Skýrsla Ríkisendurskoðunar um Þormóð ramma
Fimmtudaginn 14. febrúar 1991


     Þorsteinn Pálsson :
    Frú forseti. Það er rétt sem hér hefur komið fram í ræðum tveggja síðustu ræðumanna að hæstv. fjmrh. hefur verið á flótta í þessari umræðu og var það í síðustu ræðu sinni. Þeir hafa hrakið flestöll þau atriði sem hæstv. ráðherra reyndi að bera fram sér til málsbóta í umræðunni.
    Ég vil þó nefna hér eitt atriði sem þeir eðlilega nefndu ekki, tveir síðustu ræðumenn, og laut enda að ummælum sem ég lét falla í minni fyrri ræðu hér. Hæstv. ráðherra kaus að snúa út úr ummælum mínum, eins og reyndar er hans háttur í öllu þessu máli og ýmsum fleirum. Þegar ég lýsti þeirri skoðun minni að eðlilegt hefði verið að bjóða þetta fyrirtæki út, þá kaus hæstv. ráðherra að túlka það á þann veg að ég væri þeirrar skoðunar að atvinnustarfsemin hefði átt að flytjast úr Siglufirði eða hefði verið reiðubúinn að beita þeim aðferðum sem leitt hefðu til verulegrar hættu á því. Þetta er auðvitað rangt og algjör útúrsnúningur. Því hefur verið lýst í þessari umræðu, og hæstv. ráðherra hefði reyndar átt að vita það, að það er hægur vandi að binda útboð þeim skilyrðum að atvinnustarfsemin haldist áfram á sínum stað. Það hindrar ekki að fram geti farið almennt útboð á grundvelli þeirra skilyrða og jafnræðisreglan sé með þeim hætti tryggð. Þessi ummæli hæstv. ráðherra eru því enn eitt dæmið um það hvernig hann reynir að verja gerðir sínar með ósannindum og útúrsnúningum.
    Hæstv. ráðherra vék svo hér að því að hann hefði neyðst til þess að biðja hér um umræðu í þinginu vegna þess að þingmenn hefðu verið að bera hann sökum utan þings. Þingmenn kusu að fá að ræða þetta mál sem dagskrármál og hann gat gripið til varna í þeirri umræðu. Hann kaus að hefja hér máls á Alþingi í þeim tilgangi, eins og fram kemur í ræðu hans, að flytja vantraust á Ríkisendurskoðun af því að hann hélt að með þeim hætti gæti hann komist frá málinu vegna þess að hann hafði fundið að hann var í blindgötu í hinni almennu umræðu. En með því að bregðast við með þessum hætti hefur hann staðið að athöfn sem er að mínu mati miklu alvarlegri en hin fyrri og veldur því að Ríkisendurskoðun er komin í mjög svo sérstaka stöðu sem Alþingi verður að bæta úr.
    Hv. 1. þm. Norðurl. v. hefur sakað hæstv. fjmrh. um misferli og siðleysi og hv. 1. þm. Norðurl. v. hefur haldið því fram að þetta, sem hann kallar af hálfu hæstv. ráðherra misferli og siðleysi, geti leitt af sér verulegan skaða fyrir íbúa Siglufjarðar. Kjarni þessa máls er þó sá að hæstv. ráðherra situr í umboði hv. 1. þm. Norðurl. v. Það misferli og það siðleysi og það tjón sem hv. 1. þm. Norðurl. v. telur að aðgerðir og athafnir ráðherrans valdi Siglfirðingum er þess vegna á ábyrgð hv. þm. sjálfs. Það hefur ekki komið annað fram í þessari umræðu en að hv. 1. þm. Norðurl. v. ætli sér að veita hæstv. ráðherra áframhaldandi umboð til setu og hann vilji ekki með nokkrum hætti skerða hár á höfði hæstv. ráðherra.
    Það tjón sem hv. þm. er að tala um að Siglfirðingar hafi orðið fyrir er þess vegna jafnmikið á hans eigin ábyrgð eins og hæstv. ráðherra og misferlið og siðleysið er jafnmikið á ábyrgð hv. þm. sem jafnframt er þingflokksformaður þess flokks sem hefur forustu í núv. ríkisstjórn.
    Það er auðvitað út í bláinn að vera að ræða þetta mál með þessum hætti. Þeir bera þessi stóryrði hver á annan og henda þessum hnútum hver í annan, hæstv. fjmrh. og hv. þm. Páll Pétursson, formaður þingflokks framsóknarmanna. Svo koma þeir hér upp í stólinn og flissa hvor framan í annan til þess að undirstrika það að á bak við stóryrðin felst engin merking. Hv. þm. Páll Pétursson getur ekkert skotið sér undan þeirri ábyrgð að hæstv. ráðherra situr í hans umboði, tekur þessar ákvarðanir í hans umboði og ábyrgð þingmannsins er því alveg söm og jöfn og hæstv. ráðherra.
    En ég vil enn og aftur víkja að hinum þætti málsins sem ég tel vera sýnu alvarlegri og það er sú staða sem hæstv. ráðherra hefur komið Ríkisendurskoðun í. Hæstv. ráðherra getur ekki, þó hann reyni að hlaupa frá því, vikið sér undan því að í raun var sú umræða sem hann hóf hér skýrsla af hans hálfu um vantraust á Ríkisendurskoðun. Lið fyrir lið og þátt fyrir þátt bar hann hér fram atriði sem hann túlkaði sem sannanir af sinni hálfu fyrir vanhæfni og röngum niðurstöðum Ríkisendurskoðunar og lét ekki þar við sitja heldur sagði: Ef menn hrekja ekki það sem ég hef sagt, þá er nauðsynlegt að grípa til ráðstafana til að treysta fagleg vinnubrögð og trúverðugleika þeirrar stofnunar, Ríkisendurskoðunar. Það fer ekkert á milli mála hvað hér er við átt. Hér er verið að bera fram vantraust. Og hver er að bera það vantraust fram? Það er ekki einhver maður úti í bæ. Það er ekki einhver óbreyttur þingmaður. Það er hæstv. fjmrh. í ríkisstjórn Íslands sem situr í umboði meiri hluta þings. Og það er þessi meiri hluti sem ber ábyrgð á þessum ummælum og þau eru alvarleg vegna þess að þau eru sögð í umboði meiri hluta Alþingis. Þau eru ekki alvarleg vegna þess að það er persónan Ólafur Ragnar Grímsson sem segir þau. Þau eru alvarleg og hafa þýðingu af því að þau eru sögð í umboði meiri hluta Alþingis. Það er frammi fyrir þessum vanda sem meiri hlutinn stendur, að sá aðili, sem þeir hafa veitt trúnað til þess að fara með embætti fjármálaráðherra og þá umsýslu í Stjórnarráðinu sem Ríkisendurskoðun var að gagnrýna, hefur borið þetta vantraust fram. Og eigi ekki að víkja hæstv. ráðherra úr embætti vegna þessara ummæla, þá verður að koma fram trausti Alþingis á Ríkisendurskoðun með öðrum hætti, ef hún á að hafa starfsgrundvöll.
    Ég vil líta svo á að það sé samstaða um það á Alþingi að Ríkisendurskoðun eigi að hafa starfsgrundvöll, hún eigi að njóta trausts Alþingis og þurfi ekki og eigi ekki og megi ekki vera dregin inn í pólitískar þrætur eins og hæstv. fjmrh. hefur í umboði meiri hlutans gert. Og til þess að rétta við stöðu Ríkisendurskoðunar á ný, ef ekki á að víkja hæstv. ráðherra úr embætti, getur Alþingi ekki vikið sér undan því að flytja hér og samþykkja tillögu þar sem lýst er yfir

trausti á stofnuninni og starfsháttum hennar.
    Ég er fyrr í þessari umræðu búinn að inna talsmenn meiri hlutans eftir því hvort þeir séu reiðubúnir til að sýna Ríkisendurskoðun þetta traust til þess að tryggja henni eðlilegan starfsgrundvöll á nýjan leik. Ég get ekki séð hvernig við ljúkum þessari umræðu öðruvísi en að hér fáist einhver niðurstaða og þess vegna sakna ég þess að enginn af talsmönnum meiri hlutans skuli hafa tjáð sig um þetta atriði með afgerandi hætti. Ég vísa þó til þess að hv. 3. þm. Norðurl. e. gaf það til kynna að Alþingi yrði að grípa til ráðstafana af þessu tagi. En ég hlýt að óska eftir því að fulltrúar meiri hlutans svari þessari spurningu með afgerandi hætti vegna þess að á þeirra herðum hvílir ábyrgð á þeirri stöðu sem Ríkisendurskoðun er nú komin í.