Vandamál atvinnulífs á Seyðisfirði
Fimmtudaginn 14. febrúar 1991


     Egill Jónsson :
    Virðulegi forseti. Því miður hafa málefni Seyðisfjarðar ekki skýrst við þessa umræðu. Þess var kannski ekki að vænta út af fyrir sig, enda hefur sú raunin ekki orðið á.
    Það vakti eftirtekt mína sem fram kom í ræðu hv. 3. þm. Austurl. þar sem hann hafði orð á því að afstaða og hjálp Byggðastofnunar í þessum efnum þyrfti að skýrast. Ég hélt að fyrir lægi erindi til ríkisstjórnarinnar frá Seyðfirðingum þannig að þetta væri ekki eingöngu bundið við Byggðastofnun.
    Ég má til með út frá því sem hér hefur komið fram að minna á það að ýmsir hlutir eru óuppgerðir milli Byggðastofnunar og ríkisstjórnarinnar. Ef ég man rétt, þá sögðu Seyðfirðingar það með skýrum orðum að þau viðbrögð hefðu komið fram, m.a. frá hæstv. forsrh., að það ætti að tengja úrlausn vandamála Seyðfirðinga við afgreiðslu á málefnum Byggðastofnunar. Mér finnst því að þessi umræða hafi frekar gengið aftur á bak en áfram og það var tilefni þess að ég kom hér upp í pontu.