Stjórnarskipunarlög
Föstudaginn 15. febrúar 1991


     Guðrún J. Halldórsdóttir :
    Virðulegi forseti. Aðeins örfá orð til viðbótar því sem ég áður hef sagt um þetta frv. Það hefur komið fram að lög um þingsköp þurfa mjög nauðsynlega að fylgja þessum breytingum sem hér eru fyrirhugaðar, ef þær eiga að koma fram. Ég held að það séu kannski einhver rök að það fyrirfinnist á hinum Norðurlöndunum þing sem eru í einni deild, en þá er mér spurn, ef við ætlum að fylgja því: Höfum við þá líka athugað hvernig þings . . . ( ÞK: Þetta er aðeins á tveim Norðurlöndunum sem er ein deild, ekki öllum Norðurlöndunum. Það er í Danmörku og Svíþjóð, en í öllum öðrum löndum í Evrópu eru þær tvær.) Hv. 4. þm. Vestf. benti á að það væri aðeins á tveimur hinna Norðurlandanna sem þingið væri í einni deild, Danmörku og Svíþjóð, og leiðréttist það hér með. Það sem ég vildi sagt hafa var eftirfarandi: Ef við ætlum að breyta yfir í eina deild og gera það m.a. vegna þess að nágrannar okkar tveir hafa þetta form á, þá þurfum við líka að athuga hvernig þingsköpin eru sem þeir fara eftir. Eiga lagafrumvörpin að mestu uppruna hjá ríkisstjórninni og eru þau rekin í gegn með harðri hendi eins og lýst hefur verið að hugsanlega gæti skeð hér hjá okkur? Eða eru lögin yfirleitt upprunnin úr hugum þingmanna?
    Mér skilst að a.m.k. í sumum Norðurlandanna sé sá háttur jafnvel hafður á að ríkisstjórnir koma með drög að lögum og leggi fyrir þingheim sem síðan sjálfur formi lögin og hafi þessi drög sem undirstöðu og ívaf. Ef þetta eru réttar upplýsingar sem ég hef, og ég held að þær séu það, þá væri slík tilhögun mjög til eftirbreytni fyrir okkur hér á Íslandi. Ég held að það mundi auka mjög hlut þingsins í lagasetningu ef þessi aðferð væri viðhöfð jafnframt því sem ríkisstjórnir mundu auðvitað leggja fram tilbúin lagafrumvörp sem væru meðhöndluð eins og hingað til hefur verið gert. En það, að koma með drög að frv. sem nefndir þingsins ynnu síðan, mundi auka hlut þingsins um leið og einhverjar aðrar breytingar yrðu sem skertu hlut þingsins.
    Ég vildi koma þessu á framfæri við hv. formann allshn. svo að hann gerði sér grein fyrir því að þarna væri kannski leið til þess að jafnvægið skertist ekki of mikið milli þings og ríkisstjórnar.