Vandamál atvinnulífs á Seyðisfirði
Fimmtudaginn 14. febrúar 1991


     Fyrirspyrjandi (Hjörleifur Guttormsson) :
    Virðulegi forseti. Á þskj. 550 hef ég leyft mér að bera fram svofellda fsp. til hæstv. forsrh.:
    ,,Hvað hyggst ríkisstjórnin gera til að auðvelda lausn á vandamálum atvinnulífs á Seyðisfirði?``
    Fyrirspurnin er borin fram vegna þess ástands sem ríkt hefur í atvinnumálum á Seyðisfirði um eins og hálfs árs skeið eða frá því að Fiskvinnslan hf. á staðnum varð gjaldþrota. Frá þeim tíma hefur ekki verið stunduð fiskvinnsla í landi fyrr en nýtt hlutafélag hóf þar rekstur um síðustu mánaðamót. Á þessum tíma hefur fjöldi manns verið atvinnulaus á Seyðisfirði, svona nálægt 100 manns að meðaltali á síðasta ári, og þar voru greiddar í atvinnuleysisbætur eitthvað nálægt 30 millj. kr. á sama tíma. Heimamenn og þá ekki síst bæjaryfirvöld og verkalýðsfélagið Fram á staðnum hafa glímt við þann vanda að endurreisa fiskvinnslu í landi og staðið fyrir hlutafjársöfnun og framlögum hlutafjár og nýtt hlutafélag var stofnað sl. haust, Fiskiðjan Dvergasteinn, sem nú hefur hafið vinnslu og samið um kaup á togskipi.
    Það er hins vegar alveg ljóst að grunnurinn undir rekstri þessa fyrirtækis er enn ótraustur og forráðamenn þess hafa leitað til Byggðastofnunar og ríkisstjórnar um úrlausn á þeim fjárhagsvanda. Fyrirtækið hefur ónógar veiðiheimildir og ótryggt hráefni til rekstrar og það er sá vandi sem einkum er við að glíma. Við þetta bætist síðan sá brestur í loðnuveiðum sem orðið hefur á þessum vetri. Nýendurgerð fiskimjölsverksmiðja Síldarverksmiðja ríkisins hefur úr litlu að moða eins og aðrar loðnuverksmiðjur og því ótryggt ástand um atvinnu hjá því fyrirtæki.
    Ég tel eðlilegt þar sem hér eru ríkir almannahagsmunir í húfi í þessu 1000 manna byggðarlagi að það sé rætt hér á Alþingi og leitað upplýsinga frá stjórnvöldum hvað þau fyrir sitt leyti ætla að gera til að bregðast við óskum heimamanna á Seyðisfirði um aðstoð við þessum mikla vanda.