Félagsþjónusta sveitarfélaga
Föstudaginn 15. febrúar 1991


     Menntamálaráðherra (Svavar Gestsson) :
    Virðulegi forseti. Ég bað um orðið vegna þess að það gætti ákveðins misskilnings í ræðu hv. 9. þm. Reykn. þar sem kom fram að það hefði í rauninni engu máli skipt hverjir hefðu farið með þennan málaflokk á undanförnum árum hjá ríkinu. Ég minni á það að 1987 voru framlög til byggingar dagvistarheimila á vegum ríkisins 50 millj. kr. og þau voru það líka 1988. Haustið 1988, þegar Alþb. kom til starfa í ríkisstjórn, var tala fjárlagafrv. frá þeim drögum sem lágu fyrir hækkuð þannig að hún tvöfaldaðist í krónutölu eða upp í tæpar 100 millj. kr. Það er alveg augljóst mál að það hefur skipt miklu máli hverjir hafa farið með þessa málaflokka.
    Í því sambandi get ég rifjað það upp að upphaflegu lögin um þátttöku ríkisins í uppbyggingu leikskóla og dagvistarstofnana voru sett á árunum 1971 -- 1974. Þar var um að ræða lagaákvæði um þátttöku ríkisins í stofnkostnaði en líka í rekstrarkostnaði dagheimila hér á landi. Og það liggur fyrir og þarf ekki annað en að skoða vissar tölur því til sönnunar, þá liggur það fyrir að þessar ákvarðanir höfðu gífurleg áhrif á uppbyggingu dagvistarstofnana í landinu. Sú ákvörðun ríkisstjórnar Framsfl. og Sjálfstfl. í september 1975 að fella niður lagaákvæði um þátttöku ríkisins í rekstri dagheimila dró verulega úr þessari uppbyggingu frá því sem gert hafði verið ráð fyrir. Þess vegna segir það sig auðvitað sjálft að það hefur skipt máli hverjir hafa farið með þessa málaflokka, enda geri ég ráð fyrir því að talsmenn Alþfl. vilji meina svona yfirleitt að það skipti máli hvort þeir fari með málaflokka eða einhverjir aðrir, eða hvað? ( RG: Ráðherra misskildi orð mín e.t.v. viljandi.) Hafi ráðherra misskilið orð hv. þm. þá biðst hann afsökunar á því, en ráðherrann gerði það örugglega ekki viljandi.
    Ég taldi mikilvægt að koma þessum sjónarmiðum á framfæri, virðulegi forseti, í tilefni af þeim ummælum sem féllu hér áðan.
    Um ýmsa aðra þætti sem hv. 9. þm. Reykn. ræddi, m.a. varðandi uppeldisþáttinn í þessum málum og afstöðu einstakra aðila, þá held ég að það sé því miður óhjákvæmilegt að láta það koma fram líka að það er ekki þannig að víðtæk samstaða sé um að leikskólamálin séu inni í lögum um félagsþjónustu sveitarfélaga. Það er ekki þannig. Það er fjöldi aðila sem telur óhjákvæmilegt að endurskoða það. Þar má nefna t.d. Félag áhugafólks um málefni barna, sem eru virt samtök og vaxandi í seinni tíð. Þar má nefna aðila eins og stjórn Bandalags starfsmanna ríkis og bæja, sem hefur beitt sér mjög í þessu máli. Það má nefna aðila eins og Kennarasamband Íslands, Fóstrufélag Íslands og t.d. Reykjavíkurborg. Reykjavíkurborg er þrátt fyrir allt einhver stærsti rekstraraðili dagvistarstofnana í landinu. Þar er það ekki þannig að dagvistarmál séu undir félagsmálaráði heldur er stjórn dagvistar barna sjálfstæð stofnun, kosin með þeim hætti að hún nýtur sjálfstæðis innan stjórnkerfis Reykjavíkur. Í umsögn Dagvistar barna um þessi mál segir, m.a. með leyfi forseta:

    ,,Það er yfirlýst stefna Dagvistar barna í Reykjavík að málefni leikskóla verði áfram vistuð í menntmrn. Samkvæmt lagafrv. því sem hér liggur fyrir er engan veginn tryggt að svo sé.``
    Þessi umsögn Dagvistar barna hefur verið samþykkt í borgarráði Reykjavíkur.
    Í umsögn félagsmálaráðs Reykjavíkurborgar sem fékk frv. um félagsþjónustu líka til umsagnar segir m.a., með leyfi forseta:
    ,,Samkvæmt núgildandi lögum hefur menntmrn. yfirstjórn dagvistarmála og faglegt eftirlit og ráðgjöf og hefur haft síðan fyrstu lög um dagvistarmál voru sett árið 1973. Félagsmálaráð er sammála því grundvallarsjónarmiði að dagvistarheimili fyrir börn séu uppeldis - og menntastofnanir og hljóti því að heyra áfram undir sömu yfirstjórn og grunnskólar. Öll þróun í starfi dagvistarheimila hér á landi styrkir æ betur þennan skilning og að víkja frá þessu grundvallarsjónarmiði væri síst til bóta. Félagsmálaráð Reykjavíkur telur því að fella þurfi niður úr frv. til laga um félagsþjónustu sveitarfélaga öll ákvæði er lúta að dagvist barna að undanskilinni 31. gr.``
    Ég gæti talið hér upp fleiri aðila sem ég tel að séu marktækir í þessu efni sem nauðsynlegt er fyrir Alþingi að muna eftir í þessari umræðu og auðvitað algerlega fráleitt fyrir hv. þm. að horfa fram hjá því. Það er kannski líka nauðsynlegt að ítreka það út af því sem hér var sagt áðan að Alþýðusamband Íslands hefur haft mjög eindregna afstöðu í þessu máli sömuleiðis. Og það er alveg rétt hjá hv. 9. þm. Reykv. að hér er ekki um það að ræða að verið sé að deila um völd. Það er alls ekki um það að ræða, heldur er hér verið að deila um ákveðin grundvallarsjónarmið. Ég hélt satt að segja að það væri hægt að ná samkomulagi um þessi grundvallarsjónarmið og ég held að það sé enn þá hægt að ná samkomulagi um grundvallarsjónarmið eins og þetta vegna þess að ef menn tala saman af sanngirni um mál og beita hvern annan rökum og gagnrökum eins og gengur, þá muni menn fallast á að lenda hlutunum með þeim hætti sem við höfum verið að tala um, fyrst og fremst af því að leikskólinn hlýtur að vera almennt uppeldisúrræði. Hann er nútímasvar við félagslegum niðurstöðum.
    Ég er algerlega viss um það, virðulegi forseti, að eftir 10 -- 20 ár eða svo muni mönnum finnast það harla skrýtið að á Alþingi Íslendinga árið 1991 hafi menn verið að deila um það hvort leikskóli ætti að vera inni í lögum um félagsþjónustu sveitarfélaga eða ekki. Ég tel að mönnum muni finnast það nákvæmlega eins skrýtið og mönnum þætti það undarlegt í dag ef farið hefðu fram umræður um það fyrir 40 -- 50 árum hvort barnaskólarnir ættu að vera hluti af hinum almennu félagslegu úrræðum sveitarfélaganna, svo aum sem þau voru þá á þeim tíma. Það datt auðvitað engum í hug, en þó var það þannig, virðulegi forseti, að skólar, barnaskólar, voru á vegum sveitarfélaganna. Þeir voru reknir að verulegu leyti á vegum sveitarfélaganna. Það var frumkvæði þeirra, fátækra hreppa og byggða allt í kringum landið, að koma upp skólum fyrir börn. Engu að síður fór það svo að þetta

þróaðist allt inn í löggjöf um grunnskóla. Alveg á sama hátt mun það gerast, það er alveg óhjákvæmilegt, að leikskóli verður talinn sjálfsagt uppeldisúrræði í þjóðfélagi þar sem þess er krafist að foreldrar barnanna fari út á vinnumarkaðinn og staðreyndin liggi fyrir um það að 80 -- 90% þeirra séu úti á vinnumarkaðinum og þjóðfélagið ætlast til þess.
    Það liggur líka fyrir í þessu sambandi, virðulegi forseti, sem er nauðsynlegt að undirstrika, að leikskólinn er í raun og veru að mörgu leyti undirbúningur undir grunnskólann, þó að hér sé um að ræða sjálfstæða stofnun. Og það liggur fyrir að þau börn sem koma úr leikskólum eru að mörgu leyti betur undirbúin undir grunnskóla en ýmis önnur börn samkvæmt könnunum sem gerðar hafa verið. Hér erum við í raun og veru að deila um hluti sem ekki ætti að þurfa að deila um. Og ég endurtek að ég er handviss um það að eftir 10 -- 20 ár þyki það beinlínis sérkennilegt að menn hafi þurft að setja á langar ræður út af deilum um mál eins og þetta, svo sjálfsagt sem það er. Leikskóli er uppeldisstaður.