Fræðsla fyrir útlendinga
Fimmtudaginn 14. febrúar 1991


     Fyrirspyrjandi (Danfríður Skarphéðinsdóttir) :
    Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. menntmrh. fyrir svör hans og ég fagna því sem verið er að gera í þessum málum, þ.e. að skipuleggja fræðslu og leiðsögn fyrir útlendinga. Ég er alveg sammála honum um að það er orðið tímabært að löggjafinn hugi að því að setja sérstaka löggjöf um útlendinga. Þannig er það í nágrannalöndum okkar að þar hafa verið lagðar skyldur á stjórnvöld að veita þeim fræðslu af ýmsu tagi. T.d. í Danmörku er það svo að sú skylda hvílir á sveitarfélögum. Sveitarfélögum á Íslandi yrði það sennilega, alla vega mörgum hverjum, mjög erfitt. Hins vegar er mjög mikilvægt að fólk verði aðstoðað við að kynna sér aðstæður hér, að ekki sé talað um að læra tungumálið. Það hefur einmitt komið í ljós og hefur verið fjallað um það nokkuð nú að undanförnu að erlendar konur sem giftast Íslendingum virðast að ýmsu leyti vera verr settar en karlar hvað varðar það að tengjast og aðlagast íslensku þjóðfélagi. Einkum er það erfitt fyrir konur sem eru upprunnar í þjóðfélögum þar sem staða konunnar og viðhorf til kvenna er gerólíkt því sem hér gerist, þar sem litið er á stöðu konunnar eingöngu inni á heimilinu og engin félagsleg þjónusta þekkist. En það er auðvitað ekki síður mikilvægt að þeir karlmenn sem hingað flytja vegna hjúskapartengsla fái góða þekkingu á þjóðfélaginu og möguleika til þess að aðlagast.
    Ég ítreka þakkir mínar til hæstv. menntmrh. fyrir það sem þegar er í bígerð og vona að fljótlega verði að því hugað að setja sérstaka löggjöf um fræðslu fyrir útlendinga og réttindi þeirra á ýmsum sviðum. Ég vil einnig fagna því framtaki, fyrst hæstv. félmrh. er hér stödd núna, sem felst í því að gefa út þann bækling sem hæstv. menntmrh. minntist á. Það var líka orðið mjög svo tímabært.