Stjórnarskipunarlög
Föstudaginn 15. febrúar 1991


     Guðmundur H. Garðarsson :
    Virðulegi forseti. Í fyrri ræðu minni láðist mér að fjalla um hugtakið skilvirkni með þeim hætti sem ég hefði viljað til þess að hv. þm. skildu hvað ég átti við þegar ég fjallaði um það í upphafi ræðu minnar áðan að með þessu nútímaorði væri raunverulega verið að þróa Alþingi inn í ákveðið skipulagsform sem ég tel vera andstætt lýðræðislegri hugsun. Ég gerði það ekki nægilega vel áðan í minni fyrri ræðu, virðulegi forseti, og vildi fá að víkja örfáum orðum að þessu.
    Það að sameina þing í eina málstofu með þeim hætti sem þetta frv. gerir ráð fyrir og leggja niður núverandi deildaskipan felur í sér grundvallarbreytingu á stjórnskipun Íslands sem er þess eðlis að það er nauðsynlegt að hv. þm. geri sér fullkomlega grein fyrir að hverju er stefnt.
    Í ræðu sinni hér rétt áðan sagði hv. 5. þm. Reykv. Guðmundur Ágústsson að við yrðum að taka tillit til breyttra aðstæðna og breytts umhverfis eins og nútímaþjóðfélag er. Ég er honum fullkomlega sammála í þeim efnum að þannig þurfum við auðvitað að skoða það umhverfi sem við lifum í bæði Alþingi og hv. þm. sem og aðrir sem bera stjórnunarlega ábyrgð í íslensku stjórnkerfi. En það þarf ekki að þýða að það eigi að gera grundvallarbreytingu á störfum og stöðu Alþingis, nema síður sé.
    Þetta frv. einkennist af því sem ég mundi kalla hugsun nútímatæknimanna. Þessir menn hafa tileinkað sér ákveðna tegund skipulagshyggju sem að minni hyggju er andstæð lýðræðislegri hugsun. Þessi skipulagshyggja, sem byggist á nútímastjórnunaraðferðum í fyrirtækjum og tekur afstöðu til ákveðins umhverfis sem felur í sér nútímatækni, er þess eðlis að þar getur það átt við og á víða við í sambandi við rekstur fyrirtækja að það þurfi að koma á ákveðinni skilvirkni þar sem um er að ræða mikla tækni og háþróaða annars vegar og mikinn fjölda starfsmanna hins vegar. Hér erum við hins vegar að fjalla um samskiptasvið sem er allt annars eðlis.
    Ef við lítum á hugtakið skilvirkni þá virðist vera nokkuð augljóst hvað við er átt. Þó geri ég ráð fyrir að það mundi nú vefjast fyrir sumum að gera sér fullkomlega grein fyrir hvað átt er við með orðinu eða hugtakinu, sérstaklega í þeirri merkingu sem það er notað í sambandi við þetta frv. Í mínum huga getur hugtakið átt við það að það þurfi að hraða hlutunum, flýta þeim, ýta hratt áfram, gera þá einfaldari þannig að niðurstaðan verði bæði augljós og þess eðlis að hún þurfi ekki að þvælast fyrir mönnum.
    Lýðræðisleg umræða og umfjöllun er aftur á móti þannig að hún þarf oft mikinn tíma og umfjöllun margra. Hins vegar er ég ekki í nokkrum vafa um það að sú tilhögun sem þetta frv. gerir ráð fyrir og breyting Alþingis í eina málstofu á grundvelli þessa framlagða frv. mundi efla mjög framkvæmda- og flokksvaldið. Efling þess umfram það sem nú er er samkvæmt mínu mati andstætt lýðræðislegum vinnubrögðum. Við vitum það og höfum stundum upplifað það að flokksvald getur verið þess eðlis að það sé misnotað við ákveðnar kringumstæður. Ég legg samt áherslu á það, virðulegi forseti, að ég er því mjög fylgjandi að á Íslandi séu öflugir stjórnmálaflokkar, en ég er líka á móti því að þessir flokkar öðlist það vald sem getur verið lýðræðinu og einstaklingnum hættulegt.
    Á grundvelli þessa hugtaks, skilvirkninnar, í sambandi við skipulag Alþingis mundi það að mínu mati gerast næst að það mundi styrkja stjórnunarstöðu, þ.e. forustu og valdakjarna þingflokkanna og þar með valdapíramítann í heild.
Þessi valdapíramíti sem mundi myndast hér á hinu háa Alþingi við þessar breytingar mundi styrkja mjög framkvæmdarvaldið á sama tíma sem staða einstakra almennra þingmanna mun verða lakari.
    Það er tilhneiging hjá framkvæmdarvaldinu, alveg eins og hjá þeim sem bera ábyrgð á stjórnun og rekstri stórra fyrirtækja, til þess að vilja keyra málin áfram, gera þau einfaldari í meðförum, draga úr umræðunni, framkvæma hlutina og láta ekki einstaka hópa eða einstaklinga þvælast fyrir. Það er skilvirkni í nútímafyrirtækjum að geta rekið fyrirtækin áfram án allt of mikillar umræðu á grundvelli sérfræðilegrar þekkingar sem gerir mönnum kleift sem eru efst í valdapíramítanum að framkvæma hlutina. Og þá minni ég á það, hv. þm., að eftir því sem menn komast hærra í valdapíramíta stjórnmálanna, þá hafa þeir yfir að ráða meiri þekkingu þar sem þeir eiga greiðari aðgang að alls konar sérfræðingum, hvort sem það er innan ríkiskerfisins eða annars staðar.
    Ég segi því, virðulegi forseti, að ég óttast það vegna þingræðis og lýðræðis í landinu að ef þessi tilhögun verður upp tekin sem þetta frv. gerir ráð fyrir, þá muni það skaða og skerða lýðræði á Íslandi og breyta íslensku þingræði á óæskilegan hátt. Það er andstætt þeirri meginhugsun sem ég legg í stjórnarskrá Íslands þannig að ég legg áherslu á, virðulegi forseti, að þetta mál fái ekki þá afgreiðslu að það verði samþykkt á þessu þingi sem nú stendur yfir. Ég vænti þess, eins og fram hefur komið hjá öðrum þingmönnum, að sú nefnd sem fær frv. til umfjöllunar geri það með þeim hætti að þetta frv. fari ekki í gegn.