Skýrsla Ríkisendurskoðunar um Þormóð ramma
Fimmtudaginn 14. febrúar 1991


     Þorsteinn Pálsson :
    Frú forseti. Í raun og veru hafa verið hér til umfjöllunar í þessari umræðu tvö aðskilin málefni: Annars vegar er hér um að ræða ákvarðanir og athafnir hæstv. fjmrh. varðandi sölu á tilteknu fyrirtæki. Á hinn bóginn er hér um að ræða ávirðingar, mjög alvarlegs eðlis, sem hæstv. fjmrh. hefur borið fram á Ríkisendurskoðun.
    Ég er þeirrar skoðunar að augljóst sé að hæstv. ráðherra stóð ekki rétt að ákvörðunum varðandi sölu þessa umrædda fyrirtækis. Rétt hefði verið að bjóða það út á almennum markaði og fá með þeim hætti annaðhvort þá stöðu að engin viðunandi tilboð hefðu komið eða að fá tilboð sem viðunandi hefðu þótt og með þeim hætti hefðu verið viðurkennd.
    Ég er líka þeirrar skoðunar að með skýrum rökum hafi verið sýnt fram á að sú aðferð sem hæstv. ráðherra kaus að viðhafa við sölu fyrirtækisins hafi leitt til þess að það var selt við of lágu verði á kostnað skattborgara. Hér hefur komið fram þung gagnrýni á þessi vinnubrögð hæstv. ráðherra og þær ákvarðanir sem hann hefur tekið í því efni og sú gagnrýni hefur líka verið utan þingsala, úti í þjóðfélaginu. Þessa gagnrýni hafa ekki bara pólitískir andstæðingar hæstv. ráðherra borið fram heldur má sjá í þessum umræðum að það hefur ekki síður verið þungi í gagnrýni sem stuðningsmenn hæstv. ráðherra hér á Alþingi hafa flutt.
    Nú er það svo að stuðningsmenn hæstv. ríkisstjórnar bera vitaskuld pólitíska ábyrgð á gjörðum hæstv. ráðherra. Hann situr hér í umboði meiri hluta Alþingis. Við búum við þá stjórnskipunarreglu að ríkisstjórnir þurfa á grundvelli þingræðisreglu að njóta stuðnings meiri hluta þings. Meiri hluti Alþingis hefur tekist þá ábyrgð á hendur að verja setu hæstv. ráðherra í ráðherrastólnum og engin merki eru þess að þingmenn stjórnarflokkanna ætli að hlaupa frá þeirri ábyrgð. Þingmenn Framsfl. sem hér hafa í orði borið fram gagnrýni á athafnir ráðherrans kjósa ekki að sýna í verki það vantraust sem þeir hafa hér borið fram í orðum vegna þess að þeir sjálfir njóta atbeina flokks hæstv. fjmrh. til setu í ríkisstjórn og jafnvel til þess að taka ákvarðanir og vinna verk sem í sumum tilvikum eru jafnvafasöm og þær athafnir sem hæstv. ráðherra er hér gagnrýndur fyrir. Að því leyti er gagnrýni þeirra stjórnarþingmanna sem hér hafa talað léttvæg vegna þess að þeir eru ekki tilbúnir vegna annarra hagsmuna að koma þeirri ábyrgð fram gagnvart hæstv. ráðherra sem eðlileg er. En ég ætla ekki að gera þennan þátt málsins að aðalumræðuefni hér. Það verður vafalaust gert í hinni almennu pólitísku umræðu sem fram fer í aðdraganda næstu kosninga.
    Hinn þáttur málsins er miklu alvarlegri og ég hef ástæðu til að ætla að þingmenn stjórnarliðsins, meiri hlutans hér á Alþingi, séu reiðubúnir að bregaðst við varðandi þann þátt málsins, enda eru þar miklu meiri hagsmunir í húfi.
    Þegar hæstv. ráðherra fann að hann var kominn í blindgötu vegna þeirrar gagnrýni, sem fram var borin á verk hans og ákvarðanir, ákvað hann að snúa vörn í sókn. Í sjálfu sér er það ekki gagnrýni vert. En hann ákvað að grípa til meðala í þeirri sókn sem eru í meira lagi vafasöm og ámælisverð og hljóta að kalla á mjög ákveðin viðbrögð Alþingis. Hann kaus að snúa vörn í sókn með því að fara hér fram á umræðu utan dagskrár sem í reynd er umræða um munnlega skýrslu um vantraust hæstv. fjmrh. á Ríkisendurskoðun og þá verða menn að hafa í huga að hæstv. fjmrh. lætur þau ummæli falla í umboði meiri hluta stjórnarflokkanna hér á Alþingi. Og þeir bera ábyrgð á þeim ummælum ef Alþingi nær ekki að mynda samstöðu um að álykta á þann veg að Ríkisendurskoðun njóti trausts Alþingis þrátt fyrir ummæli hæstv. ráðherra. Það tel ég í raun og veru vera það umræðuefni sem hér þurfi að beina athyglinni að vegna þess að seinni þáttur í athöfnum ráðherrans, í tilraunum hans til þess að snúa vörn í sókn, felur í sér mun alvarlegri athafnir af hans hálfu.
    Alþingi hefur sett á fót tvær mjög mikilvægar stofnanir, óháðar stofnanir sem starfa undir Alþingi og veita eiga stjórnvöldum og framkvæmdarvaldinu aðhald. Þetta eru umboðsmaður Alþingis og Ríkisendurskoðun. Og það er óhjákvæmilegt, ef þessar stofnanir eiga að gegna hlutverki sínu, að þær njóti trúnaðar þingsins sjálfs. Þær eru settar upp til þess að fólkið í landinu hafi traust á framkvæmdarvaldinu. En það hefur ekki borið við einu sinni eða tvisvar, heldur æði oft í tíð núv. hæstv. ríkisstjórnar að ráðherrar hennar hafa gefið athugasemdum og fyrirspurnum frá þessum eftirlitsstofnunum langt nef. Með því móti hefur núv. hæstv. ríkisstjórn í verki verið að freista þess að brjóta niður starfsgrundvöll þessara stofnana og gera hlutverk þeirra að engu. Og það er að mínu mati alvarleg atlaga að nýjum vinnubrögðum til þess að viðhalda hér aðhaldi að framkvæmdarvaldinu og tryggja að borgararnir geti reitt sig á að fylgst sé með því hvort framkvæmdarvaldið fylgir settum leikreglum og hvort framkvæmdarvaldið styðst á hverjum tíma við almennt viðurkenndar siðferðisreglur.
    Alvarlegasta árás hæstv. ríkisstjórnar í garð þessara stofnana er sú umræða sem hæstv. fjmrh. efndi til og við erum nú þátttakendur í og felur í sér af hans hálfu vantraust á Ríkisendurskoðun og kröfu um að gripið sé til ráðstafana til að treysta fagleg vinnubrögð og trúverðugleik þeirrar stofnunar, eins og hann kemst að orði.    
    Við getum tekist á um það í pólitískri umræðu hvort hæstv. ráðherra hafi farið rétt að við sölu fyrirtækisins eða hvort hann hafi selt það á of lágu verði. En það getur ekki gengið að Alþingi láti það viðgangast að hæstv. ráðherra, í umboði meiri hluta þings, vegi með þessum hætti að starfsheiðri Ríkisendurskoðunar. Þá er búið að draga þá stofnun inn í pólitísk átök með þeim hætti að hún hefur ekki þann starfsgrundvöll sem við ætlumst til að hún hafi og fólkið í landinu verður að treysta að þessi stofnun hafi. Ég er þess vegna þeirrar skoðunar að auðvitað væri eðlilegast að stjórnarmeirihlutinn í þessu falli sýndi í verki að hann meinti eitthvað með þeim þungu

orðum sem hér hafa fallið í garð hæstv. ráðherra með því að leysa hann frá störfum. Það væri áhrifamesta aðgerðin til þess að koma fram ábyrgð í þessum þætti málsins. En það minnsta sem hægt er að gera til þess að verja stöðu Ríkisendurskoðunar er það að Alþingi láti frá sér fara ályktun þar sem lýst er yfir trausti á stofnuninni, starfsháttum hennar og starfsmönnum.
    Stjórnarmeirihlutinn ber mikla ábyrgð í þessu efni vegna þess að það er fulltrúi hans sem hefur ráðist á Ríkisendurskoðun með þeim hætti sem hér hefur verið lýst. Ég trúi því og treysti að stjórnarmeirihlutinn sé reiðubúinn að taka á þessu máli og verja stöðu Ríkisendurskoðunar og það kom reyndar glöggt fram í máli hv. 3. þm. Norðurl. e. að sá vilji er fyrir hendi. En nú vil ég inna eftir því hver viðbrögð stjórnarmeirihlutans verði í þessu efni. Er hann reiðubúinn til þess að standa að ályktun Alþingis um traust á Ríkisendurskoðun þrátt fyrir ummæli hæstv. ráðherra? Eðlilegast væri að forseti Sþ. svaraði fyrir hönd stjórnarmeirihlutans í þessu efni. En ég ítreka það að ég tel það nauðsynlegt í þessari stöðu til þess að treysta áframhaldandi grundvöll undir mjög mikilvægu starfi Ríkisendurskoðunar.