Vandamál atvinnulífs á Seyðisfirði
Fimmtudaginn 14. febrúar 1991


     Fyrirspyrjandi (Hjörleifur Guttormsson) :
    Virðulegur forseti. Ég þakka hæstv. forsrh. þau svör sem hann reiddi hér fram varðandi þetta mál þar sem upplýst er að að þessu máli sé unnið að ósk ríkisstjórnar í Byggðastofnun. Hæstv. forsrh. vísar fyrst og fremst á þá stofnun til úrlausnar
þeim fjárhagsvanda sem fiskvinnsla á Seyðisfirði stendur frammi fyrir og greinir frá því að ekki sé að vænta þess að ríkissjóður geti komið inn í það mál.
    Nú er ég ekki að biðja um nákvæmar upplýsingar um það hvernig þessi vandi verði leystur í einstökum atriðum. Meginatriðið er að það verður auðvitað ekki hjá því komist að með samstilltu átaki heimamanna, bankastofnana og ríkisvalds, ríkisstjórnar, verði ráðið fram úr þeim mikla vanda sem er í þessu byggðarlagi. Það er almannavandi þess fólks sem þarna býr og hefur búið við þrengingar og óvenjumikið atvinnuleysi um rösklega eins árs skeið. Það er alveg ljóst að þarna verður að stilla saman og þar eð það hefur ekki tekist án íhlutunar af opinberri hálfu, þá er óhjákvæmilegt að opinberir aðilar og ríkisstjórnin stilli þarna saman til þeirrar lausnar sem nægir til þess að tryggja vinnslu á staðnum. Eins og ég gat um bætist þarna við vandi loðnuveiðanna, loðnubresturinn, sem leggst á þetta mál enn frekar.
    Það sem hefur gerst á Seyðisfirði undanfarin missiri og raunar um lengri tíma hvað snertir útflutning á óunnum fiski er lýsandi dæmi um það hvernig til getur tekist undir merkjum þeirrar fiskveiðistjórnar sem við búum við og höfum búið við. Það er umhugsunarefni fyrir sig sem ekki er hægt að ræða hér, en á árunum upp úr 1980 var vinnslan í landi og veiðarnar aðskilin sem liður í fjárhagslegri endurskipulagningu sjávarútvegsfyrirtækja á staðnum. Það voru ráðin sem gripið var til þá. Það voru óráð að mínu mati og svo hefur reyndar gerst víðar í stað þess að nauðsynlegt er að þessir hagsmunir taki saman, leggist á eitt um að nýta það sem úr sjónum kemur.
    Virðulegur forseti. Ég skal ekki bæta hér við. Ég vil aðeins hvetja stjórnvöld til þess að hraða eftir því sem frekast er unnt úrlausn mála þó mér sé ljóst að það þurfi og er eðlilegt að fleiri komi þar til og þá ekki síst bankastofnanir.