Hlutafjárkaup Síldarverksmiðja ríkisins
Fimmtudaginn 14. febrúar 1991


     Fyrirspyrjandi (Friðrik Sophusson) :
    Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra svar hans sem reyndar kom ekki á óvart. Ég vil byrja á því að þakka yfirlýsingar hans um að hann telji að breyta eigi Síldarverksmiðjum ríkisins í hlutafélag. Ég skil það svo, án þess að það hafi komið fram í ræðu hæstv. ráðherra, að það geti verið fyrsta skrefið í þá átt að einkavæða þennan rekstur sem er í fullri og frjálsri samkeppni við samsvarandi rekstur annarra fiskimjölsverksmiðja.
    Það var athygli vert að hæstv. ráðherra virtist ekki hafa komið nálægt þeirri ákvörðun þegar verksmiðjan keypti hlutafé í Landssmiðjunni, enda orðaði hæstv. ráðherra það svo að honum sýndist sem þetta lægi til grundvallar. Ég vil láta koma fram hér að það kann að vera í einhverjum tilvikum eðlilegt að slík viðskipti eigi sér stað. Ég bendi þó á að Síldarverksmiðjur ríkisins eru í fjárhagserfiðleikum, þ.e. í lausafjárerfiðleikum getum við orðað það, því eignarstaðan er áreiðanlega góð. Á móti kemur að fyrirtæki eins og Landssmiðjan --- og ég fagna því sérstaklega ef því fyrirtæki gengur vel á yfirstandandi ári og síðasta ári --- á í samkeppni við önnur samsvarandi fyrirtæki sem einnig eru fjárvana. Sum þessara fyrirtækja eru nánast undir hamrinum og hafa sótt um sams konar fyrirgreiðslu af mjög svipuðum ástæðum hjá öðrum ríkisfyrirtækjum en fengið synjun. Á ég þar sérstaklega við Þorgeir og Ellert á Akranesi.
    Það er ugglaust rétt sem kom fram hjá hæstv. ráðherra að um samnýtingu sé að ræða og hægt að spara með þessu. Slíkt hefði verið hægt að gera án kaupa með sérstökum samningi. Það væri þess vegna full ástæða til þess að beina því til hæstv. ráðherra að hann, ekki síst vegna afstöðu sinnar til þess að breyta formi fyrirtækisins, hvetji Síldarverksmiðjurnar til þess að selja aftur þau bréf sem þær hafa keypt í gegnum tíðina þannig að fyrirtækið lítið út eignalega eins og önnur fyrirtæki sem starfa í þessari sömu grein.
    Ég veit, virðulegi forseti, að ekki er hægt að hefja hér umræður um málefni Síldarverksmiðja ríkisins, um arðsemi af Síldarverksmiðjunum og hve miklu þær hafa skilað í ríkissjóð. En ég vildi vekja athygli á þessu máli vegna þess að ég tel að ríkisvaldið þurfi að gæta samræmis þegar um er að ræða þátttöku ríkisins í atvinnurekstri sem starfar á viðskiptalegum sjónarmiðum í fullri samkeppni.