Kosningar til Alþingis
Föstudaginn 15. febrúar 1991


     Dómsmálaráðherra (Óli Þ. Guðbjartsson) :
    Hæstv. forseti. Ég mæli hér fyrir frv. til laga um viðauka við lög um kosningar til Alþingis sem hér er flutt á þskj. 628.
    Meginefni frv. þessa er að ákveða kjördag við komandi alþingiskosningar laugardaginn 20. apríl nk. Skv. 57. gr. kosningalaganna er kjördagur við almennar kosningar til Alþingis annar laugardagur í maímánuði. Var þeirri skipan komið á með breytingu á kosningalögunum 1987. Samkvæmt því ætti kjördagur nú að vera laugardaginn 11. maí. Ríkisstjórnin hefur talið rétt að kosningar fari fram nokkru fyrr en á hinum lögákveðna kjördagi og telur rétt að kjördagur verði ákveðinn 20. apríl. Er þetta eins og ég hef þegar tekið fram meginefni þessa frv.
    Kjördagur var síðast 25. apríl 1987. Kjörtímabilið rennur því ekki út fyrr en þann hinn sama dag nú í vor. Það verður þó ekki talið standa í vegi fyrir því að kjördagur verði nú nokkrum dögum áður. Reglur um kjördag hafa jafnan verið með þeim hætti að miðað hefur verið við tiltekinn vikudag í mánuði. Nú er miðað við annan laugardag í maí. Áður var miðað við síðasta laugardag og þar áður síðasta sunnudag í júnímánuði. Annan laugardag í maí getur borið upp á 8. -- 14. maí. Árið 1988 hefði kjördag borið upp á 14. maí, en fjórum árum síðar, 1992, yrði kjördagur 9. maí, þ.e. fimm dögum fyrr.
    Árið 1974 fóru alþingiskosningar fram sunnudaginn 30. júní samkvæmt þingrofi. Fjórum árum síðar, 1978, var kosið á reglulegum kjördegi, sunnudaginn 25. júní, þ.e. fimm dögum áður en kjörtímabilinu var lokið. Þótt kjörtímabilið verði ekki runnið út á kjördegi er alveg ljóst að Alþingi verður þá ekki starfandi og nýtt þing mun ekki koma saman áður en fyrra kjörtímabilinu verður lokið.
    Á þeim árstíma sem lagt er til að kjördagur verði kunna samgöngur að bregðast og tíðarfar að spillast. Má í því sambandi minnast á áhlaupsveður sem gerði um land allt helgina fyrir kosningar þær sem fram fóru 23. apríl 1983. Kosningalög gera að vísu ráð fyrir því í 120. gr. að einstakar kjörstjórnir geti frestað kosningum vegna veðurs. Með frv. þessu er lagt til að dómsmrh. verði veitt heimild til þess að ákveða að kjördagar verði tveir, þ.e. einnig sunnudaginn 21. apríl í kjördeildum sem að öllu leyti eru utan takmarka kaupstaðar eða kauptúns. Er við það miðað að ákvörðun um þetta efni verði tekin m.a. á grundvelli veðurspár og birt í Ríkisútvarpinu eigi síðar en fimmtudaginn 18. apríl. Komi til þess að ráðherra ákveði kjördag einnig á sunnudaginn eru settar reglur um það hvernig ákveða megi að kjördagur verði einungis einn. Eru þær með sama hætti og að jafnaði hefur verið fylgt þegar kjördagar hafa verið fleiri en einn. Er þá gert ráð fyrir því að ef kjörstjórn er því öll sammála og allir umboðsmenn lista sem mættir eru megi í lok hins fyrra kjördags ákveða að kjördagur verði aðeins einn. Einnig geti kjörstjórn ákveðið þetta einróma ef kjörsókn hefur náð 80%.
    Loks er í frv. lagt til að utankjörfundaratkvæðagreiðsla hefjist ekki fyrr en 23. mars, þ.e. fjórum vikum fyrir kjördag og þegar framboð eru öll komin fram, en ekki allt að átta vikum fyrir kjördag svo sem ákveðið er í 64. gr. kosningalaganna. Gagnrýni hefur komið fram um að óeðlilegt sé að atkvæðagreiðsla geti farið fram áður en framboð eru öll komin fram og er því lagt til að þessu verði breytt.
    Hæstv. forseti. Frv. þetta er flutt til að ákveða kjördag 20. apríl nk. og um sérstakt fyrirkomulag við þær kosningar. Að öðru leyti mun við kosningar þessar farið samkvæmt kosningalögunum frá 1987 með þeirri breytingu sem samþykkt var 1989 og þeim breytingum sem kunna að verða gerðar á kosningalögum með frv. því sem ég fylgdi úr hlaði nú áðan.
    Rétt er að taka fram að ef samþykkt verður nú á þinginu frv. til laga um breytingu á stjórnarskránni verður þing rofið og ákveður forseti þá kjördag að tillögu forsrh. Fari svo verður að telja að tilefni frv. þessa sé niður fallið.
    Hæstv. forseti. Ég hef lokið máli mínu og legg til að frv. þessu verði vísað til 2. umr. að þessari umræðu lokinni og hv. allshn.