Einkaleyfi
Föstudaginn 15. febrúar 1991


     Viðskiptaráðherra (Jón Sigurðsson) :
    Hæstv. forseti. Með því frv. sem ég mæli hér fyrir og kemur frá hv. Nd. er lagður grunnur að einkaleyfalöggjöf sem mun svara betur þörfum atvinnulífs og almennings en núgildandi lög gera en þau eru frá árinu 1923. Jafnframt er með þessu frv. stefnt að því að samræma löggjöf okkar á sviði einkaleyfa þeirri sem gildir annars staðar á Norðurlöndum og í iðnríkjum Evrópu.
    Þetta frv. var lagt fram til kynningar í lok síðasta þings. Í framhaldi af því sendi iðnrn. þeim aðilum sem málið varðar helst frv. til umsagnar. Það bárust skriflegar umsagnir frá nokkrum aðilum og lýstu þeir allir stuðningi við efnisatriði frv. Umsagnirnar sem hafa að geyma sérstakar athugasemdir og ábendingar eru prentaðar sem fylgiskjöl við frv. og greinargerð þess. Ábendingar og athugasemdir sem fram komu snertu einkum gildistökuákvæðin og eins og frv. liggur núna fyrir hafa sumar þessara athugasemda verið teknar til greina að fullu. Í einu tilfelli sem varðar gildistökuákvæði frv. eru þó skoðanir skiptar hjá hagsmunaaðilum. Þetta varðar þá spurningu hvenær ákvæði frv. um einkaleyfi fyrir lyfjum skuli taka gildi. Í því efni hefur verið farið bil beggja milli sjónarmiðanna sem fram komu í umsögnunum og er í frv. gert ráð fyrir að fimm ár líði frá gildistöku laganna þar til hægt verður að veita hér einkaleyfi fyrir lyfjum.
    Eftir að frestur til að skila athugasemdum rann út og búið var að ganga frá frv. til framlagningar bárust nokkrar athugasemdir frá réttarfarsnefnd um réttarfarsatriði í frv. Þeim athugasemdum var komið sérstaklega á framfæri við hv. iðnn. Nd. og hefur hún tekið tillit til þeirra í sínum störfum. Margir aðilar hafa þegar haft tækifæri til að kynna sér efni frv. og sú umfjöllun sem það hefur fengið meðal sérfróðra manna og hagsmunaaðila í atvinnulífinu ætti að auðvelda meðferð þess hér á hinu háa Alþingi.
    Umfjöllun um endurskoðun á núgildandi einkaleyfalögum má rekja allt aftur til ársins 1981 en þá var settur starfshópur til að fjalla um þörfina fyrir endurbætta löggjöf á þessu sviði. Síðan hafa þrjár nefndir verið skipaðar til að takast á við þetta verkefni. Sá starfshópur sem síðast vann að málinu lauk störfum í júlí 1989 og skilaði til ráðuneytisins drögum að frv. ásamt skýringum við einstakar greinar þess. Starfsmenn einkaleyfa- og vörumerkjadeildar iðnrn. bjuggu síðan frv. til flutnings í þeirri mynd sem það kom fyrir Alþingi á þessu þingi.
    Helstu nýmæli og breytingar miðað við núgildandi einkaleyfalög felast í því sem ég greini hér frá:
    1. Kveðið er skýrar á um umfang og takmörkun einkaleyfaverndar. Þetta eru 1. -- 3. gr. frv.
    2. Heimilað verður að veita einkaleyfi fyrir lyfjum og næringarefnum.
    3. Betur er skilgreint hvað talist getur einkaleyfishæf uppfinning með tilliti til nýjunga og frumleika, þ.e. að hve miklu leyti uppfinningin getur talist frábrugðin þekktri tækni. Um þetta er fjallað í 2. gr.
    4. Skýrari ákvæði eru um frágang einkaleyfisumsókna og meðferð þeirra á öllum stigum málsins. Þetta er í II. kafla frv.
    5. Lagt er til að umsóknir verði gerðar aðgengilegar almenningi í síðasta lagi 18 mánuðum eftir innlagningu einkaleyfisumsóknar. Þetta er í 22. gr. Í núgildandi lögum er hins vegar miðað við sex mánuði.
    6. Mun ítarlegri ákvæði eru en áður um andmæli gegn veitingu einkaleyfis og ágreiningsmál sem rísa kunna vegna réttar til einkaleyfis.
    7. Gert er ráð fyrir aðild Íslands að alþjóðasamningi um einkaleyfisumsóknir í PCT. Í samningnum felst m.a. að sama umsókn getur tekið gildi í mörgum löndum samtímis. Þetta er í III. kafla frv.
    8. Einkaleyfi verður hægt að láta halda gildi í 20 ár frá umsóknardegi, en skv. núgildandi lögum hefur gildistíminn verið að hámarki 15 ár frá útgáfudegi. Þetta er í 40. gr.
    9. Fyllri ákvæði eru um nytjaleyfi og rýmkuð eru skilyrði um veitingu svonefndra nauðungarleyfa. Þetta er í 43. -- 50. gr.
    10. Gerðar eru ýmsar breytingar á gjaldtöku fyrir umsóknir og einkaleyfi, þar á meðal er gert ráð fyrir greiðslu árgjalda af einkaleyfisumsóknum meðan þær eru til meðferðar. Þessi gjaldtökuákvæði er að finna í 8., 20., 25., 40., 42. og loks 51. gr. frv.
    Virðulegi forseti. Skipan einkaleyfamála á alþjóðavettvangi hefur sem vænta má tekið miklum breytingum frá því þau lög voru sett sem nú gilda um einkaleyfi á Íslandi. Iðnríkin hafa yfirleitt kappkostað að breyta sinni löggjöf til samræmis við breytingar í tækniþróun. Það er þannig orðið löngu tímabært að færa okkar löggjöf á þessu sviði til nútímahorfs. Þar kemur hvort tveggja til þær skuldbindingar sem Parísarsáttmálinn um vernd eignarréttinda leggur okkur á herðar og ekki síður hagsmunir íslensks iðnaðar og íslensks atvinnulífs.
    Þeir sem hafa haslað sér völl hér á landi í nýjum greinum á borð við líftækni, rafeindatækni og tölvutækni, svo ég nefni nokkur dæmi um nýjar greinar, verða að eiga þess kost að sækja um einkaleyfisvernd á hugsanlegum nýjungum í sínum störfum. Sama máli gegnir vitanlega um þá mörgu hugvitsmenn sem hér vinna að ýmiss konar endurbótum og nýsköpun í okkar hefðbundnu atvinnugreinum.
    Ísland gerðist aðili að Parísarsáttmálanum um vernd eignarréttinda á sviði iðnaðar árið 1961. Í þessu frv. er gert ráð fyrir að Ísland gerist aðili að svonefndum samstarfssáttmála um einkaleyfi, Patent Cooperation Treaty, skammstafað PCT, sem ég hef þegar nefnt í mínu máli. Þessi sáttmáli var gerður í Washington árið 1970. Með ákvæðunum í III. kafla frv. er kominn lagagrundvöllur til þess að unnt sé að framfylgja þessum sáttmála á Íslandi.
    Meginmarkmið Patent Cooperation Treaty sáttmálans er að koma í veg fyrir tvíverknað við rannsóknir á einkaleyfisumsóknum sem kunna að verða lagðar inn samtímis í mörgum ríkjum. Sænska einkaleyfisstofnunin annast rannsókn alþjóðlegra umsókna fyrir Norðurlönd og er gert ráð fyrir að hún taki einnig að sér rannsókn á íslenskum alþjóðaumsóknum.

    Fyrir þann sem sækir um einkaleyfi er einn helsti kosturinn við aðild að PCT-sáttmálanum sá að umsókn í einu aðildarríki getur, ef umsækjandinn óskar þess, tekið gildi samtímis í þeim löndum sem hann hefur hug á að fá einkaleyfisvernd í. Þetta losar auðvitað umsækjandann við umstang sem fylgir því að leggja inn sjálfstæða umsókn í hverju landi.
    Ákvæði þessa sáttmála eru nokkuð flókin í framkvæmd. Því þarf að miða undirritun hans við það hvenær einkaleyfayfirvöld á Íslandi eru undir það búin að framfylgja honum. Uppfinningum í iðnríkjunum hefur fjölgað ár frá ári og einkaleyfisumsóknum að sama skapi. Einnig taka umsóknir stöðugt til flóknari fyrirbæra. Þetta þýðir að rannsókn á einkaleyfishæfri uppfinningu verður stöðugt yfirgripsmeiri og vandasamari. Stjórnvöld í hverju landi hafa reynt að bregðast við þessari þróun m.a. með því að hagnýta alþjóðastofnanir og alþjóðasamninga á þessu sviði og með því að endurskipuleggja starfsemi sinna einkaleyfastofnana. Þá hafa stofnanirnar lagt mikla áherslu á að auka þekkingu á starfsemi sinna einkaleyfastofnana. Þá hafa stofnanirnar lagt mikla áherslu á að auka þekkingu starfsmanna sinna, bæta gagnasöfn sín og hagnýta upplýsingatækni sem opnar þeim leið og aðgang að stórum gagnabönkum.
    Með nýjum einkaleyfalögum og aðild að PCT-sáttmálanum má gera ráð fyrir að verkefni þeirrar deildar iðnrn. sem fer með einkaleyfamál muni aukast til muna. Iðnrn. hefur þegar gert ýmislegt til að búa í haginn fyrir þá starfsemi. Á árinu 1989 var einkaleyfa- og vörumerkjadeild flutt úr ráðuneytinu í sérstakt húsnæði að Lindargötu 9. Þá voru jafnframt ráðnir lögfræðingur og verkfræðingur til skrifstofunnar. Með þessu og tölvuvæðingu starfseminnar undanfarin ár hefur verið lagður grunnur að betri og sérhæfðari þjónustu á þessu sviði en áður hefur verið.
    Það er ekki gert ráð fyrir að ríkið taki á sig neinn kostnaðarauka sem leiða kynni af þessu frv. Gjöld fyrir verndun eignarréttarins á sviði iðnaðar hafa á síðustu árum verið ákvörðuð með hliðsjón af því markmiði að þau stæðu að verulegu eða helst öllu leyti undir kostnaði við þjónustuna. Á árinu 1989 stóðu gjöld fyrir vörumerki, einkaleyfi og aðra þjónustu reyndar undir rekstrarkostnaði við deildina og gert er ráð fyrir að svo hafi einnig verið á árinu 1990 og muni verða á þessu líðandi ári. Rekstur einkaleyfa- og vörumerkjadeildar er nú færður sem sérstakt viðfangsefni á fjárlögum. Starfsemin hefur þannig í reynd verið skilin frá annarri starfsemi ráðuneytisins. Hefur ráðuneytið nú ákveðið að festa þá skipan í sessi með því að setja, að samþykktu þessu lagafrv., reglur um sjálfstæða einkaleyfaskrifstofu er heyri undir ráðuneytið. Lögð verður áhersla á að þróa skrifstofuna ekki eingöngu sem skráningarstofnun í þröngri merkingu heldur og ekki síður að hún geti orðið miðstöð fyrir þá þekkingar- og upplýsingamiðlun um tæknileg málefni sem getur komið einstaklingum, fyrirtækjum og rannsókna- og þróunarstofnunum að notum.
    Ég tel hér rétt, virðulegur forseti, að fara nokkrum orðum um þá þróun sem er að verða í löndunum í

kringum okkur á sviði hugverkaréttinda og það sem er á döfinni hjá iðnrn. í því sambandi.
    Það er augljóst að með auknum samskiptum þjóða fá hugverkaréttindi aukið vægi. Gildir þar einu hvort um er að ræða höfundarrétt samkvæmt Bernarsáttmálanum eða réttindi í iðnaði samkvæmt Parísarsáttmálanum. Helstu hugverkaréttindin sem auk einkaleyfa tilheyra eignarrétti á sviði iðnaðar eru þessi: vörumerkjavernd, mynsturvernd, vernd á iðnhönnun, ,,industrial design``, og svo smáeinkaleyfi sem einnig hafa verið kölluð nytjamynstur og er þar vísað til danska heitisins ,,brugsmønster`` og þýska heitisins ,,Gebrauchsmuster``. Vernd á svokölluðum smárásum í rafeindatækni liggur á mörkum höfundarréttarins og iðnaðarréttinda. Öllum þessum viðfangsefnum þarf nú að taka á hér á landi með skýrari og skilmerkilegri hætti og það vantar enn nokkuð á að okkar löggjöf um vernd eignarréttinda í iðnaði sé jafnvíðtæk og í þeim löndum sem við höfum mest viðskipti við.
    Hér er ekki eingöngu um löggjöf um einkaleyfi og vörumerki að ræða, heldur allt það svið sem ég hef tæpt á. Framleiðendum og aðilum í viðskiptalífi þessara landa er mjög í mun að þeir geti fengið hliðstæða vernd á sínum hugverkum og þeir eiga kost í sínum heimalöndum. Fyrirspurnir um þessi mál berast ráðuneytinu ýmist frá sendiráðum viðkomandi ríkja, frá erlendum fyrirtækjum eða umboðsaðilum þeirra á Íslandi.
    Þróun á sviði hugverkaréttarins er mjög ör í Evrópu um þessar mundir og það skiptir okkur miklu máli, ekki síst fyrir nýjungar í okkar atvinnulífi að við fylgjumst vel með því sem þar er að gerast.
    Úrbætur og samræming löggjafar um hugverkarétt hefur komið nokkuð við sögu í þeim viðræðum sem nú fara fram milli EFTA-ríkjanna og Evrópubandalagsins. Sem dæmi má nefna að EFTA-ríkin hafa nú skuldbundið sig til þess gagnvart Evrópubandalaginu að setja löggjöf um einkaréttarvernd á smárásum, þessari rafeindatækni sem ég nefndi áðan, og enn þarf að sjálfsögðu að undirbúa slíkt lagafrv. á Íslandi.
    Slík vernd hefur mikla þýðingu fyrir þau fyrirtæki sem framleiða háþróaðan rafeindabúnað. Og þótt íslenskur rafeindaiðnaður hafi enn ekki náð því þróunarstigi að löggjöf um vernd smárása hafi teljandi þýðingu fyrir hann þá er nauðsynlegt að við stöndum við okkar skuldbindingar í þessu efni eins og önnur aðildarríki EFTA. Iðnrn. og menntmrn. vinna nú í sameiningu að undirbúningi lagafrv. um þetta efni. Annars staðar á Norðurlöndum og í mörgum ríkjum Evrópu hefur lengi verið í gildi löggjöf um svokallaða mynsturvernd sem verndar útlit, form og skreytingu vörunnar. Ýmis hagsmunasamtök í iðnaði hér á landi hafa lagt að stjórnvöldum að hraða setningu slíkrar löggjafar. Þetta á ekki síst við á sviði vefjariðnaðar og prjónaiðnaðar. Frv. um þetta efni, sem byggt er á norrænni löggjöf frá árinu 1961, er nú á lokastigi í iðnrn.
    Einkaleyfayfirvöld annars staðar á Norðurlöndum hafa nú ákveðið að gera gagngerðar breytingar á sinni mynsturlöggjöf með hliðsjón af löggjöf um þetta efni sem nú er að mótast í ríkjum Evrópubandalagsins. Ég

tel því ekki rétt að leggja þetta mynsturverndarfrv. fram að svo stöddu heldur hef ég hug á því að við tökum þátt í samstarfi Norðurlandaþjóða um mótun nýrrar löggjafar um vernd á iðnhönnun.
    Smáeinkaleyfi er verndarform sem lítið hefur verið kynnt á Íslandi. Bæði Danir og Finnar eru í þann veginn að setja löggjöf um þetta efni. Hér er um að ræða eins konar millistig milli mynsturverndar og einkaleyfa, þ.e. einkaleyfið tekur til fleiri þátta í verkinu eða vörunni en útlits hennar, mynsturs eða skreytingar einnar saman. Verndin er hins vegar frábrugðin mynsturvernd að því leyti að hún tekur til tæknilegra eiginleika uppfinningarinnar. Verndin getur átt vel við minni háttar uppfinningar sem ekki uppfylla þær kröfur sem gerðar verða samkvæmt einkaleyfalögunum, hinum væntanlegu, um nýjungagildi og frumleika í uppfinningunni. Rannsókn og skráningarhæfi er ekki eins umfangsmikil og um leið ódýrari en þegar einkaleyfisumsókn á í hlut.
    Þá er þess að geta að hér skortir tilfinnanlega löggjöf um réttarstöðu manna sem starfa í þjónustu annarra að uppfinningu. Undirbúningur frv. um þetta efni er á verkefnaskrá iðnrn. Ég get látið þess getið hér að ég hef í hyggju að gerðir verði sérstakir samningar um þetta efni við starfsmenn rannsóknastofnana á vegum iðnrn. Ráðuneytið mun leggja áherslu á að afla sem gleggstra upplýsinga um þau verndarform sem ég hef hér nefnt og reynslu annarra þjóða af þeim en þessum upplýsingum mun verða komið á framfæri við hagsmunaaðila. Parísarsamþykktin kveður einmitt á um lágmarksskyldur aðildarríkjanna varðandi vernd hugverkaréttinda.
    Það er hins vegar mikilvægast að mínu áliti að samtök iðnaðarins og aðrir hagsmunaaðilar meti það af raunsæi hvað af þeim verndarformum sem ég hef hér gert að umtalsefni sé skynsamlegt að innleiða á Íslandi að svo stöddu. En grundvöllurinn hlýtur jafnan að verða samþykkt þess frv. um einkaleyfi sem hér liggur fyrir og leysir af hólmi áratuga gamla löggjöf.
    Virðulegi forseti. Ég legg áherslu á að þetta frv. verði að lögum á þessu þingi. Ég legg til að því verði að lokinni þessari umræðu vísað til 2. umr. og hv. iðnn.