Raðsmíðaskip
Fimmtudaginn 14. febrúar 1991


     Pálmi Jónsson :
    Virðulegi forseti. Í þessari fsp. eru tvö meginatriði. Í fyrsta lagi er því haldið mjög staðfastlega fram af kaupendum þessara skipa að gefin hafi verið fyrirheit um að þeim yrði úthlutað kvóta sem væri í samræmi við það sem gerðist á sambærilegum skipum þannig að ætla mætti að það tryggði rekstrargrundvöll þeirra. Hæstv. ráðherra segir hér að engin slík loforð hafi verið gefin af sjútvrn. Það stangast auðvitað á við fullyrðingar eigenda skipanna um að slík loforð hafi verið gefin út af ríkisstjórn. Það virðist a.m.k. að þetta hafi ekki staðist. Í annan stað hafa ekki verið gefin út afsöl fyrir þessum skipum og það verður auðvitað að ganga í það að koma þeim málum á hreint.