Félagsþjónusta sveitarfélaga
Föstudaginn 15. febrúar 1991


     Rannveig Guðmundsdóttir :
    Virðulegi forseti. Ég fagna því mjög að nú er lagt fyrir Alþingi frv. til laga um félagsþjónustu sveitarfélaga. Eins og fram hefur komið á það sér nokkuð langan aðdraganda þar sem nefndarstarf, sem frv. þetta er afraksturinn af, hófst í júlí 1986 og miðaði þá að því að endurskoða framfærslulögin. Sú nefnd óskaði fljótlega eftir því við þáv. félmrh., Alexander Stefánsson, að umboði nefndarinnar yrði breytt og að hún fengi það hlutverk að vinna rammalöggjöf um félagslega þjónustu sveitarfélaga og fól ráðherra nefndinni það verkefni. Það var mjög rökrétt að taka þannig á málum af hálfu nefndarinnar þar sem, eins og fram kom í máli menntmrh., önnur og ýmiss konar félagsleg úrræði eru fyrir löngu farin að hafa meira vægi í aðstoð við fjölskyldur heldur en framfærsla eða framfærsluaðstoð ein og sér.
    Þar sem ég átti sæti í nefndinni fyrstu tvö árin þekki ég mjög vel hvaða viðhorf voru lögð til grundvallar nefndarstarfinu og þá umræðu að fara fremur þá leið að setja rammalöggjöf um félagsþjónustuna og styðjast áfram við sérlög í hinum ýmsu málaflokkum fremur en smíða heildarlöggjöf um félagslega þjónustu svo sem gert hefur verið í sumum nágrannalöndum okkar.
    Í umræðunni sem hófst hér fyrir helgi var m.a. nefnt að þetta frv. eða þessi löggjöf sem hér væri lagt upp með væri eins og húfa yfir þá ýmsu löggjöf sem fyrir hendi væri. Á jákvæðan hátt má segja að þetta sé hárrétt því rammalöggjöf er eins konar almenn umgerð um þau sérlög sem eru til staðar. Ég tel að það sé báðum þeim ráðherrum sem hlut eiga að máli til mikils sóma að hafa haft skilning á þessu mikilvæga máli og að vilja festa í sessi þennan málaflokk sem í raun má kalla lífæð sveitarfélaganna.
    Ég verð að segja að miðað við fjölda félagshyggjumanna í röðum alþingismanna þá átti ég sannarlega von á því þegar þetta frv. var tekið á dagskrá að það fengi mjög jákvæð viðbrögð. Það hefur hins vegar orðið þannig að þeir sem tekið hafa til máls um frv. hafa fremur slegið á neikvæða strengi þó vissulega séu á því undantekningar í máli manna. En þær umsagnir sem fylgja frv. eru í heildina mjög jákvæðar og má segja að tilkomu frv. sé almennt fagnað af þeim sem hlut eiga að máli, þ.e. bera ábyrgð á málaflokkum eða starfa að ákveðnum þáttum sem undir félagsþjónustuna heyra.
    Ég mun ekki eyða tíma hér í ræðustóli til að fjalla um umsagnir en vil þó nefna það sem segir í umsögn miðstjórnar ASÍ, að hún telur feng í því að sett sé löggjöf um félagslega þjónustu sveitarfélaga, að á einum stað í löggjöf verði að finna hvers konar þjónustu sveitarfélögum er skylt að veita og hvernig hún skuli vera. Það kemur einnig fram í umsögn ASÍ að það megi segja að engar byltingarkenndar breytingar sé að finna í frv. um þá þjónustu sem hin stærri sveitarfélög veita í dag. Þetta er að vissu leyti rétt því á liðnum árum hafa hin stærri sveitarfélög skipað þessum málum sínum í ákveðinn farveg að eigin frumkvæði.

Og eftir því sem sveitarfélög hafa aukið félagslegar áherslur sínar og starfsmönnum félagsþjónustunnar fjölgað hefur samráð milli þeirra og milli sveitarfélaganna aukist mjög og haft áhrif á þróun mála í mörgum stærri sveitarfélögunum. Þetta hefur gerst þrátt fyrir það að yfirstjórn málaflokksins hefur verið í mörgum ráðuneytum og að skort hefur vissa heildaryfirsýn.
    Það að öflug félagsmálastefna hefur verið rekin í mörgum stærri sveitarfélögum hefur skapað visst misrétti þegnanna, þ.e. að þeir íbúar, sem búa í smærri sveitarfélögum eða þeim sveitarfélögum þar sem takmörkuð félagsleg þjónusta er veitt, sitja ekki við sama borð og hinir í þessum efnum. Því er afar jákvætt að lögfesta þær almennu skyldur sem hverju sveitarfélagi er ætlað að axla. Í stóru sveitarfélögunum og raunar mörgum þeirra smærri hefur samræmd félagsþjónusta heyrt undir félagsmálaráð og starfsemin víða farið fram innan veggja Félagsmálastofnunar.
    Ég átti um árabil þátt í félagslegu starfi á vettvangi bæjarmála í Kópavogi og ég hef sagt í þessum ræðustóli og endurtek það nú að ég mundi vilja sjá annað heiti, t.d. heitið Fjölskyldustofnun, koma í stað Félagsmálastofnunar vegna þeirrar neikvæðni sem margir bera til þess sem þeir telja að slík stofnun standi fyrir. Það hefur líka verið dapurt að vera vitni að því að jafnvel öflugt félagsmálafólk hefur notað það málfar í hita leiks í umræðu um afmarkaða félagsmálaþætti að ekki megi flokka þá með neinni ,,aumingjaþjónustu``. Í Kópavogi völdum við að á einni og sömu stofnun væru saman málefni aldraðra, íþrótta- og unglingamál, dagvistarmál og atvinnumál, atvinnuleit og málefni fatlaðra, framfærslumál og nú einnig húsnæðismál. Það hefur verið farsælt að vinna að þessum þýðingarmiklu þáttum fjölskyldumála undir einum hatti og þannig að starfsmenn hafa betur en ella haft yfirsýn yfir skörun mála sem til þeirra kasta hafa komið. Ég er ekki í vafa um að sú tilhögun sem ég hér hef nefnt á þátt í hve vel hefur tekist í félagslegri uppbyggingu í Kópavogi og nefni það hér í tengslum við umræðu um samræmda félagslega þjónustu.
    Þetta frv. miðar að því að á vettvangi ríkisins verði yfirstjórn og eftirlit með framkvæmd félagsþjónustu sameinuð í félmrn., ráðuneyti sveitarstjórnarmála, í stað fleiri ráðuneyta eins og nú er. Í sveitarfélögunum verður stjórn og framkvæmd þessara mála sem mest hjá félagsmálanefnd. Smærri sveitarfélög eru hvött til að sameinast um þjónustu á vettvangi héraðsnefnda eða byggðasamlaga þannig að þjónustan standi öllum til boða og nefni ég einmitt þann þátt sem menntmrh. gerði að umtalsefni hér rétt áður í ræðustóli.
    Það á að hafa sjálfsákvörðunarrétt sveitarfélaganna að leiðarljósi í málefnum þeirra og einmitt rammalög gefa sveitarfélögunum mikið svigrúm til ákvarðana miðað við aðstæður og sveigjanleiki getur orðið meiri en ella. En fyrst og fremst mun það auðvelda smærri sveitarfélögum að bjóða þessa þjónustu að þau fari saman í gegnum héraðsnefndir eða byggðasamlög.

Hlutverk og ábyrgð ráðuneytis er fyrst og fremst reglur, leiðbeiningar og ráðgjöf, öflun og miðlun upplýsinga, ásamt vissu frumkvæði sem tekur þó mið af frelsi og sjálfræði sveitarfélaganna.
    Virðulegi forseti. Þrátt fyrir þau orð sem féllu hjá menntmrh. áðan, og sem ég er sammála, að ræða eigi þessi mál í raun aðskilið, félagsþjónustu sveitarfélaga og frv. um leikskóla, þá vil ég koma örlítið inn á það sem hér hefur verið rætt í þeim efnum og snerta það sem menn hafa viljað kalla skörun á milli þessara tveggja frv. Fyrir mér er þetta ekki spurning um völd eða yfirráð eins og hér hefur verið nefnt. Fyrir mér er þetta spurning um að fagleg yfirstjórn leikskólamála, þ.e. innra starf, uppeldisáætlanir og veiting starfsleyfa, verða áfram í menntmrn. svo sem verið hefur. Hins vegar verður það verkefni félmrn. sem ráðuneytis sveitarmála að hafa eftirlit með því að sveitarfélögin sinni uppbyggingu dagvistarheimila, veiti þeim aðstoð og ráðgjöf við að sameinast um slíkan rekstur svo sem með stofnun byggðasamlaga eins og áður er nefnt og er þetta mjög þýðingarmikið verkefni með hliðsjón af fjölda og smæð sveitarfélaga ef leikskólar eiga að bjóðast öllum börnum óháð búsetu. Að mínu mati er því ekki um að ræða skörun á milli ólíkra frumvarpa heldur samhæfing á milli mikilvægra mála sem heyra undir sama málaflokkinn.
    Það hefur verið gengið út frá því frá upphafi og reiknað með því að auk rammalaga um félagsþjónustuna gildi áfram sérlög um leikskóla og það eru engin ákvæði í frv. um félagsþjónustu sem hindra að leikskólafrumvarpið, sem hér er einnig á dagskrá, verði að lögum.
    Ég vil líka nefna það að frv. um félagsþjónustu kveður á um skyldur sveitarfélaga viðvíkjandi öldruðum en þrátt fyrir það er ekki lagt til að hróflað sé við lögum um málefni aldraða, né að sá málaflokkur sé fluttur til. Þá hefur heldur ekki verið gerð krafa um að það sem snýr að öldruðum sé tekið út úr þessu frv.
    Það kemur mér líka á óvart að viðbrögð menntmrh. skuli vera þau í dag að hann leggi það til úr þessum ræðustóli að fella kaflann um leikskóla út úr frv. um félagsþjónustu. Það er svo langur tími liðinn síðan þetta frv. var tilbúið og menn gerðu ágreining um hvort ákvæðið um leikskólann ætti að vera í félagsþjónustunni og heyra undir þau verkefni sem félmrn. mundi reka á eftir hjá sveitarfélögunum eða ekki. Og úr því farin var sú leið að leita samræmingar og sameinast um niðurstöðu, orðalag og annað í frv. sem samstaða gæti verið um, þá hefði ég haldið að fyrir því yrði mælt hér í dag af hálfu beggja ráðherra. Ef allan tímann átti að leggja til að leikskólinn yrði ekki með í félagsþjónustunni þá áfellist ég það að þetta mikilvæga frv. sé ekki komið hér inn í þennan þingsal fyrir rúmu ári síðan.
    Hér var sett fram sú spurning hvort leikskólinn væri menntastofnun eða félagslegt úrræði og geymslustaður. Ég hef velt því fyrir mér hvort ég hafi skilið áherslurnar rétt. Hvort það sé sem mér heyrist að félagslegt sé enn á ný neikvætt og að þetta tvennt síðarnefnda hljóti að hanga saman.
    Ég get spurt hvort menntastofnun fyrir yngsta aldurshópinn sé skilgreind sem stofnun sem allir hafa aðgang að. Eða hvort hægt sé að skilgreina hana þannig meðan einungis ákveðinn hluti barna í aldurshópnum á mögulegan aðgang. Fyrir mér er leikskólinn fræðslu- og uppeldisstofnun. En við skulum ekki gleyma því að stór hluti barna á leikskólaaldri er að fá þá fræðslu og uppeldi sitt inni á heimilunum, inni á sínum eigin heimilum eða annars staðar en í leikskólanum. En fyrir mér er leikskólinn líka stórkostlegt fyrirbæri og lán hvers sveitarfélags þegar þannig er haldið á málum að vel er mannað sérmenntuðu starfsfólki.
    En halda menn að það ráði einhverju um hve vel tekst að fá sérmenntað fólk til starfa hvort leikskólinn heyrir undir sameiginlega yfirstjórn í félagsþjónustu sveitarfélaga eða hvort hann er rifinn þar frá? Halda menn að þar sem sérstaklega hefur verið tekið á í innra starfi leikskólans --- og ég ætla að leyfa mér að taka sem dæmi starfsemi sem kennd er við Reggio Emilia --- halda menn að það hafi orðið fyrir frumkvæði menntmrn. þar sem það var gert? Aldeilis ekki. Það gerðist undir stjórn félagsmálaþáttarins og með stuðningi þaðan. En ég ætla að árétta að menntmrh. verðlaunaði slíkt framtak og hefur haft skilning á því.
    Menntmrn. hefur í gegnum tíðina, og er ég búin að þekkja til þessa málaflokks í tólf ár, engin afskipti haft af uppbyggingu og meira að segja oft verið erfitt að fá úrskurð um ýmislegt og minnist ég t.d. þess að vilja fá úrskurð menntmrn. um hámarksfjölda barna í svonefndum fjölskyldudeildum. Engin afskipti hafa verið af beinni uppbyggingu en þaðan hafa verið gerðar og séð um uppeldisáætlanir, innra starf, og sannarlega er það verkefni sem skiptir mestu máli um rekstur og innra starf leikskólans.
    Mig langar að nefna það að skólinn eins og við þekkjum hann er fyrir öll börn og grunnskólaganga er skylda. Leikskólavist frá sex mánaða aldri er samkvæmt ósk foreldra, er ekki skylda en þýðingarmikið úrræði og mikilvæg uppbygging í sveitarfélagi.
    Ríkið borgar laun allra kennara en sveitarfélögin byggja grunnskólann. Sveitarfélögin greiða allan kostnað við leikskólann, bæði uppbyggingu og laun starfsfólks. Ef við meinum eitthvað með að leikskóli sé skóli hljótum við að stíga skrefið til fulls og fela ríkisvaldinu launakostnað fagfólksins. Því það er enginn sveitarstjórnarmaður sem kærir sig um það samkrull ríkis og sveitarfélaga sem viðgengist hefur í gegnum tíðina þar sem ríkið á að koma með ákveðna hlutdeild í hinum ýmsu þáttum og skilar henni aldrei, og þar hefur ekkert að segja hver er við stjórnvölinn, hvorki hjá ríkisvaldinu né sveitarfélaginu.
    Með því að við stígum skrefið til fulls og segjum: Fóstrur skulu á sama hátt og kennarar hljóta laun frá ríkinu, þá væri hægt að setja skyldur á sveitarfélögin um uppbyggingu. Ég ætla að nefna það hér, sem er þekkt þumalfingursregla sveitarfélaga, að stofnkostnaður myndarlegs leikskóla er etinn upp á þremur árum í rekstri svo við mundum geta tvöfaldað fjölda leikskóla í Kópavogi, sem eru tíu til ellefu, á þremur árum ef við værum komin með launakostnaðinn yfir til ríkisins eins og grunnskólinn.
    Hv. 13. þm. Reykv. gagnrýndi að ekkert væri getið um það í þessu frv. hvað sveitarfélögin ættu að bjóða upp á af leikskólaplássum. Það er vissulega einungis ætlast til þess að sveitarfélögin miði að því að fullnægja þörf. Til að áætla þörfina gerir sveitarfélagið könnun og setur sér síðan framkvæmdaáætlun. Ég hef staðið að því að gera tíu ára áætlun um uppbyggingu á árunum 1980 -- 1990 í Kópavogi. Sú áætlun var nokkuð hliðstæð áætlun sem vinstri meiri hlutinn í Reykjavík gerði á sama tíma, bæði í Kópavogi og í Reykjavík, að tilhutan félagsmálaráðs. Áætlunin gekk nokkuð vel eftir í Kópavogi en var ekki fylgt eftir í Reykjavík, enda skipt um pólitískar áherslur þar. Og það hafði ekkert með málið að gera undir hvaða ráðuneyti innra starfið heyrði. Það hafði með það að gera hvaða félagslegu áherslur voru við lýði í viðkomandi sveitarfélagi, hvaða áherslur sveitarfélagið vildi leggja, hvaða áætlun sveitarfélagið gerði og hvernig það vildi standa við þá áætlun.
    Þó að ég haldi því fram hér, og það hefur komið fram í máli mínu, að þessum þáttum sé mjög vel borgið innan félagsmálaþáttarins og það sé trúa mín að þar skuli þessum þætti valinn farvegur, þá er það nú einu sinni svo, eins og hæstv. menntmrh. nefndi hér áður, að við erum í annan tíma að tala um sjálfstæði sveitarfélaganna. Því gat ég mjög vel staðið að því að sett væri inn í frv. um félagsþjónustu að leikskólinn skyldi annaðhvort heyra undir félagsmálanefnd, sérstaka nefnd eða skólanefnd. Með því fellst ég fullkomlega á það sjónarmið að það sé ákvörðun sveitarfélagsins hvar leikskólinn er staðsettur í stjórnkerfinu og kemur það fram í 38. grein.
    En við ættum og höfum hingað til tekið nokkurt mið af viðhorfum sveitarfélaganna varðandi málefni þeirra og um þennan kafla ætla ég ekki að hafa fleiri orð, hæstv. forseti, nema að lesa, með leyfi forseta, fylgiskjal II með frv. til laga um félagsþjónustu sveitarfélaga sem hér liggur fyrir. Þar stendur:
    ,,Í umfjöllun stjórnar Sambands ísl. sveitarfélaga sl. vetur um fyrstu drög að framangreindu frumvarpi kom skýrt fram, að stjórnin var algerlega sammála þeim meginmarkmiðum frumvarpsins, að lögin væru rammalög, að yfirstjórn allra félagsmála verði í félagsmálaráðuneytinu, sem jafnframt er ráðuneyti sveitarstjórnarmála og að ein nefnd í hverju sveitarfélagi (félagsmálanefnd/félagsmálaráð) fjallaði um öll félagsmál. Var þetta sjónarmið staðfest í bréfi til félagsmálaráðuneytisins sem umsögn um drög að frv. til laga um félagsmál. Í bréfi til ráðuneytisins dags. 19. f.m. ásamt umsögn um frv. í heild voru áðurnefnd sjónarmið ekki endurtekin, enda er í þeirri umsögn aðeins vikið að þeim atriðum frumvarpsins, sem stjórnin gerði athugasemdir við.
    Það hefur alla tíð verið stefna Sambands ísl. sveitarfélaga að félagsmálaráðuneytið ætti að hafa af ríkisins hálfu yfirstjórn félagsmála á vegum sveitarfélaga, þ.m.t. barnaverndarmál og mál er varða yngstu borgarana, leikvelli og dagheimili.``
    Virðulegi forseti. Nóg um þetta mál enda á það eftir að koma hér síðar á dagskrá.
    En því viðhorfi að félagsþjónustan sé fyrir afmarkaðan hóp þeirra sem hafa orðið undir í lífsbaráttunni er hafnað í því frv. sem hér er til umræðu. Þess í stað áréttar þetta frv. það viðhorf að félagsþjónusta sveitarfélaga sé sú margháttaða þjónusta sem ætlað er að koma til móts við þarfir íbúanna. Það áréttar að félagslegar þarfir fólks séu ekki síður merkilegar en aðrar þarfir, að þær séu mismunandi eins og einstaklingarnir og að íbúar og sveitarfélög eigi valkosti í að sinna þessum þörfum.
    Þetta frv. skipar félagsþjónustunni á þann veg að ekki er flokkað í sundur, almenn þjónusta annars vegar og aðstoð við fólk sem á í vanda hins vegar. Þannig vil ég einmitt sjá þennan þátt velferðarþjóðfélagsins og skora á þingmenn að veita þessu máli góðan stuðning.