Fyrirspyrjandi (Málmfríður Sigurðardóttir) :
    Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. heilbrrh. svör hans. Ég man ekki að ég segði í þessari upptalningu minni að það væru margir læknar sem ég áliti að væru utan þessa kerfis en það kemur þó í ljós að það eru einkum bæklunarlæknar sem eru það. Það er einmitt þar sem skórinn kreppir því að það eru bæklunaraðgerðir sem margir bíða og mönnum finnst erfitt að þurfa að bíða eftir. Varðandi biðtímann, þá er ljóst að hann er skemmri hjá þeim sem sinna aðgerðum á sínum eigin stofum og það er líka ljóst að þeir sem gangast undir aðgerðir þar og eru síðan sendir heim fljótlega þurfa að koma til læknis kannski mjög oft eftir aðgerðina og greiða fyrir þá tíma og þetta getur orðið kostnaðarsamt.
    Aftur á móti eru þessir löngu biðlistar á sjúkrahúsunum aðalásteytingarsteinn fólks því að því þykir illt að una því að þurfa að bíða jafnvel ár. Ég veit þess dæmi að það er ekkert óalgengt að fólk þurfi að bíða jafnvel í ár eða lengur eftir að komast að í aðgerð. Það geta margar orsakir verið fyrir því. En þessi biðtími er mjög erfiður og ég skora á hæstv. heilbrrh. að gera grein fyrir því hvernig er hægt að koma í veg fyrir að fólk sem þarf á aðgerðum að halda og er sárþjáð í heimahúsum og ekki vinnufært skuli þurfa að bíða mánuðum saman eftir því að geta komist að í aðgerð og jafnvel getur það þurft að fara að heiman frá sér utan af landi til þess að fara á stofur hjá læknum í Reykjavík og verða síðan að vera þar til þess að sækja þjónustu á þessar stofur og borga fyrir það stórfé.