Farþegaflutningar með ferjum
Fimmtudaginn 14. febrúar 1991


     Landbúnaðarráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) :
    Hæstv. forseti. Í fyrra lagi er spurt hver hafi tekið ákvörðun um ferð Akraborgar 3. febr. sl. Svarið við því er að það gerði skipstjóri skipsins eins og jafnan og þannig er því háttað að á þeim hlutum ber skipstjóri ábyrgð eins og öllu öðru sem lýtur að stjórn um borð í skipum samkvæmt sjómannalögum og siglingalögum.
    Samkvæmt greinargerð sem ég hef fengið frá útgerðaraðilum Akraborgar segir að svo hafi háttað til að þegar Akraborg átti að hefja sína áætlun að morgni 3. febr. hafi verið á suðaustan fárviðri og spáð að vindur mundi snúast til suðvesturs og lægja nokkuð um hádegisbil. Því var ákveðið að fella niður áætlun skipsins um morguninn en flytja skipið til Reykjavíkur í öruggara lægi þegar suðaustanáttin gengi niður.
    Þrír hópar íþróttaunglinga á aldrinum 15 -- 16 ára voru á Akranesi og höfðu eindregið óskað eftir því að komast með skipinu þegar það færi til Reykjavíkur. Skipstjóri og framkvæmdastjóri útgerðarinnar ákváðu að verða við ósk þeirra og komu hóparnir um borð um hádegi. Þegar veður gekk niður var síðan brottför ákveðin og farið af stað kl. 13.25. En rétt í því sem skipið fór af stað brast síðan á suðvestanveður og var þá siglt á hægri ferð upp í vindinn út flóann en síðan snúið til Reykjavíkur og siglt rólega. Vind fór að lægja upp úr hálfþrjú og var komið til Reykjavíkur kl. 20 mínútum fyrir 4. Skipinu og farþegum var að sögn skipstjóra og útgerðarstjóra alls engin hætta búin á þessari siglingu inni á Faxaflóa, þó hvasst væri, en hins vegar er líklegt að skipið hefði slitnað eða meiðst við bryggju á Akranesi hefði það haldið þar kyrru fyrir.
    Þess má geta að þennan dag voru á annað hundrað skip á sjó og varð ekkert þeirra fyrir áföllum, þótt á rúmsjó væri, vegna þess að sjólag var þrátt fyrir allt, þó hvasst væri, ekki mjög óhemjulegt. Það er rétt að geta þess einnig í þessu sambandi að sem betur fer hafa okkar stóru ferjur, Akraborg og Herjólfur, siglt án nokkurra óhappa undir stjórn sömu manna í rúmlega hálfan annan áratug og á þessu tímabili hafa þær flutt óhemjufjölda farþega, Akraborgin líklega í nágrenni við eina milljón bíla og á fjórðu milljón farþega.
    Varðandi síðari spurninguna, um reglur í svona tilvikum, er því til að svara að ábyrgðin á þessum málum hvílir á herðum skipstjóra og það er alþjóðleg og ófrávíkjanleg regla í öllum siglingarétti og sjómannarétti að skipstjóri er æðsta vald um borð í skipi og ber alla ábyrgð á því að skip sé haffært, að það sé vel búið, það sé nægilega mannað, búið vatni og vistum, að tilskilinn öryggisbúnaður sé um borð o.s.frv.
    Varðandi þetta atriði má svo taka fram að þær reglur sem gilda um farþegaskip og farþegaflutninga taka fyrst og fremst til smíði og búnaðar skipanna og þjálfunar áhafna þeirra. Auk reglna um stöðugleika skips, styrkleika, björgunar- og öryggisbúnað eru svo almennar reglur um aðbúnað farþega. En það eru engar almennar reglur til í siglingalögum eða siglingarétti um takmarkanir á flutningi farþega vegna veðurs eða ytri aðstæðna. Slíkt er því háð mati skipstjóra hverju sinni í samræmi við ákvæði sjómannalaga og siglingalaga þar um, þannig að þar er í raun og veru að finna þær reglur sem hv. fyrirspyrjandi spyr um.
    Það gilda sérreglur fyrir minni skip og báta. Um stærri skip, sem flytja farþega, styðjumst við við alþjóðareglur varðandi allar kröfur um öryggisbúnað. Það eru svonefndar SOLAS - reglur, Safety of Life at Sea, og það er vandlega fylgst með því að íslensk skip uppfylli allar þessar alþjóðlegar kröfur.
    Því mætti bæta við, og lýk ég þá máli mínu, virðulegur forseti, að það eru gerðar mjög miklar kröfur til menntunar og reynslu skipstjóra á farþegaskipum. Þeir þurfa að hafa minnst 36 mánaða siglingatíma auk þriggja ára náms til þess eins að öðlast stýrimannsréttindi á slíkum skipum og til þess síðan að öðlast skipstjóraréttindi þurfa þeir að hafa verið a.m.k. 24 mánuði eða tvö ár stýrimenn og af þeim tíma 12 mánuði eða eitt ár yfirstýrimenn, þannig að ljóst er að það eru gerðar mjög strangar kröfur til þeirra manna sem þessa ábyrgð bera.