Vandamál atvinnulífs á Seyðisfirði
Fimmtudaginn 14. febrúar 1991


     Forsætisráðherra (Steingrímur Hermannsson) :
    Virðulegi forseti. Strax og fsp. frá hv. þm. barst sendi ég hana Byggðastofnun og óskaði eftir tillögum hennar. Reyndar hafði Byggðastofnun þegar fengið málið því að mér barst erindi frá Seyðfirðingum um mánaðamótin og það erindi var tekið fyrir 4. þessa mánaðar í ríkisstjórninni og þá ákveðið að biðja Byggðastofnun um athugun á því erindi og tillögur.
    Mér er kunnugt um að Byggðastofnun vinnur ítarlega að þessu máli, hefur m.a. heimsótt staðinn. Hins vegar tjáði Byggðastofnun mér að þeir gætu ekki haft þá skýrslu sem þeir vildu hafa tilbúna fyrr en eftir helgina. Þetta hefur hv. fyrirspyrjanda verið tjáð en hann óskaði engu að síður eftir því að málið yrði tekið hér fyrir. Af þessari ástæðu get ég í raun ekki svarað þessari fsp. á þessari stundu á annan máta en þennan að málið er í mjög ítarlegri athugun.
    Hins vegar er það rétt sem kom fram hjá hv. fyrirspyrjanda og þarf ekki að ítreka hér að þarna er mjög alvarlegt ástand og búið að vera alllengi. Málefni Seyðisfjarðar og frystihússins þar var tekið fyrir í Hlutafjársjóði þegar í upphafi hans starfsemi á árinu 1989. Því var þá vísað frá af þeirri ástæðu að stjórn sjóðsins taldi sig ekki geta séð rekstrargrundvöll eins og ástatt var á staðnum fyrir frystihúsið af þeirri einföldu ástæðu að eigendur þeirra tveggja togara sem þar eru hafa kosið að flytja úr landi langmestan hluta aflans, allan hluta aflans af öðrum togaranum og mest af hinum þannig að ljóst var að kaupa yrði að kvóta sem ekki virtist falur.
    Stjórn Hlutafjársjóðs hafnaði því að ganga inn í fyrirtækið og það var gert gjaldþrota. Eins og kom fram hjá fyrirspyrjanda hafa heimamenn nú endurreist fyrirtækið og safnað hlutafé og hafa farið fram á það að þeim verði útvegað af opinberri hálfu hlutafé upp á 50 -- 60 millj. kr. Ríkissjóður mun ekki leggja það hlutafé fram. Hann er eins og menn vita frekar að selja frystihús nú heldur en að kaupa, enda ekki eðlilegt að ríkissjóður geri það. Hins vegar sýnist mér vel koma til greina að Byggðastofnun taki þátt í þessari endurreisn staðarins og því er erindið þar og verður til meðferðar hjá stjórn Byggðastofnunar. Ég mun taka það fyrir í ríkisstjórninni strax og erindið berst og get ekki á þessari stundu sagt um hverjar tillögurnar verða eða hvernig þeim verður tekið nema það að það er fullur vilji í ríkisstjórninni að gera allt það af opinberri hálfu sem réttlætanlegt er og unnt er til að koma þessu frystihúsi í rekstur. En meira treysti ég mér því miður ekki til að segja á þessari stundu.