hátt. Jafnframt þótti nauðsynlegt að úthluta skipunum aflaheimild í botnfiski því óhjákvæmilegt er að botnfiskur komi í rækjuvörpurnar við veiðar. Var meðafli skipanna ákveðinn 80 þorskígildistonn sem miðaðist við afla þess rækjuskips sem mestan meðalafla hafði árið 1985.
    Á árinu 1987 var raðsmíðaskipum veitt heimild til úthafsrækjuveiða og úthlutað 200 þorskígildistonnum sem meðafla. Á árinu 1987 var að tillögu Hafrannsóknastofnunar gripið til takmarkana á úthafsrækjuveiðum. Var það m.a. gert með því að takmarka framsalsheimildir skipa sem rækjuveiðar stunduðu og fella niður heimild sóknarmarksskipa til að stunda veiðar á úthafsrækju utan leyfilegra sóknardaga. Með lögum nr. 3/1988, um stjórn fiskveiða 1988 -- 1990, var ráðherra veitt heimild til að skipta úthafsrækjuveiðiheimild milli einstakra skipa. Var sú heimild nýtt þegar á árinu 1988, enda hafði Hafrannsóknastofnun lagt til frekari takmörkun á úthafsrækjuafla. Á grundvelli reglugerðar nr. 16/1988, um stjórn fiskveiða, gafst raðsmíðaskipum kostur á
að velja milli tveggja kosta. Það var annars vegar leyfi til rækjuveiða með aflamarki að hámarki 500 lestir og hins vegar rækjuleyfi með sóknarmarki með heimild til að stunda úthafsrækjuveiðar í 260 daga með 900 lesta hámarki. Jafnframt var veitt heimild til að koma með 200 lestir af botnfiski sem meðafla reiknað í þorskígildum. Var það gert til að bæta að hluta þá takmörkun á úthafsrækjuafla skipanna sem nauðsynlegt þótti að gera. Þrjú skipanna völdu sóknarmark en eitt valdi aflamark.
    Á grundvelli tillagna Hafrannsóknastofnunar var leyfilegur heildarafli á úthafsrækju lækkaður á árinu 1989. Vegna þessa niðurskurðar þótti nauðsynlegt að leggja niður möguleika til vals á sóknarmarki í rækjuveiðunum. Á því ári fengu raðsmíðaskipin heimild til að veiða 500 lestir af rækju og 180 lestir af botnfiski og var þá felld niður sú skylda að hér væri eingöngu um meðafla að ræða. Lækkun í botnfiski um 20 tonn kom til vegna 10% samdráttar í heildarveiði á þorski.
    Árið 1990 voru veiðiheimildir raðsmíðaskipa þær sömu í rækju og árið áður en bætt var við veiðiheimildina 10% síðla árs þar sem leyfilegur heildarafli var aukinn. Botnfiskveiðiheimildir lækkuðu aftur milli ára, nú úr 180 lestum í 165 lestir vegna samdráttar í heildarveiði á þorski.
    Veiðiheimildir skipanna fyrir árið 1991 eru samkvæmt lögum nr. 38/1990, um stjórn fiskveiða, og er grunnur að aflahlutdeild þeirra í framtíðinni.
    Varðandi 2. lið fsp. skal tekið fram að af hálfu sjútvrn. var aldrei gefið það fyrirheit að raðsmíðaskipin mundu fá þær aflaheimildir sem þyrfti til að reka slík skip. Það hljóta allir að sjá hversu fráleitt er að gefa slík loforð. Við skiptingu á takmarkaðri auðlind þar sem leyfilegur heildarafli er breytilegur milli ára verða aðilar því miður að sætta sig við ýmsar sveiflur. Á það er rétt að benda að frjáls aðgangur að úthafsrækju ásamt meðafla í botnfiski var á sínum tíma vænlegur kostur. Eins og ég hef bent á hér áður, þá varð að takmarka veiði í úthafsrækju vegna of mikillar sóknar. Veiðiheimildir raðsmíðaskipa eins og þær eru í dag ættu að vera vel viðunandi miðað við mörg önnur skip. Afkoma skipanna ræðst þó ekki eingöngu af aflaheimildum þeirra. Má t.d. benda á að raðsmíðaskip hafa ekki alltaf náð að veiða þann afla sem þeim var heimilað og verð á rækju er sveiflukennt og getur breyst mjög milli ára.
    Virðulegur forseti. Ég sé að hæstv. fjmrh. er ekki hér og ég skal því reyna að svara nokkru af því sem til hans var beint og ég hef upplýsingar um.
    Í fyrsta lagi varðandi þá spurningu sem varðar það að Ríkisábyrgðasjóður hafi selt þessi skip, þá er það ekki rétt því að seljendur voru skipasmíðastöðvar þær sem smíðuðu skipin, þ.e. Slippstöðin hf., Stálvík hf. og Þorgeir og Ellert hf. Að því er varðar verð skipanna til kaupenda, þá mun það hafa verið sem hér segir: Oddeyri EA, seld 10. des.1986, 193 millj. 299 þús. kr. Nökkvi HU, seldur 9. febr. 1987, 202 millj. 310 þús. kr. Gissur ÁR, seldur 10. mars 1987, 211 millj. 866 þús. kr. Jöfur KE, seldur 29. júlí 1988, 281 millj. 68 þús. kr. Þær skuldir sem hvíla á skipunum án dráttarvaxta miðað við síðustu áramót eru: Oddeyri EA 241 millj., Nökkvi HU 257 millj., Gissur ÁR 265 millj. og Jöfur KE 320 millj.
    Að því er varðar áætlað söluverð skipanna treysti ég mér ekki til að segja fyrir um það. Þar verður framboð og eftirspurn og markaðsverð að ráða og ekki auðvelt að leggja þar mat á.
    Hvernig endanlega á að ganga frá málum þessara skipa get ég ekki upplýst. Það mál er í höndum þeirra skipasmíðastöðva sem þessi skip seldu, væntanlega með aðild Ríkisábyrgðasjóðs.