Áfengisneysla
Fimmtudaginn 14. febrúar 1991


     Fyrirspyrjandi (Skúli Alexandersson) :
    Virðulegi forseti. Á þskj. 555 hef ég leyft mér að leggja svohljóðandi fsp. fyrir hæstv. heilbr. - og trmrh. um áfengisneyslu:
 ,,1. Hvaða breyting varð á almennri áfengisneyslu milli áranna 1988 og 1989?
    2. Hvaða breyting varð á áfengisneyslu unglinga 13 -- 19 ára milli áranna 1988 og 1989 (sundurgreint eftir kynjum)?
    3. Hvernig skýra heilbrigðisyfirvöld þær breytingar sem um er spurt?``
    Þessar fsp. mínar flyt ég hér fyrst og fremst til þess að fá upplýst á Alþingi hver þróun í áfengiskaupum hefur orðið í beinum tengslum við það að bjórsala var leyfð í landinu og fá upplýsingar um það hvernig þær breytingar hafa komið fram í sambandi við áfengisneyslu unglinga. Ef þarna hafa átt sér stað breytingar, sem grunur minn er að hafi verið aukning, hvernig heilbrigðisyfirvöld skýra það þá. Og einnig hvort ekki hafi átt sér stað það sem mikið var um talað á hv. Alþingi þegar bjórsalan var samþykkt, hvort ekki hafi verið í gangi forvarnaaðgerðir, upplýsingaaðgerðir sem þá var talið sjálfsagt að mundi verða beitt til þess að bjórsalan hefði ekki áhrif í þá átt að auka áfengisneyslu í landinu. Að öðru leyti skýra spurningarnar sig sjálfar.