Brunavarnir í skólum
Fimmtudaginn 14. febrúar 1991


     Skúli Alexandersson :
    Virðulegi forseti. Það hefur komið í ljós í sambandi við þessar umræður og svör virðulegra ráðherra við þessari fyrirspurn að málið er svo yfirgripsmikið að varla verður því svarað eða rætt til hlítar eins og á þarf að halda í fyrirspurnatíma á hv. Alþingi. Þó vil ég sérstaklega þakka fyrir það sem hæstv. menntmrh. sagði hér í lok ræðu sinnar þar sem hann benti á þá nauðsyn að þau mál sem þessu tengjast verði leyst sameiginlega af ríki og sveitarfélögum og svo að þessi fyrirspurn skuli þegar hafa haft þau áhrif að hæstv. menntmrh. er búinn að skrifa öllum sínum skólastjórnum eða sveitarstjórnum og óska eftir því að það verði hafnar brunaæfingar í skólum. Þetta er fyrsta skrefið til þess að átta sig á þeim stóra vanda sem þarna blasir við.
    Það sem hefur komið í ljós í svörum virðulegra ráðherra er að meiri hluti skóla er vanbúinn í sambandi við brunavarnir og vanbúinn á mjög breiðu sviði. Það er ekki eingöngu að það vanti þar slökkvitæki, slökkvibúnað og viðvörunarbúnað heldur eru margir skólar þannig byggðir að þeir eru allt að því má segja brunagildrur. Það er ótrúlegt að fara um nýja skóla og reka sig t.d. á það um leið og maður kemur að inngangi skólans að þar er fyrsta gildran. Þar opnast aðalhurð inn, í staðinn fyrir að slíkar hurðir eiga samkvæmt brunavarnasamþykktum og, að ég held, venjulegum byggingarsamþykktum allar að opnast út. Þekkt er stórt slys sem átti sér stað hér á fyrri hluta aldarinnar. Orsökin var fyrst og fremst sú að unglingar sem voru á samkomustað komust ekki út úr húsinu vegna þess að hurðin opnaðist inn og allur fjöldinn hrúgaðist að hurðinni þannig að það var ekki hægt að opna hana. Þannig eru því miður margir skólar og það er alveg ótrúlegt að arkitektar sem teikna skóla og hafa verið að teikna skóla fram á síðustu daga, hugsa ég, skuli skila þannig löguðum teikningum og þær fáist samþykktar í byggingarnefnd.
    Einmitt út frá þessu, að margar byggingar vítt og breitt um landið, ég á þar sérstaklega við grunnskólabyggingar, eru þannig úr garði gerðar að þær eru hættulegar og það þarf að leggja í stóran kostnað til þess að gera þær þannig að þær uppfylli venjulegar reglur, þá held ég að það sé alveg fráleitt að láta sér detta í hug að sveitarfélögin, sem hafa verið að taka við þessum byggingum núna á síðustu árum, eigi að standa undir lagfæringum á þessum byggingum og gera þær þannig úr garði að þær séu fullkomnar gagnvart brunavörnum. Ég tek undir það sem hæstv. menntmrh. sagði: Þarna þarf og verður að koma sameiginlegt átak ríkis og sveitarfélaga til að bæta úr þeim miklu vandkvæðum við þessar byggingar og búnað þeirra.