Félagsþjónusta sveitarfélaga
Föstudaginn 15. febrúar 1991


     Félagsmálaráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir) :
    Örstutt, virðulegi forseti. Það kemur mér nokkuð á óvart ef menntmrh. lýsir því yfir að ekkert samkomulag sé um frv. því ég taldi að svo væri eftir að við höfðum gengið í gegnum þetta mál sl. vor. Vil ég bara í örstuttu máli rifja upp að um þetta mál gengu minnisblöð milli ráðuneytanna þar sem lið fyrir lið var farið í gegnum þennan ágreining og liggur það alveg fyrir, eins og ég hef sagt, milli ráðuneytanna. Ég á því mjög erfitt með að trúa því ef menntmrh. er að hlaupa frá þessu samkomulagi. Þau blöð sem komu frá menntmrn. eru dags. 9. mars 1990, 16. mars 1990, 3. apríl 1990. Þetta liggur hér skjalfest fyrir og í því síðasta sem kom frá menntmrn. segir: ,,Vonandi er nú búið að ná samkomulagi í þessu máli.`` --- Það varð niðurstaðan sem þannig var lögð fyrir þingið. Þess vegna kemur það mér mjög á óvart ef menntmrh. er að hlaupa frá þessu samkomulagi. Eins og ég sagði áðan geta menn verið ósáttir og viljað hafa hlutina öðruvísi, en engu að síður breytir það ekki því að ég taldi að í stjórnmálum, þegar menn væru búnir að ná málamiðlun og ákveðnu samkomulagi, þá stæði það en menn væru ekki að hlaupa frá hlutunum. Ég kann auðvitað ekki við slík vinnubrögð. Ég vil benda á, eins og ég sagði áðan, að ég hef gengið raunverulega lengra en það samkomulag sem var gert á milli mín og menntmrh. í þessu máli segir til um og menntmrh. skemur, vegna þess að hann hefur við meðferð málsins, eftir að það var lagt fram sl. vor, í nokkru breytt ákvæðum um þær nefndir sem fjalla eiga um málefni leikskóla og var mér ekki kunnugt um þá breytingu. Ég tel þó ekki ástæðu til þess að lýsa yfir ágreiningi við menntmrh. þó hann hafi gert þessa breytingu frá því samkomulagi sem við gerðum, en ég kann því illa ef sú verður niðurstaðan í því samkomulagi sem við menntmrh. náðum í þessu máli, sem var auðvitað undirstrikað með því að frv. voru lögð fram sl. vor, að menntmrh. ætlar að hlaupa frá því samkomulagi.