Ákvörðun dauða
Föstudaginn 15. febrúar 1991


     Heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra (Guðmundur Bjarnason) :
    Herra forseti. Á síðustu árum hefur mikið verið rætt um skilgreiningu dauða í nágrannalöndunum. Ástæða þess er m.a. sú að með aukinni tækni í læknisfræði, ekki síst með tilkomu öndunarvéla, er unnt að halda við öndun og hjartslætti sjúklings þó að heilastarfsemi sé sannanlega og endanlega hætt. Þetta hefur kallað á víðtækari skilgreiningu dauða en hina hefðbundnu sem gerir ráð fyrir að maður sé látinn þegar hjarta hans hættir að slá og öndun hans hættir. Fjölmargar þjóðir, bæði austan hafs og vestan, hafa af þessum sökum skilgreint dauðahugtakið að nýju á þann veg að maður teljist látinn ef heilastarfsemi hans er hætt og fullljóst að heilastarfsemi getur ekki hafist á ný. Danir og Íslendingar eru einu þjóðirnar í Vestur-Evrópu sem ekki hafa endurskoðað þetta hugtak. Fyrr á þessu ári var lagt fram á danska þinginu frv. sem gerði ráð fyrir sambærilegri breytingu og hér er rætt um.
    Fyrir rétt rúmu ári síðan, eins og kom fram í framsögu um það frv. sem hér var til umræðu áðan, skipaði ég nefnd sem fékk það hlutverk að gera tillögur að löggjöf um skilgreiningu dauða. Frv. gerir ráð fyrir því að hér eftir sem hingað til verði það hlutverk læknis að ákvarða um dauða manns og rita dánarvottorð. Við ákvörðun um andlát skal læknir nota þá þekkingu og beita þeim ráðum sem tiltæk eru til þeirra verka hverju sinni.
    Samkvæmt 2. gr. frv. skal maður teljast látinn þegar öll heilastarfsemi hans er hætt og engin ráð eru til að heilinn starfi á ný. Þannig verður stöðvun á heilastarfsemi sú viðmiðun sem notuð er, jafnvel þótt stuðst sé við hin hefðbundnu dauðaskilmerki, stöðvun hjartsláttar og öndun, þegar maður er lýstur látinn.
    Í 1. mgr. 3. gr. frv. er gert ráð fyrir því að staðfesta megi dauða manns ef hjartsláttur og öndun hafa stöðvast svo lengi að öll heilastarfsemi sé hætt. Er hér miðað við að andlát sé staðfest með hefðbundinni aðferð. Rétt er að leggja áherslu á það hér að langflest dauðsföll ber að með þeim hætti að 1. mgr. 3. gr. frv. á við.
    Í 2. mgr. 3. gr. er gert ráð fyrir því að hafi öndun og hjartastarfsemi verið haldið við með vélrænum hætti skuli ákvörðun um dauða byggjast á því að skoðun leiði í ljós að öll heilastarfsemi sé hætt. Í fylgiskjali með frv., sbr. 4. gr. frv., er nánar lýst þeim aðferðum sem beita skal í þessum tilvikum. Gera má ráð fyrir að innan við 20 dauðsföll á ári verði staðfest með þeim hætti sem 2. mgr. 3. gr. frv. tilgreinir.
    Samkvæmt 4. gr. frv. skal heilbrrh. setja reglur um það hvaða rannsóknum skuli beita til þess að ganga úr skugga um að öll heilastarfsemi sé hætt. Þessar reglur skulu vera í samræmi við tiltæka læknisfræðilega þekkingu á hverjum tíma.
    Eins og áður sagði fylgja frv. í fylgiskjali drög að reglum um skilmerki dauða. Þar er ítarlega lýst í samræmi við tiltæka læknisfræðilega þekkingu hvaða rannsóknum skuli beita til að ganga úr skugga um að

heilastarfsemi sé ekki lengur fyrir hendi.
    Á kirkjuþingi því sem sat á sl. hausti var fjallað um dauðann og líffærakrufningar. Á þinginu var til umfjöllunar tillaga flutt af kirkjuráði þar sem lagt var til að þingið samþykkti þau meginviðhorf sem fram koma í álitsgerð Rannsóknastofnunar í siðfræði, að skilgreining dauða skuli miðast við algjört heiladrep. Álitsgerð þessi var samin af nefnd sem í áttu sæti Björn Björnsson, prófessor í guðfræði, Páll Ásmundsson yfirlæknir, Mikael M. Karlsson, dósent í heimspeki, og Vilhjálmur Árnason, lektor í siðfræði.
    Í álitsgerðinni er bent á að frá fornu fari hafi einkum tvennt verið haft til merkis um það hvort maður sé látinn: hjarta hans sé hætt að slá og hann sé hættur að anda. En síðan segir, með leyfi forseta: ,,Tæknilegar framfarir í læknisfræði á síðustu áratugum hafa neytt menn til þess að endurskoða þessi skilmerki og þann skilning sem liggur þeim að baki. Nú orðið er hægt að viðhalda bæði starfsemi hjarta og öndunarfæra með vélrænum hætti, eða jafnvel setja tækjabúnað í stað þessara líffæra. Oft hefur slíkur vélbúnaður fleytt sjúkum og slösuðum úr lífshættu en hann hefur einnig verið notaður til þess að viðhalda hjartslætti og öndun sjúklings í djúpu dái þar sem engin sálarstarfsemi, ekkert sálarlíf á sér stað. Samkvæmt hefðbundnum skilmerkjum dauða eru slíkir sjúklingar enn lifandi.``
    Í skýrslunni segir einnig: ,,Hér verður því að horfast í augu við þá staðreynd að þótt algjört heiladrep feli í sér að öll sálarstarfsemi sé úr sögunni og manneskjan því skilin við, þá felur það ekki í sér dauða líkamans, manneskja er látin jafnvel þótt líkami hennar sé enn með lífsmarki. Það er rétt og eðlilegt að ættingjar kveðji hana á þessari stundu því ,,sálin er farin úr líkamanum`` og raunar er það rangt gagnvart þeim að láta sem svo að manneskjan sé ekki dáin.``     Skýrsluhöfundar taka undir ákvæði lagafrv. þessa sem hér er til umræðu og telja rétt og eðlilegt að þessi lög verði sett.
    Virðulegi forseti. Þetta frv. hefur einnig hlotið meðferð í Nd. þingsins og er því til meðhöndlunar í síðari deild. Ég legg því til að að lokinni þessari umræðu verði málinu vísað til 2. umr. og hv. heilbr.- og trn.