Kosningar til Alþingis
Föstudaginn 15. febrúar 1991


     Jón Kristjánsson :
    Herra forseti. Ég tek undir orð síðasta ræðumanns, hv. 3. þm. Norðurl. e. og hæstv. forseta þessarar deildar, að ég átti von á því að um þetta frv. yrðu meiri umræður og fleiri yrðu viðstaddir. En ég vil taka fram vegna þeirrar athugasemdar sem hann hafði fram að færa, af því að útlit er á því og raunar víst að þetta frv. kemur til meðferðar allshn. Nd., að ég mun að sjálfsögðu sem formaður nefndarinnar gera ráðstafanir til þess að það verði skoðað sérstaklega hvort frv. brýtur í bága við stjórnarskrána. Ég tek undir það að ef svo reynist vera gengur það að sjálfsögðu ekki. Ef menn ætla að halda sig við kjördaginn verður það að gerast með þingrofi. Auðvitað er sú leið opin.
    En ég ætla ekki að fara að taka upp umræður hér um kjördaginn sjálfan. Ég er sammála hv. þm., þetta er að mínum dómi of snemma að vori sem kosið er af því að líkur eru á því að þetta verði þá til frambúðar nema það verði regla að rjúfa þing og kosningar verði á breytilegum tíma þess vegna. Það er staðreynd að veðurfar getur verið afar erfitt á þessum tíma. Við höfum reynslu fyrir því, t.d. í kosningunum 1983, að ferðalög og framkvæmd þeirra var mjög erfið á vissum hlutum landsins. Það munaði reyndar mjög litlu á Norðausturlandi, í mínu kjördæmi, að þar væri hægt að framkvæma þar kosningar á þessum tiltekna kosningadegi sem var þó 26. apríl, ef ég man rétt. Ég hefði frekar viljað kjósa í maí og halda mig við þennan kjördag 11. maí.
    Ekki þarf að rekja forsögu þess af hverju þessar umræður eru komnar upp um kjördaginn. Það er kominn fram meiningarmunur um það hvort það sé við hæfi að þingmenn séu umboðslausir í hálfan mánuð og þess vegna er þetta upp komið. Það er ástæða þess að frv. er flutt.
    Erindi mitt hingað upp var eingöngu, frekar en vera að vekja upp umræður um kjördaginn, að lýsa því yfir að þegar þetta mál kemur til nefndar mun ég að sjálfsögðu byrja á því að láta kanna að færustu manna yfirsýn hvort þetta frv. brýtur í bága við stjórnarskrána.