Stjórnarskipunarlög
Föstudaginn 15. febrúar 1991


     Guðrún J. Halldórsdóttir :
    Virðulegi forseti. Þetta frv. var auðvitað rætt í þingflokki Kvennalistans. Það komu upp nokkrar efasemdir um ágæti breytinganna. Þó var á þær fallist. Við vorum á þeirri skoðun að ef breytt yrði úr tveimur deildum í eina þá þyrfti mjög vandlega að ræða um þingskapalögin, hvernig þingsköpum yrði breytt, því það er náttúrlega frumskilyrði að lýðræðið fái sama framgang í einni deild og í tveimur.
    Í annan stað finnst mér rétt, af því að ég er búin að hlusta á virðulega þingmenn sem hafa langa reynslu, jafnvel áratuga reynslu að baki héðan úr þinginu, að nefna hvernig nýliða finnst að koma inn í þingið. Það væri kannski ekki ófróðlegt fyrir ykkur að heyra það. Flestir eru hér með langa reynslu og kannski pínulítið samsamaðir þinginu, vita hvernig þetta allt saman gengur fyrir sig og finnst sjálfsagt að það gangi svo. En fyrir mér, sem kom fyrst sem varaþingmaður inn í Nd. og síðan í Ed., var það ekki nokkrum vafa undirorpið að það var miklu þægilegra að koma í Ed. Það var eins og fólk væri vinsamlegra í deildinni eða því kom meira við þessi nýliði en í Nd. Og ég tel það vegna þess að í Ed. eru færri þingmenn, smæðin skapaði nándina.
    Svo var það í haust að ég kom sem fastur þingmaður inn og þá fór að sverfa að mér meira og meira sú hugsun að það þyrfti að endurskoða þingsköpin í hinu háa Alþingi. Það var ekki að mér fyndist að þyrfti endilega að breyta úr tveimur deildum í eina, heldur hitt að mér fannst eins og umræður hlypu stundum út um víðan völl og yrðu kannski ekki eins málefnalegar og skyldi, einkum og sér í lagi í Sþ. Ég hafði náttúrlega ekki reynslu af Nd. núna. Í öðru lagi fer það ekki fram hjá neinum sem kemur nýr inn í þingið hversu oft er erfitt að ljúka málum vegna þess að það er ekki hægt að ná í nógu marga þingmenn inn í þingsalinn til þess að greiða atkvæði. Það hlýtur að vera eitthvað athugavert við þau þingsköp þar sem svo mikið er af nefndastörfum á sama tíma og þingtíminn er, því ég geri ráð fyrir að allir þessir þingmenn sem eru utan þingsalarins og erfitt er að ná í séu í einhverjum mjög ábúðarmiklum og þýðingarmiklum störfum. Þar af leiðandi hlýtur að þurfa að breyta þingsköpunum og þeim reglum sem unnið er eftir svo þeir hv. þm. sem á þessu þingi sitja geti haft tíma til þess að vera á þingfundum. Eins og við sjáum núna eru hér inni átta þingmenn en í deildinni eiga að vera 21.
    Þetta er það sem blasir við nýjum þingmönnum. Það er erfitt að kalla saman þingmennina og það hlýtur að vera vegna þess að þeir eru svo önnum kafnir við að sinna skyldustörfum sínum utan þingsalarins að ekki er hægt að ná í þá. Þetta gerist nærri því á hverjum einasta degi sem á að efna til einhverrar atkvæðagreiðslu. Þar af leiðandi hlýtur það að vera að þingsköpunum þurfi að breyta.
    Mér datt í hug að þegar hv. formenn þingflokkanna fóru að hugsa sér að breyta úr tveimur þingdeildum í eina þá væri það fátækleg tilraun þeirra til

að bæta eitthvað úr þessu. En ég er ekkert viss um að þetta sé rétt aðferð, alls ekki viss um það. Á hinn bóginn er ég líka viss um að það þarf ekkert endilega að skerða lýðræðið þó að þingið verði ein deild. Ég held að þá skipti öllu máli hversu vandlega nefndirnar sinna sínum verkum.
    Í annan stað hef ég auðvitað upplifað það, eins og komið hefur fram í þessari umræðu hérna, að mál eru afgreidd með mjög miklum hraða, svo miklum hraða að ég veit varla hvaða mál er verið að afgreiða því að flýtirinn er svo mikill. Það á við einkum í Ed. en getur líka átt við í Sþ. Það er því alveg rétt sem hæstv. menntmrh. sagði áðan að oft eru umræðurnar aðeins sýndarumræður en ekki raunverulegar umræður og það vita sjálfsagt allir sem hér eru inni.
    Ég vil geta þess að mér fannst einstaklega ánægjulegt og gaman að hlusta á hinn sögulega fyrirlestur hv. 4. þm. Vestf. Það er gaman að heyra svo glögga frásögn og svo góða yfirsýn sem hann hefur yfir sögu og hlutverk þessa þings.
    Ég vil undirstrika það að ég álít að þörf sé á breytingum á starfsháttum þingsins, mikil þörf. Hvort það sé aðalþörfin að breyta úr tveimur deildum í eina er ég ekki viss um, en hitt blandast mér ekki hugur um að þingstörfunum þarf að breyta þannig að þingmenn geti sinnt þeim betur en verið hefur.