Áfengisneysla
Fimmtudaginn 14. febrúar 1991


     Fyrirspyrjandi (Skúli Alexandersson) :
    Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. heilbrrh. fyrir svör hans. Eins og hæstv. ráðherra nefndi voru þau að sumu leyti reyndar kunn úr fréttum fjölmiðla, en ég taldi, eins og ég nefndi, ástæðu til að fá þessar upplýsingar hér inn á hv. Alþingi.
    Ég vil aðeins nefna, til þess að bæta við þær upplýsingar sem hæstv. ráðherra gaf í sambandi við þróun á áfengiskaupum, að aukningin er sú á síðasta ári, þó hún hafi minnkað frá árinu
1989, miðað við árið 1988 fimmta hver flaska er aukning, þ.e. núna á árinu 1990 voru alkóhólkaup 5,24 lítrar en á árinu 1988 4,48.
    Á þessu tímabili hefur líka, eins og öllum er kunnugt um, áfengisveitingastöðum fjölgað og flest verið meira á þann veg að aðstaða til neyslu áfengis og hvatning til neyslu áfengis verið frekar í gangi heldur en hitt, að við höfum fundið fyrir því að um miklar forvarnaraðgerðir hafi verið að ræða, þó að ég viðurkenni og taki undir það að ráðuneyti hæstv. ráðherra hefur verið með slíka starfsemi. Væri mjög æskilegt að fá frekari upplýsingar um þau mál hér á hv. Alþingi eins og reyndar hæstv. ráðherra nefndi.
    Ég endurtek að ég þakka fyrir þær upplýsingar sem hér liggja fyrir. Þær eru þá komnar inn á hv. Alþingi, og væri eðlilegt að við fengjum frekari umfjöllun um þessi mál, ekki síst út frá þeim heitstrengingum sem í gangi voru þegar var verið að samþykkja bjórinn og um þá sjálfsögðu hluti sem í gang áttu að fara eftir að sú aðgerð hafði farið fram að reyna að hamla gegn aukinni neyslu. Því miður virðist neyslan hafa aukist og ekki beinar líkur fyrir því að hún sé neitt að minnka þó að munur hafi verið á milli ársins 1989 og 1990 þar sem vera má að sú minnkun sem átti sér stað á árinu 1990 sé fyrst og fremst vegna þess að á því ári varð kaupmáttarrýrnun. Það er þekkt fyrirbrigði í sambandi við áfengiskaup að áfengisneysla minnkar þegar þannig er ástatt í þjóðfélaginu.