Áfengisneysla
Fimmtudaginn 14. febrúar 1991


     Guttormur Einarsson :
    Virðulegi forseti. Það má ekki hjá líða að benda á veigamikil atriði í þessu máli þegar það kemur á dagskrá hjá Alþingi. Einhvern veginn hefur svo farið að ekki hefur verið á það drepið í þessari umræðu að veigamikil breyting varð á öllum aðdráttum á áfengi við þessi umskipti. Það má segja að víst sé talið að smygl á bjór hafi nánast lagst af við tilkomu löglegrar sölu á áfengum bjór á Íslandi sem auðvitað hafði það í för með sér að ríkissjóður fékk réttilega þær tekjur af þessum annars umdeilda bölvaldi. Þar af leiðandi má sjá að allar viðmiðanir og tölur sem fyrir liggja eru að vissu leyti varhugaverðar þar sem ekki liggur fyrir hve mikil neysla var í gangi af smygluðum áfengisvörum áður en bjór var leyfður. Það er hins vegar hægt að geta sér til hvert magnið hefur verið ef menn reyna að áætla þá miklu aukningu sem varð í áfengisneyslu við þessi umskipti og þá getur hver sem er reiknað til baka hvaða tekjum ríkið hefur tapað af á meðan bjór var ekki leyfður á Íslandi.