Skýrsla Ríkisendurskoðunar um Þormóð ramma
Fimmtudaginn 14. febrúar 1991


     Sjávarútvegsráðherra (Halldór Ásgrímsson) :
    Virðulegur forseti. Það var aðeins út af orðum hv. 1. þm. Suðurl. og út af orðum hv. 1. þm. Reykn. að þeir hefðu orðið fyrir miklum vonbrigðum með það sem ég hafi hér sagt. Það er alveg rétt að ég taldi, og ég heyrði að hv. 1. þm. Reykn. var upphafsmaður að því að fitja upp á því máli, að það væri nauðsynlegt að koma hér upp sterkri Ríkisendurskoðun. Það var að mínu mati mjög nauðsynlegt mál. Auðvitað voru skiptar skoðanir um það á þeim tíma eins og margt annað. Og það tók langan tíma þar til Ríkisendurskoðun tók til starfa.
    Ég er alveg sömu skoðunar í dag og ég var þá og ég gæti lesið upp greinargerðina og lesið upp ræðurnar mínar. Þar hafa mínar skoðanir ekki breyst. Ég sagði það hér að ég ber fyllsta traust til Ríkisendurskoðunar.
    Ef það leikur einhver vafi á því að Alþingi beri traust til Ríkisendurskoðunar, þá þarf að sjálfsögðu að taka á því. Ég spyr: Bera forsetar þingsins, sem bera ábyrgð á Ríkisendurskoðun fyrir hönd þingsins, ekki traust til Ríkisendurskoðunar? Hefur eitthvað annað komið fram? Ég heyrði ekki betur en margir þingmenn hefðu tekið hér til máls og sagt að þeir bæru traust til Ríkisendurskoðunar. Ég hef ekki hlustað á alla þessa umræðu. Ég hef ekki heyrt hæstv. fjmrh. segja að hann vantreysti Ríkisendurskoðun. Ég hef heyrt hann vera með mjög mikla gagnrýni á þetta tiltekna mál. En ef það er einhver vafi á því að þingið treysti Ríkisendurskoðun, þá þarf að sjálfsögðu að taka á því. Ég tel Ríkisendurskoðun það mikilvæga að ég teldi það jafnalvarlegt ef það væri mikill vafi á því og það væri ekki traust til dómstóla landsins.
    Nú er það svo að það eru ýmsir sem eru ósáttir við niðurstöðu dómstólanna í landinu. Menn eru jafnvel oft ósáttir við niðurstöðu Hæstaréttar. Traustið á dómstólunum verður hins vegar ekki byggt upp með atkvæðagreiðslum hér á Alþingi. Og traustið á Ríkisendurskoðun verður ekki byggt upp með einhverjum atkvæðagreiðslum hér á Alþingi. Traustið á Ríkisendurskoðun mun byggjast upp og hefur byggst upp með samstarfi þingsins og Ríkisendurskoðunar og ég veit ekki betur en það hafi verið í góðu lagi. Þó að upp komi ágreiningur þá þarf ekki að taka á honum með þeim sérstaka hætti, eins og mér hefur fundist koma hér fram, að um það fari fram sérstök atkvæðagreiðsla. Eða hafa menn hugsað sér það í framtíðinni í hvert skipti sem ráðherra í ríkisstjórn Íslands verður ósáttur við það sem stendur í skjölum Ríkisendurskoðunar og gagnrýnir það með ýmsum hætti? --- Sumir mundu gagnrýna það mildilega, aðrir allharkalega. --- Hafa menn hugsað sér að í hvert skipti fari þá fram atkvæðagreiðsla hér í þinginu?
    Ég vil taka það alveg skýrt fram að mér kemur ekki til hugar að halda það, og ég veit að það dettur engum hv. þm. það í hug, að það sé hægt að ganga í Ríkisendurskoðun og panta þar einhverja ákveðna niðurstöðu frekar en það er hægt að ganga til dómstóla landsins og panta þar einhverja ákveðna niðurstöðu. Auðvitað er það ekki hægt. Og auðvitað er þar það mikið af ágætismönnum að það er engin hætta á slíku. Enda heyrði ég ekki betur en hæstv. fjmrh. tæki það fram hér áðan að hann hefði ekki viðhaft slík ummæli. Þannig að hafi menn skilið ræðu mína þannig hér áðan að ég hafi ekki tiltrú á Ríkisendurskoðun, þá er það mikill misskilningur. Ég tel hins vegar mikilvægt að þetta traust verði byggt upp með góðum almennum samskiptum milli þingsins og Ríkisendurskoðunar. Ef þetta traust er ekki fyrir hendi þá þarf að taka sérstaklega á því. Og ég vil gjarnan hlusta á rök þeirra sem telja að um það þurfi að flytja sérstakar ályktanir. En það hefur ekkert í þessum umræðum sannfært mig um það að þess sé þörf því að ég tel að Ríkisendurskoðun hafi með störfum sínum unnið sér traust forseta þingsins og þingmanna.
    Það er ánægjulegt að heyra að allir eru nánast sammála um ágæti þessarar stofnunar nú. En ég man þá tíð að svo var ekki. En þannig er það nú í öllum málum, án þess að ég tilgreini neitt sérstaklega nöfn í því sambandi, að þá er það ofur eðlilegt þegar ný skipan er tekin upp að um það séu eitthvað skiptar skoðanir.