Stjórnarskipunarlög
Mánudaginn 18. febrúar 1991


     Guðrún J. Halldórsdóttir :
    Virðulegi forseti. Það vill svo til að að störfum er stjórnarskrárnefnd sem hefði sennilega verið rétt að vísa þessu máli til í upphafi. Það hefur ekki verið gert og var vísað til allshn. í Nd. Því fyndist mér a.m.k. ekki óeðlilegt að málið, verði því vísað til allshn. í Ed., yrði borið undir umsögn þessarar nefndar, sem ég fyrst nefndi, og fjallar um stjórnarskrá Íslands. Það hefði sem sagt í upphafi verið eðlilegt að bera þetta mál allt undir þá nefnd, en það var ekki gert og ég álít að kannski hafi ekki verið réttilega staðið að málinu í upphafi. Jafnframt vil ég benda á það að ef þessi lög verða samþykkt án þess að ný þingskapalög komi fram, þá stefnum við í óhæfu og á rangar leiðir. Þar af leiðandi álít ég að það þurfi mjög nauðsynlega að koma fram ný lög um þingsköp ef þessi lög eiga að geta orðið að veruleika. En í ljósi þess að svo virðist að með þessi mál hafi frá upphafi ekki verið alveg rétt farið, þá greiði ég ekki atkvæði.