Heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra (Guðmundur Bjarnason) :
    Virðulegi forseti. Það er rétt sem fram kemur hjá hv. þm. að biðlistar eru einna lengstir og kannski líka erfiðastir hvað varðar bæklunaraðgerðir. En ég vildi aðeins láta það koma fram aftur, sem reyndar kom fram í umræðum hér á þinginu fyrir ekki löngu, að landlæknir hefur verið með sérstaka athugun í gangi á því hversu miklir þessir biðlistar eru og í hvaða greinum þeir eru sérstaklega. Hann hefur átt viðræður við bæði forsvarsmenn stofnana og sérfræðingana sjálfa um það hvernig mæta megi þessum málum og hvort hægt sé að raða þarna eitthvað í forgangsröð öðruvísi en gert hefur verið, en vissulega snýst þetta um fjármuni. Það er nú bara svo einföld spurning og svarið þá líka einfalt, að þetta kostar sitt. Þó má láta það koma fram að sérfræðingar og forsvarsmenn á Landspítalanum tóku þá ákvörðun á síðasta ári að fjölga þar verulega t.d. mjaðmaliðaaðgerðum frá því sem hafði verið áður. Það kom m.a. fram t.d. í hv. fjvn. að hluti af fjárhagsvanda sem ríkisspítalarnir stóðu frammi fyrir á seinasta ári var einmitt vegna þess að þeir höfðu ákveðið að reyna að fjölga þessum aðgerðum. En betur má ef duga skal. Ég hef því miður ekki í hendi mér neinar sérstakar lausnir á því máli nú annað en segja frá þessu, að við höfum verið að vinna að málinu og það hefur verið í umræðu við bæði stjórnendur stofnana og sérfræðingana í þessari grein. Það er auðvitað hart til þess að vita að fólk sem getur gengið fullfrískt út af sjúkrahúsi eða svo til eftir slíka aðgerð skuli þurfa að bíða eftir henni mánuðum saman, kannski jafnvel árum eða á annað ár, mánuðum saman í það minnsta, og njóti jafnvel tryggingabóta sem öryrki þann tíma sem það bíður eftir aðgerð sem það getur læknast af. Hér er því auðvitað mál sem þyrfti að reyna að taka á eins og hv. fyrirspyrjandi ítrekaði mjög í sínu máli.