Farþegaflutningar með ferjum
Fimmtudaginn 14. febrúar 1991


     Ingi Björn Albertsson :
    Hæstv. forseti. Það hefur ítrekað komið fram í viðtölum við skipstjóra Akraborgarinnar að þarna var aldrei um hættuástand að ræða. Ég vil leyfa mér að lýsa hér yfir fyllsta trausti við þann skipstjóra. Ég er sammála hæstv. ráðherra að það er sjálfsagt mjög erfitt að setja reglur um þessi mál og þetta verður sjálfsagt í framtíðinni að vera mat skipstjóra í hvert sinn hvenær lagt skuli úr höfn.
    En það sem kallaði mig helst hér upp voru þau orð sem féllu hér áðan að fólk hefði verið með óþarfa áhyggjur. Ég get ekki tekið undir það og sé vel fyrir mér fjölskyldur sem sátu hér í Reykjavík eða nágrenni og biðu eftir börnum sínum að berjast yfir hafið, vissulega höfðu þau áhyggjur. Því finnst mér ekki síður brennandi spurning: Hvaða ráðstafanir voru þá gerðar hér á þessum enda að taka á móti þeim börnum sem voru að koma yfir hafið, í ljósi þess að hér var nánast útgöngubann eins og kom fram hjá hv. fyrirspyrjanda og fólk var beðið að halda sig innan dyra og fara ekki út því bílar hreinlega fuku hér út og suður? Þess vegna finnst mér brýnni spurning: Hvaða ráðstafanir voru gerðar hér og hvernig var tekið á móti börnunum þegar þau komu til Reykjavíkur?