Félagsþjónusta sveitarfélaga
Föstudaginn 15. febrúar 1991


     Anna Ólafsdóttir Björnsson (frh.) :
    Virðulegi forseti. Ég þurfti því miður að gera hlé á ræðu minni fyrr í vikunni einmitt í þann mund sem ég var að fjalla um nauðsyn þess að um félagsþjónustu sveitarfélaga gilti heildstæð löggjöf. Ég tel óhjákvæmilegt að rekja í stuttu máli áherslur okkar kvennalistakvenna varðandi það frv. sem hér liggur fyrir áður en ég tek á ný við lokakafla ræðu minnar en mun gera það að sjálfsögðu í örstuttu máli.
    Við kvennalistakonur deilum harðlega á ráðherra félagsmála og menntamála fyrir að bjóða upp á átök sem gætu stefnt tveimur málum í hættu, málum sem þyrftu að komast í gegn vegna þeirra góðu þátta sem í þeim felast en jafnframt að stokkast upp til þess að svo megi verða. Þetta eru frv. sem hér er rætt, um félagsþjónustu sveitarfélaga, og leikskólafrv. hæstv. menntmrh. Hætt er við að bæði málin gjaldi þessarar málsmeðferðar og hvorugt verði að lögum.
    Til þess að við kvennalistakonur getum stutt það mál sem hér er til umræðu verður sá kafli sem varðar leikskóla að víkja úr frv. Ekki vegna þess að við höfum tekið afstöðu í valdabaráttu milli ráðherra heldur vegna þess að sá kafli skilar börnum þeim sem leikskólanna eiga að njóta ekki nokkrum sköpuðum hlut. Ég mun ekki endurtaka það sem ég sagði fyrr í þessari viku um gildi leikskóla fyrir börn, þroska þeirra og menntun í uppvexti en hlýt að vekja athygli á því að skyldur sveitarfélaga við börn í uppbyggingu leikskóla eru ekki tryggðar í þessu frv. umfram það sem þegar er í lögum um verkaskiptingu ríkis og sveitarfélaga. Því þjónar það engum tilgangi að halda kaflanum inni á þeim forsendum.
    Leikskólafrv., það sem við munum brátt fjalla um, segir það sem segja þarf um uppeldisstefnu í leikskólum, en eftir stendur að á hvorugum staðnum er nokkuð bitastætt um uppbyggingu leikskóla og það er mikil hneisa. Við byggjum ekki leikskóla úr fögrum orðum og góðum markmiðum. Ég vek athygli á því að kvennalistakonur hafa oftar en einu sinni komið með raunhæfar og nákvæmlega útfærðar tillögur um fjármögnun í uppbyggingu leikskóla, nú síðast innan þeirrar nefndar er samdi leikskólafrv. En því miður eru þær tillögur hundsaðar og mikil vonbrigði að ekki skuli vera að finna úrræði í þessum málum nú frekar en áður. Ég vænti þess að menn hafi þroska til að leysa þá alvarlegu deilu sem er í afstöðu til leikskólanna og yfirstjórnar yfir þeim og manndóm til þess að taka einu sinni alvarlega á því ófremdarástandi sem víða er í uppbyggingu leikskóla.
    En víkjum þá að spurninginni um hvort heildstæðrar löggjafar sé þörf um félagsþjónustu sveitarfélaga. Ég hlýt að svara þeirri spurningu játandi og bendi á um leið að leikskólar og grunnskólar eru ekki óhjákvæmilegur hluti af þeirri heildstæðu löggjöf.
    Íslendingar stóðu fremstir í flokki Norðurlandaþjóða á þjóðveldisöld einmitt hvað þennan málaflokk varðar og það er alger óþarfi að fara að láta eitthvert metnaðarleysi ná tökum á sér nú á seinni öldum. Þá gegndi íslenski hreppurinn mikilvægu hlutverki í samhjálp og samtryggingu. Ég vitnaði í máli mínu fyrr í vikunni til skilgreiningar Lýðs Björnssonar á þessari samhjálp og læt mér nægja að endurtaka síðustu orðin úr þeirri tilvitnun sem ég hafði um göngumenn og fleiri, með leyfi forseta. Lýður segir:
    ,,Menn, sem fóru um sveitir, þágu ölmusu eða tóku gistingu alls staðar, töldust göngumenn, flakkarar. Virðist löggjafinn gera ráð fyrir tveimur flokkum slíkra manna og er réttur þeirra mjög mismikill. Verða þá í öðrum flokknum þeir sem gengu sökum elli eða lasleika en í hinum þeir sem flökkuðu vegna eigin ómennsku. Ómennska taldist að ganga um vegna leti eða sökum þess að þeir fengu ekki vist vegna einhverra ókosta. Göngumenn af fyrri flokknum nutu svipaðra réttinda og heimilisfast fólk.``
    Ég held að þótt með hrjúfum áherslum sé komi í þessum litla kafla fram ein grundvallarhugsunin sem ávallt verður að vera til staðar í félagsþjónustu, þ.e. sú hugsun að félagsþjónusta aðstoði þá sem þurfa á að halda til sjálfshjálpar en ýti ekki undir það sem þá var kallað ómennska en við mundum nú e.t.v. frekar kalla framtaksleysi.
    Fyrirbyggjandi aðgerðir skipta verulegu máli í þessum efnum og ég fagna því að á það skuli vera lögð áhersla í þessu frv. sem hér er til umræðu. En það má ekki líta fram hjá því að framfærsluaðstoð er nauðsynleg í því samfélagi sem við búum við nú, ekki vegna ómennsku eða framtaksleysis fólks heldur vegna þeirrar launastefnu sem við búum við og veldur því að jafnvel fullvinnandi fólk og hörkuduglegt getur búið við svo kröpp kjör að það þurfi að leita á náðir sveitarfélagsins um tímabundna aðstoð. Ég held að slíkt geri enginn glaður og því skiptir máli að með þessi mál sé farið af nærgætni og sú hugsun ráðandi að hér sé um rétt að ræða og eðlilega aðstoð en ekki ölmusu eða bónbjargir. Við eigum að halda því góða úr fortíðinni, þeirri hugsun að samhjálp sé sjálfsögð í litlu samfélögunum okkar, þessum sem við nefnum sveitarfélög, en losa okkur við það sem miður fer eins og ómagahugsunarháttinn.
    Það er undarlegt til þess að vita að nú fyrst skuli útrýmt ákvæðum um sveitfesti og þar með girt endanlega fyrir þann möguleika að reynt sé að losna við erfiðar fjölskyldur burt úr smærri samfélögum. En ég hlýt að nefna að nýrrar sýnar er jafnframt þörf í sambandi við fjármögnun félagsþjónustu sveitarfélaga á meðan við höfum fámennu sveitarfélögin okkar sem búa við mismunandi aðstæður í tekjuöflun og íbúafjölda og íbúahóp sem þarf mismunandi mikillar aðstoðar við. Þar má m.a. nefna aldursskiptingu íbúa og eitt og annað fleira. Það má ekki viska feimnismálum eins og framfærslu til hliðar vegna þess að við skömmumst okkar fyrir það að búa svo að fólki að jafnvel fullfrískir einstaklingar geta ekki alltaf framfleytt sér.
    Varðandi málefni aldraðra vil ég taka fram að sá málaflokkur verður sífellt meira áberandi í okkar samfélagi og tel ég að í því frv. sem hér er fram komið séu nokkur mikilvæg ákvæði varðandi þeirra mál. Málefni fatlaðra eru tekin þeim tökum í þessu frv. að

félög þeirra hafa fagnað mjög framlagningu þess. Ég treysti þeim betur en nokkrum öðrum til að meta gildi þessa frv. Innan þeirra vébanda eru þeir einstaklingar sem vita helst hvar skórinn kreppir og ekki er ástæða til þess að vefengja það sem forsvarsmenn þessara félaga hafa til málanna að leggja. Það er ekki síst vegna þessara atriða sem mér finnst mjög brýnt að þetta frv. hljóti afgreiðslu og af því verði þeir vankantar sniðnir sem óhjákvæmilega hljóta að leiða til tafa eða lélegrar afgreiðslu þessa máls.
    Það mun mál flestra sem gerst þekkja til aðstæðna fatlaðra að miklu máli skipti að veita fötluðum sem besta þjónustu í heimabyggð. Það firrir hins vegar ríkisvaldið ekki ábyrgð á mjög sérhæfðri þjónustu við fatlaða sem ekki er hægt að veita í hverju sveitarfélagi fyrir sig. Því er nauðsynlegt að ríki og sveitarfélög hafi með sér gott samstarf í þessum málum. Ég hlýt auðvitað að geta þess í leiðinni að framtíðartakmarkið er að ekki þurfi sérstaklega að fjalla um málefni fatlaðra í löggjöf heldur verði skólamál fatlaðra hluti af skólamálum almennt, þjónusta sveitarfélaga við fatlaða hluti af eðlilegri þjónustu sveitarfélaga við alla, ferlismál fatlaðra sjálfsögð skipulagsmál o.s.frv. En ég efa það ekki að þetta frv. er góður áfangi á þessari leið og við afnemum engin sérlög fyrr en önnur lög skila hópum eins og fötluðum því sama og sérlögin nú gera.
    Um frágang frv. og einstakar ábendingar mun okkur gefast kostur á að fjalla í nefnd, svo og þau alvarlegu ágreiningsmál sem þessu frv. fylgja enn. Það ætti að vera kappsmál okkar allra að þetta mál nái fram að ganga nú á þessu þingi. Það hefði þurft að koma fram miklu fyrr á þessum vetri svo vönduð vinna gæti orðið í nefnd. Ég vonast til þess að nefndin muni engu að síður gefa sér tíma og taka fast á málum þannig að það komist í gegn án þess að slakað verði á kröfum um vönduð vinnubrögð. Og ég vona að þessu frv. muni ekki fylgja út úr þinginu óþarfa ómagar sem ekki ættu þar heima.