Vandamál atvinnulífs á Seyðisfirði
Fimmtudaginn 14. febrúar 1991


     Jón Kristjánsson :
    Virðulegi forseti. Ég vil taka undir það sem fram hefur komið við þessa umræðu að það er nauðsynlegt að það fáist niðurstaða sem fyrst um það með hverjum hætti Byggðastofnun hugsanlega getur komið til aðstoðar til að styrkja stoðir fiskvinnslunnar á Seyðisfirði. Vandinn er tvíþættur, styrkja stoðir hennar og ná um það samkomulagi að sá afli sem berst á land þar á staðnum sé þar unninn.
    Hér var minnst á útflutning afla. Ég hef verið þeirrar skoðunar að skerðing á aflakvóta þyrfti að vera meiri fyrir þau skip sem sigla, en við alþingismenn vitum að um þá skerðingu sem er er málamiðlun milli hagsmunaaðila í þjóðfélaginu og vegna þeirrar málamiðlunar er sú skerðing ekki nema 20%. Það er ekki nógu mikil skerðing til að slá nægilega á þessar siglingar.