Félagsþjónusta sveitarfélaga
Föstudaginn 15. febrúar 1991


     Félagsmálaráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir) :
    Virðulegi forseti. Hér hafa orðið nokkrar umræður um það frv. sem hér er á dagskrá. Að hluta til finnst mér þær hafa verið á köflum nokkuð sérkennilegar. Það er auðvitað hægt að benda á ýmislegt sem fram hefur komið í þessum umræðum hjá einstökum ræðumönnum sem styður það. Ég nefni að það kom fram í máli eins þingmanns að hér væri nánast um að ræða einhvers konar bandorm þar sem væri raunverulega verið að breyta lögum í mörgum málaflokkum, hér væri um að ræða frv. sem væri almennt orðað, nánast eins og þáltill., engar skyldur væru settar á sveitarfélögin. Einn þingmaður hafði það á orði að kaflinn um fatlaða og aldraða væri óþarfur og eins kaflinn um leikskóla. Ákvæði frv., sem í þessu væri, væri að finna í öðrum lögum eins og í löggjöf um húsnæðismál, almannatryggingalögum, lögum um málefni fatlaðra og aldraðra, og því væri hér nánast um að ræða frv. sem væri óþarft. Einnig kom fram hjá þingmanni að hann gagnrýndi að það væri eins ákvæði í frv. um leikskóla og félagsþjónustu sem sköruðust og að sveitarstjórnarmenn væru ekki hrifnir af þessu frv. Ég vil því fara nokkrum orðum, virðulegi orðum, um þessi atriði.
    Í þessari umræðu fannst mér koma fram hjá einstökum þingmönnum að þeir áttuðu sig raunverulega ekki á hvernig frv. hér væri á ferðinni. Hér er um að ræða frv. að rammalögum og í því felst að það er einungis kveðið á um markmið og meginreglur en til hliðar við þau gilda áfram sérlög. Hér er raunverulega verið að draga út úr hinum ýmsu sérlögum þau verkefni sem snúa sérstaklega að sveitarfélögunum, svo að dæmi sé tekið í húsnæðismálum, málefnum aldraðra, málefnum fatlaðra. Í þessum sérlögum er að mestu um að ræða þær skyldur sem ríkið hefur í þessum málaflokkum, en hér er verið að draga saman í eina löggjöf, rammalöggjöf að félagsþjónustu, þau verkefni og þær skyldur sem sveitarfélögin hafa í þessu efni. Hér er raunverulega um að ræða fyrsta vísinn að félagsmálalöggjöf. Hér er raunverulega verið að setja velferðarmálin sem sveitarfélögin hafa skyldu við í stjórnkerfislegan farveg, en þau hefur, eins og ég sagði í minni framsögu, verið að finna í hinum ýmsu sérlögum. Alla heildaryfirsýn hefur skort yfir þær skyldur og verkefni sem sveitarfélögin hafa á sviði velferðarmála. Mér finnst mjög mikilvægt, þegar þetta frv. er gagnrýnt, að menn skoði það í þessu ljósi.
    Það er einnig rætt um að hér sé ekki verið að setja neinar skyldur á sveitarfélögin og þetta sé almennt orðuð löggjöf. Þá held ég að það sé líka brýnt að menn hafi í huga það sem raunverulega allir stjórnmálaflokkar hafa á sinni stefnuskrá sem er að auka sjálfstæði sveitarfélaganna. Það er auðvitað að verulegu leyti skýringin á því að ekki er afdráttarlaust í einstökum atriðum kveðið á um skyldur sveitarfélaganna í einstökum efnum. Hæstv. menntmrh. kom einmitt réttilega inn á þetta atriði.
    Ég hygg að það mundi nú eitthvað heyrast í sveitarfélögunum ef í slíkri löggjöf yrði kveðið nákvæmlega á um hve margar félagslegar íbúðir, svo að dæmi sé tekið, sveitarfélögin ættu að byggja á ári eða hve marga leikskóla sveitarfélögin ættu að reisa o.s.frv., eða að nákvæmlega yrðu njörvaðar hér niður þær reglur um fjárhagsaðstoð sem sveitarfélögin eiga að veita íbúum sínum í sérstökum tilvikum, að það yrði nákvæmlega njörvað niður hér á Alþingi hve háar upphæðir hér væri um að ræða. Þetta er einn þáttur málsins. Svo er hinn þáttur málsins líka að hér eru um 200 sveitarfélög sem eru mjög misjafnlega í stakk búin til að takast á við slík verkefni og þess vegna væri það auðvitað ekki rétt að negla þetta nákvæmlega niður í slíkri rammalöggjöf, fyrir utan það grundvallaratriði að það ber að virða sjálfstæði sveitarfélaganna.
    Nefndin sem vann þetta frv. vildi hafa þessar skyldur miklu nákvæmar niður negldar í einstökum greinum heldur en hér er lagt til. En nefndin taldi engu að síður rétt að taka tillit til þeirra umsagna sem komu frá sveitarfélögunum að því er varðar einstök atriði þessa frv.
    Um það atriði, að hér skarist ákvæði laga um leikskóla og félagsþjónustu, eins og hv. þm. Geir Haarde nefndi --- hann nefndi yfirstjórnina, hann nefndi könnun á þörf fyrir leikskóla og að leikskóla ætti að reka samkvæmt sérlögum --- þá skarast hér ekkert á, nákvæmlega ekki neitt. Ég hygg að það sé ekkert óvanalegt að kveðið sé á um skyldur og sömu atriði í fleiri en einni löggjöf. Þau eru raunverulega samhljóða, ákvæðin að því er varðar yfirstjórn, um innri málefni og faglega þáttinn að því er leikskólann varðar, bæði í frv. um leikskólann og í þessu frv. (Gripið fram í.) Könnun á þörfinni fyrir leikskóla, það er getið um það --- við erum að kveða á um það, hv. þm., hverjar séu skyldur sveitarfélaganna og verkefni að því er varðar málefni leikskóla og dagvista þannig að það er auðvitað ekkert við það að athuga að slík ákvæði séu sett inn í löggjöf sem er rammalöggjöf um þau verkefni og skyldur sem sveitarfélögin hafa að því er varðar þessi velferðarmálefni.
    Hv. þm. nefndi einnig að kaflinn um fatlaða væri með öllu óþarfur. En ég vil þá nefna það að í þeim kafla er að finna nýmæli sem ekki er að finna í öðrum lögum og það er um heimaþjónustu við fatlaða í 47. gr. Um heimaþjónustu fatlaðra er ekki að finna nein ákvæði, ekki í lögum um málefni fatlaðra, svo að dæmi sé tekið. Um það er kveðið á að því er varðar aldraða en að því er varðar heimaþjónustu við fatlaða er hvergi kveðið á um það, þannig að það eitt atriði út af fyrir sig nægir auðvitað til þess að um þennan málaflokk sé fjallað í þessu frv.
    Ég nefni einnig, af því að hér eru menn að tala um að þetta séu aðeins almennar markmiðslýsingar, þá má auðvitað finna ýmis lög sem sett hafa verið á Alþingi, sem menn hafa þó ekki gagnrýnt, sem kveða á um almennar markmiðslýsingar og stefnumarkandi atriði. Það má t.d. benda á ýmis ákvæði í lögum um málefni fatlaðra. Það má nefna lög um grunnskóla. Þar eru ýmsar almennar markmiðslýsingar og stefnumarkandi atriði sem ég ætla ekki að eyða tíma þingsins í að lesa hér upp þó að hægt væri, þannig að hér er ekki um neitt einsdæmi að ræða að því er það varðar.
    Í lokin vil ég mótmæla því sem mér fannst koma fram hjá hv. 10. þm. Reykn. að hér væri um einhverja valdabaráttu að ræða milli ráðherra sem væru að toga á milli sín þennan málaflokk varðandi leikskóla og til að mynda að félmrh. legði allt kapp á að sá málaflokkur félli undir félmrn. Það er auðvitað alrangt að halda slíku fram. Mitt sjónarmið hefur verið að það sé mjög óeðlilegt, þegar við erum að kveða á um rammalöggjöf um félagslega þjónustu þar sem upp eru talin verkefni sem sveitarfélögin hafa á velferðarsviðinu, að þá sé verið að taka út einn af mikilvægustu málaflokkunum sem sveitarfélögin hafa skyldur við. Það er það sem mér finnst með öllu óeðlilegt, fyrir utan það sem hefur komið hérna fram, og verður kannski aldrei nógsamlega undirstrikað, að sveitarfélögin bera fjárhagslega og faglega ábyrgð í þessum málaflokki. Og aftur skal það ítrekað, sem skýrt kemur fram í báðum þessum frumvörpum, að það er á engan hátt verið að taka nein verkefni frá menntmrn. sem það hefur haft í þessum málaflokki.
    Hv. þm. Geir Haarde sagði hér í síðari ræðu sinni að ég hefði ekki farið með rétt mál í minni framsöguræðu, að hér væri um að ræða samkomulag milli menntmrh. og félmrh. hvernig frá þessum málum var gengið í þessum tveim frumvörpum sem hér hafa verið til umræðu. Um það vil ég segja og rifja upp að þessi mál voru lögð hér fram á síðasta þingi rétt áður en þingi lauk. Um þau urðu að vísu ekki umræður, þau komust ekki á dagskrá en þau voru lögð hér fram.
    Ég vil rifja upp að nefndin sem samdi þetta frv. lagði til að dagvistarmálin flyttu alfarið til félmrn. Ég féllst á að breyta þeim tillögum sem nefndin var með í þeim efnum í þá veru að þessi málaflokkur, að því er varðar faglega þáttinn og innri málefni, yrði áfram hjá menntmrn. eins og verið hefur. Um það var það samkomulag sem ég og menntmrh. gerðum. Hægt er að fara lið fyrir lið í gegnum þá þætti sem var breytt í frv. um félagsþjónustu sveitarfélaga eins og nefndin skilaði því frá sér og frv. um leikskóla eins og það var áður úr garði gert. Til eru bréfaskipti og minnisblöð milli ráðuneytanna tveggja um þetta mál. Það náðist að lokum að mínu viti fullt samkomulag í þessu máli sem mætti rekja lið fyrir lið ef ástæða væri til. Ég treysti því auðvitað að menntmrh. standi við það samkomulag. Hann sagði í ræðustól áðan að hann væri ósáttur við að ákvæði um leikskóla væri í frv. um félagsþjónustu sveitarfélaga. En það er nú einu sinni svo að menn þurfa stundum að ná málamiðlunum og niðurstöðum í málum, það þekkja allir stjórnmálamenn, og ég tel að við höfum náð málamiðlun og samkomulagi í þessu máli. Það breytir því kannski ekki út af fyrir sig að menntmrh. getur verið ósáttur við það að ákvæði um leikskólann séu inni í frv. um félagsþjónustu sveitarfélaga. En ég treysti því auðvitað að menntmrh. standi við það samkomulag sem gert var á milli okkar ráðherranna og ráðuneytanna sl. vor í þessu máli.
    Reyndar er það svo að ég hef gengið lengra en það samkomulag kvað raunverulegra á um og þá taldi ég mig hafa verið að ná samkomulagi við hv. þm. Guðrúnu Helgadóttur, sem gagnrýnt hefur nokkuð þetta frv. um félagsþjónustu sveitarfélaga, bæði ýmis almenn ákvæði frv. og kannski ekki síst kaflann um leikskólann. Þar var breytt í samráði við hv. þm. hugtakanotkun sem er í frv., þar stóð áður dagvistir þar sem fjallað var um leikskólamálefni. Þeirri hugtakanotkun var breytt þar sem kveður nú á um leikskóla að því er varðar alla þætti þess. Af þessu sést að ég hef lagt mig mjög fram um það að ná samkomulagi í þessu máli.
    Ég hef út af fyrir sig ekki meira um þetta að segja og treysti því auðvitað að samkomulag það sem menntmrh. og ég höfum gert í þessu máli standi.
    Hér voru rifjaðar upp ýmsar umsagnir sem fram hafa komið um þetta mál og menntmrh. taldi að það væru ýmsir aðilar sem væru á móti því að kaflinn um leikskóla væri inni í frv. um félagsþjónustu sveitarfélaga. Ég hef stundum velt því fyrir mér hvort þeir aðilar sem setja fram slík mótmæli og vilja að kaflinn fari alfarið út úr þessu frv., átti sig raunverulega á því um hvað málið snýst og hvort. Og þó að þessi frv. yrðu að lögum hvort um yrði að ræða nokkra breytingu frá því sem verið hefur. Fagleg yfirstjórn og innri málefni hafa verið hjá menntmrn. og þar er ekki gerð nein breyting á.
    Ég gæti út af fyrir sig rakið hér á fjórða tug umsagna, lið fyrir lið, sem kveða á um stuðning ýmissa aðila í þjóðfélaginu, félagasamtaka, stéttarfélaga og fleiri aðila, við frv. um félagsþjónustu sveitarfélaga, bæði almenn ákvæði frv. og kaflann um leikskóla. En ég skal ekki eyða tíma þingsins í það.
    Ég sé ekki ástæðu til þess, virðulegi forseti, að hafa fleiri orð um þetta mál en vænti þess að frv., sem lengi hefur verið í undirbúningi, verði að lögum á þessu þingi. Ég tel raunar mjög brýnt að svo verði og að við búum við nútímalega löggjöf á þessu sviði en þurfum ekki áfram að styðjast við úrelta framfærslulöggjöf sem við höfum búið við allt frá 1947 í þessu efni.