Raðsmíðaskip
Fimmtudaginn 14. febrúar 1991


     Fyrirspyrjandi (Ragnar Arnalds) :
    Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. sjútvrh. fyrir svör hans þótt ekki væru þau nú fullnægjandi og reyndar fengust ekki svör við öllum spurningunum. En það kom glöggt fram af máli hans að kvóti þessara skipa hefur verið skertur mjög verulega, þ.e. úr 900 tonnum í úthafsrækju og niður í 500 -- 550 tonn og síðan í þorskígildum úr 200 tonnum í 165 tonn. Ég held að menn hljóti að átta sig á því þegar þetta mál er skoðað að rekstrargrundvöllur er engan veginn fyrir hendi hjá þessum skipum þegar svo er komið sem nú er. Vil ég í þessu sambandi vekja á því athygli að þegar samningar voru undirritaðir og útboðsskilmálar sendir út með sérstakri auglýsingu fjmrn. í janúar 1986, þá var sérstaklega tekið fram að skipunum yrði heimilað að stunda rækjuveiðar í íslenskri fiskveiðilandhelgi utan grunnlínu samkvæmt reglum sem gilda um veiðiheimildir sambærilegra skipa. Mér sýnist á öllu að ekki hafi verið við þetta staðið. Og mér er nær að halda að í raun og veru séu brostnar forsendur fyrir þeim kaupum sem gerð voru á sínum tíma nema til komi einhver leiðrétting á kvóta eða kaupverði.
    Það er ljóst að málefni þessara skipa liggja afvelta í kerfinu (Forseti hringir.) og ég vil, af því að ég hef nú ekki meiri tíma, láta nægja að skora á hæstv. ráðherra að líta á málefni þessara skipa af velvild og skilningi og reyna að finna þar einhverja lausn á.