Brunavarnir í skólum
Fimmtudaginn 14. febrúar 1991


     Fyrirspyrjandi (Ingi Björn Albertsson) :
    Hæstv. forseti. Ég þakka ráðherrunum fyrir svör þeirra. Þau voru allítarleg og greinargóð. Þetta auðvitað staðfestir það að hér er víða pottur brotinn og ástandið mjög slæmt í þessum málaflokki.
    Það er alveg ljóst að það er ekki hægt að ræða þetta mikla mál ítarlega á þeim skamma tíma sem okkur er ætlaður í fyrirspurnatíma. Ég vil þó fagna því, sem hæstv. menntmrh. hefur staðfest hér, að hann muni standa fyrir reglulegum brunaæfingum og ég vil einnig taka undir það átak sem hann vill að komið verði á í þessum málaflokki milli ríkis og sveitarfélaga. Ég fagna því enn fremur að hæstv. félmrh. hyggst leggja hérna fram á næstu dögum heildarfrv. um þennan málaflokk og þá er væntanlega hægt að taka upp hér ítarlegri umræðu um þessi mál.
    En ég hlýt að benda á að það er til lítils að vera að setja lög og reglugerðir ef ekki er síðan farið eftir þeim. Þau lög og reglugerðir sem eru til staðar í dag eru ekki alslæm og þessum málum væri ágætlega fyrir komið ef þeim væri hreinlega framfylgt. Hæstv. menntmrh. bendir á það að hér sé einnig spurning um fjármuni og vissulega er það rétt. En í því tiltekna dæmi sem hér hefur verið til umræðu, því afmarkaða dæmi, þá hefði nú ekki þurft meira en nokkra reykskynjara inn í þennan skóla, og ekki kosta þeir nú mikla peninga, til þess að afstýra því ástandi sem þar kom upp.
    Talandi um reykskynjara, þá leiðir maður einnig hugann að handslökkvitækjum til að mynda sem eru víða í skólum en flest þeirra, hygg ég, eða allmörg því miður eru útrunnin og ekki mikill öryggisventill í raun og veru. Ég tel að brunamálastjóri eigi að hafa þau völd og eigi að hafa heimild til þess að loka þeim stofnunum, hvort sem það eru skólar, fyrirtæki eða annað, sem ekki uppfylla þau skilyrði sem lög og reglur gera ráð fyrir eftir að hafa gert þeim viðvart og gefið þeim ákveðinn frest. Ef þeim viðvörunum er ekki sinnt og ekki eru gerðar úrbætur, þá á hann að hafa þá heimild að loka og hann á að beita henni.