Vísinda- og tæknistefna
Mánudaginn 18. febrúar 1991


     Menntamálaráðherra (Svavar Gestsson) :
    Virðulegi forseti. Ég óskaði eftir því við hæstv. forseta Sþ. að fá tækifæri til þess að gera grein fyrir samþykkt ríkisstjórnarinnar um vísinda- og tæknistefnu til aldamóta sem byggð var m.a. á samþykkt ríkisstjórnarinnar frá 15. ágúst 1989. Málið er lagt fyrir í skýrsluformi og hefur skýrslunni verið dreift til hv. þm. og þeir hafa fengið kost á því núna síðustu dagana að kynna sér efni hennar. Ég mun í ræðu minni fara yfir tillöguna í heild. Ég mun síðan tæpa á nokkrum aðalatriðum í skýrslunni, víkja svo að því talnaefni sem fylgir skýrslunni og loks rekja hvernig framlög hafa þróast til rannsókna- og vísindastarfsemi að undanförnu og gera að lokum grein fyrir því sem gert verður í framhaldi af þeirri áætlun sem hér er verið að kynna.
    Eins og ég sagði áðan, virðulegi forseti, var það á fundi ríkisstjórnarinnar 15. ágúst 1989 að samþykkt var tillaga frá menntmrh. á þessa leið: ,,Ríkisstjórnin samþykkir að fela menntmrh. að hefja undirbúning að tillögum um vísinda- og tæknistefnu á Íslandi. Verði samstarfsnefnd Vísindaráðs og Rannsóknaráðs falið að gera tillögur um þessa stefnumótun.``
    Í framhaldi af þessari samþykkt fól menntmrn. samstarfsnefnd Vísindaráðs og Rannsóknaráðs ríkisins að hlutast til um undirbúning tillagna um vísinda- og tæknistefnu. Samstarfsnefndin lagði með bréfi dags. 20. sept. 1990 fram tillögur sínar í formi draga að yfirlýsingu ríkisstjórnarinnar um vísinda- og tæknistefnu ásamt greinargerð. Um undirbúning tillagnanna höfðu á vinnslustigi verið höfð samráð við stjórn Vísindaráðs og Rannsóknaráðs ríkisins. Eftir nánari umfjöllum í deildum Vísindaráðs, þar sem málið var tekið fyrir, óskaði samstarfsnefndin eftir að gera fáeinar breytingar, aðallega á greinargerðinni, og var álitsgerð nefndarinnar þannig breytt lögð fram 2. nóv. 1990.
    Álitsgerð samstarfsnefndarinnar var lögð fyrir ríkisstjórnina á fundi hennar 6. nóvember 1990. Ríkisstjórnin féllst á tillöguna að stefnuyfirlýsingu í meginatriðum og var ákveðið að kynna yfirlýsinguna og greinargerðina er henni fylgir á ársfundi Rannsóknaráðs ríkisins og Vísindaráðs, en sá fundur var haldinn 30. nóvember 1990, og síðan var ákveðið að undirbúa skýrslu til Alþingis um þessa stefnumörkun.
    Það þskj. sem hv. þm. hafa á borðum sínum hefur annars vegar inni að halda yfirlýsingu ríkisstjórnarinnar um vísinda- og tæknistefnu og hins vegar greinargerð um þá stefnu. Yfirlýsingin er stutt og hún er á þessa leið, með leyfi forseta:
    ,,Ríkisstjórnin markar svofellda stefnu um hlutverk vísinda og tækni í íslensku þjóðlífi og meðferð vísinda - og tæknimálefna á vettvangi ríkisstjórnarinnar:
    Framfarir í vísindum og tækni eru nú örari en nokkru sinni og stöðugt bætist við þekking á innri og ytri gerð efnisheims og lífheims, svo og þekking á manninum sjálfum, menningu hans og þjóðfélagi.
     Vísindi og tækni eru meðal helstu hornsteina nútíma þjóðfélags og ný þekking er einn aðalaflvaki framfara. Vísindaleg og tæknileg þekking er forsenda

farsælla ákvarðana og skilnings á æ fleiri sviðum þjóðlífsins, í hagrænum, félagslegum og menningarlegum efnum. Iðkun vísinda á sem flestum fræðasviðum er skilyrði þess að sjálfstætt menningarsamfélag fái staðist og eflst á Íslandi.
     Stór hluti hverrar upprennandi kynslóðar á Íslandi nýtur nú háskólamenntunar og þeim Íslendingum fjölgar ört sem fengið hafa vísindalega sérþjálfun á ýmsum sviðum. Í þessu felst auðlind sem þarf að virkja í þágu þjóðarhags og menningar. Tryggja verður að þetta fólk fái verkefni við hæfi og þurfi ekki að hverfa til annarra landa.
     Vísindi og tækni dafna þá best og nýtast til framfara að unnið sé að þeim í nánum tengslum við líf og starf þjóðarinnar. Einnig þurfa þau bæði frelsi og aðhlynningu til að vera frjó og skapandi, en jafnframt aðhald og gagnrýni. Þannig geta þau bæði leyst vandamál líðandi stundar og veitt leiðsögn til framtíðar.
     Íslendingar hafa löngum varið hlutfallslega minna fé og mannafla til vísindalegra og tæknilegra rannsókna en aðrar þjóðir, sem búa við svipuð lífskjör. Flest bendir til að nú sé brýnt að efla vísinda - og tæknirannsóknir og auka þróunarstarf til að tryggja áfram góð lífskjör hér á landi í vaxandi samkeppni milli þjóða og heimshluta á sviði viðskipta, tækni og menningar.
    Ríkisstjórnin vill stuðla að því að þjóðfélagsþróun á Íslandi byggist á vísindalegri þekkingu og tækni í stað of einhliða sóknar í auðlindir lands og sjávar. Því vill hún stefna að því að auka veg vísinda og tækni í þjóðarbúskapnum með því að stærri hlut þjóðartekna verði varið til þeirra en áður. Ríkisstjórnin vill efna til samvinnu við atvinnulífið í landinu um að auka raungildi fjárframlaga til rannsóknastarfsemi um 10% á ári næsta áratuginn. Þannig er stefnt að því að hlutfall þjóðartekna, sem varið er til rannsóknastarfsemi hér á landi, nálgist það sem nú er annars staðar á Norðurlöndum. Þetta verði gert annars vegar með því að auka opinber framlög til verkefnabundinna rannsókna á sviði grundvallarvísinda og hagnýtra rannsókna, og hins vegar með því að bæta almenn skilyrði fyrirtækja og einstaklinga til að stunda rannsóknir og nýsköpun.
     Með auknum hlut vísinda - og tæknirannsókna í þjóðarbúskapnum verði leitað leiða til að tengja þessa starfsemi enn betur við breytilegar þarfir þjóðlífsins. Starfsemi á einstökum sviðum vísinda taki mið af aðsteðjandi vandamálum sem og framtíðarhorfum á þeim þjóðlífssviðum sem best geta nýtt sér þá vísindalegu þekkingu sem leitað er að. Jafnframt verði ávallt svigrúm til óheftrar leitar að þekkingu þar sem aðeins er spurt um fræðilegt gildi verkefnis og hæfni vísindamanns.
    Opinberar vísinda - og tæknistofnanir heyra undir mismunandi ráðuneyti og hlutverk þeirra endurspegla verkaskiptingu þjóðfélagsins. Vísindaleg þekking verður hins vegar til og nýtist þvert á þá skiptingu. Lögð verður áhersla á samstarf milli stofnana, einstaklinga og fyrirtækja til að nýta sem best þekkingu sem til er

í landinu og dreifa ekki kröftunum um of. Einstökum ráðuneytum og stofnunum þeirra er ætlað að taka mið af þeirri stefnu.
    Unnið verði markvisst að því að auka skilning þjóðarinnar á mikilvægi vísinda og tækni. Efld verði kennsla á þeim sviðum í grunnskólum og framhaldsskólum og tengsl skólanna við vísindastarf í landinu aukin. Menntun til vísindastarfa verði efld m.a. með skipulegri uppbyggingu framhaldsnáms við Háskóla Íslands og aðrar æðri menntastofnanir landsins. Endurskoðuð verði tilhögun opinberrar fjárhagsaðstoðar við námsmenn á síðari stigum framhaldsnáms og við unga vísindamenn að framhaldsnámi loknu.
    Búið verði í haginn fyrir virka þátttöku Íslendinga í fjölþjóðlegu vísinda - og tæknisamstarfi, reista á skipulegu mati á forgangsverkefnum.
     Vísindaráði og Rannsóknaráði ríkisins er falið:
    að gera nýja úttekt á stöðu rannsóknamála í landinu og að fylgjast af árvekni með þörfinni fyrir rannsóknir og vísindalega eða tæknilega sérþjálfun Íslendinga á nýjum sviðum og miðlun niðurstaðna úr innlendum og erlendum rannsóknum,
    að gera tillögur um ráðstöfun á auknum framlögum til vísindalegra og tæknilegra rannsókna, m.a. með langtímaáætlun fyrir einstök svið, svo og árleg framlög, þar á meðal um forgangsröðun viðfangsefna,
    að gera tillögur um leiðir til að auka hlut atvinnulífsins og annarra aðila utan ríkiskerfisins í fjármögnun og framkvæmd rannsókna og hvetja til nýsköpunar í atvinnulífi landsmanna,
    að fylgjast með nýtingu fjármagns og starfskrafta til rannsókna og gera tillögur um endurbætur á aðstöðu, skipulagi eða framkvæmd rannsóknastarfa eftir þörfum.
     Í því skyni að samræma framkvæmd vísinda - og tæknistefnu við aðra þætti þjóðmála er gert ráð fyrir að forsætisráðherra efni tvisvar á ári til fundar fulltrúa Rannsóknaráðs ríkisins og Vísindaráðs með ráðherrum menntamála, iðnaðar, sjávarútvegs, landbúnaðar, heilbrigðismála, umhverfismála, samgöngumála og fjármála. Gert verði ráð fyrir því að fulltrúum allra þingflokka verði boðið að sitja þessa fundi. Á öðrum fundinum skulu fulltrúar ráðanna gera grein fyrir framvindu og meginviðhorfum í vísinda - og tæknirannsóknum og á hinum fundinum leggja fram tillögur um fjárveitingar til rannsókna á næstu árum. Fulltrúum atvinnulífs, Háskóla Íslands og annarra vísindastofnana skal boðið á þessa fundi eftir því sem málefni segja til um. Dagskrá og tilhögun hvers fundar skal undirbúin af samstarfsnefnd Vísindaráðs og Rannsóknaráðs ríkisins í samvinnu við forsrn. og menntmrn.``
    Þetta var, virðulegi forseti, í heild yfirlýsing ríkisstjórnarinnar um vísinda - og tæknistefnu.
    Eins og fram kemur felur stefnan það í sér að teknar eru þegar ýmsar ákvarðanir sem lúta að þessum málum og ég tel ástæðu til að víkja nokkrum orðum að þeim. Ég get auðvitað hugsanlega farið yfir skýrsluna í einstökum atriðum en ætla ekki að gera það, heldur aðeins að víkja að því hvernig hefur þegar verið staðið að framkvæmd þeirrar vísinda - og tæknistefnu sem þarna er lagður grunnur að. Um leið og þessi samþykkt var gerð í október 1990 ákvað ríkisstjórnin að á árinu 1991 yrði um að ræða verulega hækkun á framlögum til Vísindasjóðs og Rannsóknasjóðs og ýmissa rannsóknastofnana.
    Þegar litið er á framlög til vísinda og rannsókna í fjárlögum ársins 1991 kemur fram að framlög til tilraunastöðvarinnar á Keldum hækka úr 55 millj. í 71 millj. kr. eða um 30% að raungildi milli áranna 1990 og 1991.
    Í öðru lagi kemur fram að framlag til Rannsóknasjóðs er hækkað mjög verulega, úr 88,4 millj. kr. í 110 millj. kr. eða um 24,4% að raungildi.
    Í þriðja lagi kemur fram að hækkun verður veruleg á framlögum til Vísindasjóðs, úr 20,4 millj. kr. í 30,6 millj. kr. eða um 50,2% að raungildi milli ára. Ef skoðuð eru framlög til vísinda og rannsókna alls kemur í ljós að um er að ræða hækkun úr 356 millj. kr. í 442 millj. kr. milli áranna 1990 og 1991 eða um 24%. Ef við skoðum hins vegar lengri tíma og berum það saman hver eru framlögin til vísinda og rannsókna á Íslandi á árinu 1991 t.d. við árin 1984 -- 1986 kemur í ljós að um er að ræða hækkun að raunvirði um 54%. Og ef við skoðum enn þá lengri tíma, tökum t.d. árið 1984, þá voru framlög til vísinda og rannsókna sléttar 200 millj. kr. en eru núna 442,5 millj. kr. Í fjárlögum ársins 1991 er stigið markvert skref í þá átt að ná því marki sem sett er í þessum plöggum, að tvöfalda framlög til vísinda og rannsókna á Íslandi á næstu tíu árum. Á þessu ári er í raun og veru um að ræða, eins og ég sagði, 24% hækkun á framlögum til vísinda og rannsókna frá síðasta ári, árinu 1990.
    Nú er það hins vegar svo að umræða um þessi mál þyrfti að verða mikið meiri og mikið ítarlegri vegna þess að ég er þeirrar skoðunar að rannsóknir og vísindi, bæði grunnrannsóknir og hagnýtar rannsóknir, séu mikilvægari undirstaða framfara í þessu þjóðfélagi en menn gera sér yfirleitt grein fyrir. Og það alvarlega er kannski það að manni hefur iðulega fundist að ákvarðanir um mjög mikilvægt svið, eins og t.d. fiskeldi, hafi verið teknar án þess að nægilega miklar rannsóknir hafi farið fram. Og þó ríkisstjórn og Alþingi hafi á hverjum tíma verið tilbúin til að tryggja fjármuni að einhverju leyti til stofnkostnaðar með lánum og rekstrarkostnaðar með lánum, þá hefur staðið á hinu að menn legðu fram fjármuni til rannsókna. Niðurstaðan hefur orðið hörmuleg á sumum sviðum að þessu leyti.
    Það er hins vegar augljóst mál að við Íslendingar verðum að breyta um hætti í þessu efni. Við höfum á þessari öld eins og áður fyrst og fremst lifað á grunnframleiðslu, þ.e. landbúnaði og sjávarútvegi, og það er greinilegt að ef við ætlum okkur að bæta lífskjörin á komandi árum, þá er sú fjárfesting sem færi í menntun, rannsóknir og vísindi í raun og veru sú besta og þýðingarmesta til þess að ná upp sæmilegum lífskjörum í landinu.
    Því miður virðist mér að málið sé þannig að í

rauninni sé ákaflega erfitt að ná upp þessum skilningi. Ég ákvað að fara fram á það að þessi skýrsla yrði lögð hér fyrir á hv. Alþingi til þess að þingmenn gætu rætt um það sem felst í henni, til þess að menn gætu áttað sig á því hvernig þessi mál eru. Og ég held að það sé í raun og veru mjög auðvelt að átta sig á málunum út frá forsendum þessarar skýrslu eins og hún liggur fyrir. Hér er um að ræða mjög ítarlegt talnaefni og margvíslegar upplýsingar um rannsóknir, vísindi og þróun eins og þau mál hafa þróast á Íslandi á undanförnum árum.
    Ég vil í því sambandi víkja aðeins að greinargerðinni og benda á af hverju við teljum að það sé þörf fyrir stefnumörkun á sviði vísinda - og tæknimála á Íslandi. Til þess eru í meginatriðum fjórar ástæður.
    Fyrsta ástæðan er sú að vísindi, tækni og rannsóknir eru meðal hornsteina vestrænnar menningar og ef við ætlum okkur að taka þátt í samkeppninni um lífskjör við þessar þjóðir, þá verðum við að halda uppi merkjum vísinda og rannsókna með miklu myndarlegri hætti en við höfum gert. Góð almenn þekking, byggð á vísindum og tækni samtímans, er forsenda þess að unnt sé að starfrækja öflugt, sjálfstætt menningarsamfélag við núverandi skilyrði og sá grundvöllur, sem hagrænar og félagslegar framfarir byggjast á.
    Í öðru lagi eru ástæðan sú að allar iðnvæddar þjóðir nota nú orðið vísinda - og tækniþekkingu meðvitað til að skapa sér betri stöðu í samkeppni um markaði í viðleitni sinni til að tryggja þegnum sínum batnandi lífskjör. Öflugar eigin rannsóknir eru forsenda þess að þjóðir geti tekið við nýrri þekkingu annars staðar frá og aðhæft hana sínum eigin raunveruleika og viðfangsefnum.
    Í þriðja lagi er nauðsynlegt að halda uppi öflugri vísinda- og rannsóknastarfsemi hér vegna þess að það þarf að gæta að afleiðingum þeirra breytinga sem ný tækni hrindir af stað fyrir umhverfi og félagslega aðstöðu fólks og beina afli þeirra á farsælar brautir. Skilningur á náttúrunni og þeim breytingum sem í henni verða svo og skilningur á manninum sjálfum og þjóðfélagsþróuninni, er viðfangsefni vísinda í víðustu merkingu þess orðs. Vísindaleg og gagnrýnin viðhorf til tækninnar auka líkur á að henni sé beitt farsællega til að efla þjóðarhag. Án slíkrar gagnrýni gæti altæk tæknileg hugsun leitt til draumhyggju um tæknilega lausn allra vandamála. Stöðug gagnrýni á heimsmynd mannsins er eitt af mikilvægustu hlutverkum vísinda.
    Fjórða meginástæðan er sú að öflun vísinda - og tækniþekkingar er dýr og á sér langan aðdraganda í heimi þar sem tækniframfarir eru jafnframt örar. Engin þjóð er sjálfri sér nóg lengur í þeim efnum. Miklu varðar því hvernig varið er takmörkuðu fé og mannafla þannig að sem mestur árangur náist. Kostnaður við þessa starfsemi fer jafnframt vaxandi eftir því sem tækni fleygir fram. Af því leiðir að taka þarf mikilvægar ákvarðanir um markmið, skipulag, fjármögnun, verkefnaval og um samræmingu starfa og samvinnu heima fyrir og erlendis.
    Hér voru rakin nokkur meginatriði sem kannski liggja í augum uppi fyrir nauðsyn þess að hér sé haldið uppi öflugri vísinda - og tæknistarfsemi. En það má auðvitað fjöldamargt fleira nefna. Auðvitað er það þannig að við í sjálfu sér eigum minni möguleika að þessu leytinu til en aðrar og fjölmennari þjóðir, þó ekki sé nema vegna þess að þjóðin er ekki ýkja fjölmenn. En hér eigum við hins vegar líka möguleika sem eru einstakir og okkur ber að hagnýta, bæði í grunnrannsóknum og hagnýtum rannsóknum. Við teljum að á sviði hagnýtra rannsókna þurfi að raða verkefnunum upp í forgangsröð en slík forgangsröðun má þó ekki ganga svo langt að ekki verði nauðsynlegt svigrúm fyrir frumkvæði og frumleika þeirra sem að rannsóknunum starfa. Þetta á reyndar við um alla vísindastarfsemi og er meginatriðið í grunnrannsóknunum sjálfum. Í þeim er mjög mikilvægt að virða frjálsræði vísindamannsins til að velja þau verkefni til rannsókna sem hann telur áhugaverðust og líklegust til að skila markverðum árangri. Gæði vísindastarfseminnar sjálfrar á alþjóðlegan mælikvarða hljóta ætíð að vera eitt af því sem taka verður mest tillit til varðandi opinberan stuðning og starfsaðstöðu.
    Engu að síður er varla hægt að ganga fram hjá því að sum rannsóknasvið liggja ýmist betur fyrir Íslendingum en önnur vegna staðsetningar þeirra í heiminum eða varða menningu þeirra og efnahag meira en önnur. Augljós dæmi um þetta eru rannsóknir á íslenskri jarðfræði sem bæði hafa margvíslegt gildi, t.d. í orkumálum og mannvirkjagerð, en gefa Íslendingum um leið tækifæri til mikilvægs framlags til alþjóðlegrar vísindastarfsemi á þessu sviði. Svipuðu máli gegnir um rannsóknir á hafinu og lífríki þess þar sem íslenskir vísindamenn eiga mikið samstarf við aðrar þjóðir. Sama á einnig við um íslenskt samfélag og hagkerfi sem er mjög sérstakt og á sér ekki nákvæmar hliðstæður annars staðar og hins vegar rannsóknir á íslenskri miðaldamenningu og bókmenntum til forna ásamt rannsóknum málvísinda á íslenskri tungu.
    Þetta eru dæmi, virðulegi forseti, um rannsóknir á sviði mannlegra fræða og félagsvísinda sem Íslendingum ber sérstök skylda til að stunda, bæði vegna sjálfra sín og vegna þess skerfs sem þeir vilja leggja til heimsmenningarinnar. En auk þess að beina sjónum að rannsóknasviðum sem eru áhugaverð fyrir Íslendinga vegna stöðu þeirra í heiminum getur einnig verið mikilvægt að tryggja að ekki verði út undan hér á landi rannsóknasvið sem skipta miklu máli til að Íslendingar geti fylgst nægilega vel með heildarþróun vísinda, bæði vegna almenns menningargildis og vegna hugsanlegra tengsla við rannsóknir í öðrum greinum.
    Þau viðhorf sem ég hef talað fyrir í þessari kynningu, virðulegi forseti, eiga sér í raun og veru mjög langa sögu á Íslandi. Í því sambandi má kannski minna á, að sjálfstæðisbarátta Íslendinga var háð á sviði fræða og þjóðmenningar. Jón Sigurðsson tók sagnfræðina og menningarsöguna í þjónustu sjálfstæðisbaráttunnar og allt frá því á 18. öld börðust þjóðarleiðtogar okkar og andans menn, skáld, náttúrufræðingar og embættismenn jafnt sem bændur við að vekja þjóðina til dáða með samþættingu verkmenningar og

þjóðmenningar. Þannig eru og vísindi í öllum greinum sínum enn sem fyrr frumskilyrði þess að íslenska þjóðin geti haslað sér völl meðal þjóða heims, sjálfri sér til farsældar.
    Ég vil þessu næst, virðulegi forseti, víkja aðeins að því talnaefni og þeim upplýsingum sem fram koma í þessum greinargerðum. Ég ætla í sjálfu sér ekki að fara þar út í einstök atriði, minni á t.d. kaflann um fjármagn til rannsókna á bls. 13 í þskj. þar sem það kemur fram að hlutfall Íslendinga til rannsókna og þróunar hefur í raun og veru staðið í stað á liðnum áratugum. Það var sá sári og alvarlegi veruleiki sem varð m.a. til þess að við ákváðum að taka sérstaklega á þessu máli. Ástæðan er sem sagt sú að á síðustu tíu árum hefur hlutfallslega sáralítil aukning orðið, bæði á ráðstöfunarfé til rannsókna og aukning á rannsóknafólki til rannsókna hefur einnig verið mjög lítil. Ef litið er á hvaðan fé til rannsókna er komið, hverjir borga og hverjir framkvæma rannsóknir, sést að hlutur opinberra aðila er mun stærri hér á landi en hlutur atvinnufyrirtækja. Þar skera Íslendingar sig algerlega úr eins og sést á myndum 5 og 6 í þessu þskj. þar sem kemur fram hversu mikið er borgað af rannsóknarfénu af fyrirtækjum og hversu mikið af opinberum aðilum. Þegar við berum þessi hlutföll saman við aðrar þjóðir kemur í ljós að hlutur fyrirtækja á Íslandi er mikið minni, mikið lakari en í öðrum löndum. Það er út af fyrir sig mjög alvarlegt umhugsunarefni.
    Hlutur fyrirtækja hefur þó að undanförnu farið stækkandi, sérstaklega ef við miðum við hlutfall af mannafla. Þannig fjölgaði starfsliði við rannsóknir hjá fyrirtækjum úr um það bil 100 ársverkum árið 1985, en þau voru aðeins 100, í öllum fyrirtækjum á Íslandi voru 100 ársverk í rannsóknum árið 1985, en þessi tala var orðin 147 árið 1987. Ég tel að það sé ekki nokkur vafi á því að stofnun Rannsóknasjóðsins hafi ráðið hér mjög miklu um.
    Ef við lítum á skiptingu þessa fjármagns eftir viðfangsefnum sést að stærstur hlutur fjármagnsins fer til rannsókna í þágu frumframleiðslugreinanna, landbúnaðar og fiskveiða, ásamt orkuframleiðslu en mun minna til úrvinnslugreinanna, iðnaðar, fiskvinnslu og byggingariðnaðar. Til vísindalegra grunnrannsókna fer um það bil 1 / 4 af heildarfjármagninu. Það er svipað heildarhlutfall til grunnrannsókna og gerist í öðrum aðildarlöndum OECD.
    Í því skyni að fjalla um það með hvaða hætti mætti auka fjármagn til rannsókna og vísinda hér á landi hafa menn bent á mjög margt. Auðvitað má segja að það sé einfaldast, en þó um leið að mörgu leyti pólitískt erfiðast, að ná auknum fjármunum til rannsókna á Íslandi með því að styrkja þær rannsóknar - , þróunar - og vísindastofnanir sem þegar eru til og það hefur verið gert í fjárlögum þessa árs með myndarlegum hætti, eins og hér hefur komið fram. Hins vegar hafa menn líka rætt um ýmsa aðra hluti. Ég held að það skipti langmestu máli að staldra við það hvað fyrirtækin geta lagt til til viðbótar við það sem þau gera þegar.

    Árin 1986 og 1987 flutti ég hér á Alþingi sem stjórnarandstæðingur tillögu og frv. um það að fyrirtæki fái sérstakar skattaívilnanir til þess að stunda þróunarverkefni og markaðsstarfsemi. Sérstaklega eru þetta algeng tæki til að stuðla að nýsköpun í smáfyrirtækjum hjá grannþjóðum okkar. Þetta er í raun og veru mér liggur við að segja í hróplegri mótsögn við það sem gert hefur verið varðandi fyrirtæki á Íslandi, þar sem aldrei er farið að sinna þeim fyrr en þau eru farin á hausinn eða eru að fara á hausinn eða verða gjaldþrota, en það að menn ýti undir rannsóknir, nýjungar, þróunarverkefni og vísindastörf í fyrirtækjum sem eru að leggja af stað og hasla sér völl á nýjum sviðum sem eru auðvitað til fjölda, fjöldamörg, það hefur ekki gerst hér í þessu landi. Þegar lagt er til að fyrirtæki fái skattafrádrátt eða skattaívilnanir af þessum ástæðum mætir það ævinlega verulegri andstöðu hér á Alþingi og tillögur um það efni, m.a. frá mér, hafa verið felldar aftur og aftur á árum áður og mér hefur ekki tekist að sannfæra þingið um það núna eða ríkisstjórnina að þetta væri rétt leið vegna þess að menn bera alltaf fyrir sig það sem heitir ,,skattatæknilegar ástæður`` og ég skil nú aldrei, en það er nú bara af því hvað undirritaður er takmarkaður. En staðreyndin er hins vegar sú að allar aðrar þjóðir hafa gert þetta. Þær hafa veitt fyrirtækjum skattaívilnanir vegna nýjunga í rannsóknum, þróun og vísindastarfsemi sem íslensk yfirvöld hafa því miður ekki verið tilbúin til þess að fallast á.
    Í skjalinu er farið yfir háskólamenntun á Íslandi og minnt á hækkað menntunarstig þjóðarinnar. Eftir að kennsla hóst í mörgum nýjum kennslugreinum við Háskóla Íslands á seinni huta sjöunda áratugarins hefur þeim stórfjölgað sem leita sér sérmenntunar í háskóla, bæði erlendis og hérlendis, og starfsemi Lánasjóðs ísl. námsmanna hefur gerbreytt aðstæðum til langskólanáms frá því sem áður var.
    Gerð hefur verið spá um fjölda Íslendinga við nám á háskólastigi fram yfir aldamót. Jón Torfi Jónasson gerði hana og var hún birt í ritinu ,,Menntun og skólastarf á Íslandi í 25 ár, 1985 -- 2010``. Samkvæmt þessari spá mun þeim stórlega fjölga sem stunda langskólanám. Hlutfall þeirra sem eru í langskólanámi núna er 40%, en því er spáð að það verði 80% árið 2010, 80% eða tvisvar sinnum fleiri verði í langskólanámi af einhverju tagi eftir 20 ár en er í dag.
    Við Háskóla Íslands eru núna skráðir 4700 nemendur og þaðan brautskrást um 570 -- 600 manns á hverju ári. Við aðra innlenda skóla á háskólastigi eru nú 800 -- 900 nemendur og þaðan brautskrást á ári um 200 manns. Erlendis eru um 2100 námsmenn við nám með stuðningi frá Lánasjóði ísl. námsmanna og má reikna með að a.m.k. 20% fleiri séu við nám með styrkjum eða á launum erlendis frá eða á annan hátt án stuðnings frá sjóðnum. Af námsmönnum erlendis er talið að a.m.k. 80% séu við háskólanám. Ætla má að um 20% þeirra ljúki námi árlega og lætur þá nærri að alls ljúki 1100 -- 1200 Íslendingar prófi á háskólastigi á ári, en það samsvarar fjórða hverjum manni í árgöngunum 24 -- 30 ára. Fjórði hver Íslendingur á aldrinum 24 -- 30 ára lýkur með öðrum orðum háskólanámi eins og staðan er í dag. Og þetta hlutfall mun fara hækkandi.
    En þetta er aðeins önnur hlið málsins. Hin sem blasir við er sú að það fólk sem er að ljúka námi og gæti vissulega hjálpað til við að skapa aðstæður til að treysta grundvöll lífskjaranna í landinu betur en gert hefur verið, margt af þessu fólki kemur heim en margt af því kemur ekki heim. Það er kannski önnur meginástæðan fyrir þessari stefnumótun í vísinda - og tæknimálum á Íslandi sem við erum hér að beita okkur fyrir að sköpuð verði aðstaða til þess að við getum nýtt okkur þekkingu, færni og hæfileika þessa fólks þannig að það þurfi ekki að hverfa héðan úr landinu eða búa langdvölum erlendis þar sem það hefur verið við nám. Það er með öðrum orðum ýmislegt nú sem bendir til þess að fólk með mikla sérmenntun setjist í vaxandi mæli að erlendis vegna þess að það fær ekki störf við sitt hæfi við núverandi aðstæður. Ekki hefur verið gerð sérstök könnun á þessu frá árinu 1978. Þá var talið að hér væri í raun og veru ekki um sérstakt vandamál að ræða. Það var gerð á þessu sérstök könnun og niðurstaða hennar varð sú að þá vildu flestir koma heim eða vera heima eða fyndu sér öllu heldur störf við sitt hæfi hér heima, hvort sem þeir höfðu lokið námi við erlendan eða innlendan háskóla. Nú vitum við hins vegar, bara af því sem við þekkjum til sjálf, að þetta er vaxandi vandamál. Þess vegna höfum við ákveðið að láta fara fram á vegum ráðuneytisins sérstaka könnun á því hvað er mikið um það að fólk komi, hvað er mikið um það að fólk dveljist annars staðar og hugsi sér að vera annars staðar af því að það hefur ekki trú á því að það fái tækifæri til að starfa hér á Íslandi.
    Í greinargerðinni er farið yfir þessi mál nokkuð ítarlega, bæði um aukna hlutdeild vísinda og rannsókna í þjóðarbúskapnum samkvæmt þessari stefnu en þessi hlutdeild er raunar þegar aukin á árinu 1991. Það er farið yfir samstarf við atvinnulífið, um langtímaáætlanir, gagnaöflun, húsnæði og tækjakost, bókakost, hlutverk sjóðanna og fleira. Það er lögð áhersla á samstarf greina atvinnulífsins og hlutverk ráðuneytanna í þeim efnum. Síðan er fjallað nokkuð ítarlega um vísindalega menntun og menntun rannsóknarmanna sem ég ætla að leyfa mér að fara nokkrum orðum um.
    Staðreyndin er sú að við erum með mjög gott kerfi til þess að tryggja það að fólk geti stundað háskólanám, langskólanám af ýmsu tagi, eitt það besta sem gerist á byggðu bóli satt að segja. Hins vegar er það ljóst að engin stefna hefur verið mörkuð sérstaklega um menntun fólks til vísindalegra rannsóknastarfa eftir að það hefur lokið háskólaprófi. Háskóli Íslands hefur til skamms tíma ekki boðið upp á skipulegt nám til meistaraprófs nema í örfáum greinum og ekki til doktorsprófs fyrr en núna að við breyttum reglum Háskóla Íslands á sl. vetri þannig að nú er hægt að stunda þar skipulagt nám til meistaraprófs og til doktorsprófs. Þeir sem stefnt hafa að slíku námi hafa að mestu leyti orðið að sækja til annarra landa. Vissulega hefur þetta þann kost í för með sér að íslenskir vísinda - og tæknimenn flytja til landsins þekkingu frá öðrum löndum, en það hefur þann ókost að þeir nýtast ekki í íslenskri rannsóknastarfsemi meðan á náminu stendur. M.a. af þeim sökum er það svo, eins og ég gat um, að verið er að byggja upp framhaldsnám á nokkrum öðrum sviðum. Einnig er rætt um að taka upp lengra nám í samvinnu við erlenda háskóla, einkum háskóla á Norðurlöndum. Opinber fjárhagsaðstoð við fólk sem hefur lokið háskólaprófi en sækist eftir doktorsprófi eða sambærilegri háskólagráðu til undirbúnings rannsóknastörfum er nú í engu frábrugðin því sem gerist um annað framhaldsskólanám á háskólastigi. Á þessu þarf að verða breyting. Það þarf að taka um það ákvarðanir að fólk sem lokið hefur háskólanámi geti sest hér að og stundað rannsóknir sínar, ýmist með þeim hætti að það sé ráðið í tímabundnar stöður við rannsóknastofnanir eða með þeim hætti að það fái sérstakan stuðning til þess, eins og var áður, að Vísindasjóður veitti sérstakan stuðning í þessu efni. Með því að styrkja stöðu Vísindasjóðs eins og við gerum núna á þessu ári á að vera hægt að koma þar við styrkjafyrirkomulagi þannig að þetta fólk geti hafið störf að rannsóknum á Íslandi.
    Á vegum ráðherranefndar menntamálaráðherra Norðurlanda var nýlega lögð fram skýrsla um þessi mál þar sem lagt er til að samstarf Norðurlandaþjóðanna á þessu sviði verði stóraukið og mörkuð stefna um sameiginlegt kerfi til vísindalegrar þjálfunar. Í skýrslunni kemur fram, sem kemur okkur ekki á óvart, að Íslendingar eru langt á eftir öðrum Norðurlandaþjóðum í þessu efni.
    Í þessari greinargerð okkar er einnig fjallað um skipulag rannsókna, rannsóknir og byggðaþróun og síðan ítarlega um alþjóðlegt samstarf. Það sem ég vil segja um það er eftirfarandi:
    Við höfum verið að gerast aðilar að mjög mörgum erlendum samningum á undanförnum missirum. Við höfum gerst aðilar að ýmsum Evrópusamningum t.d. í samvinnu við Evrópubandalagið, m.a. Science áætluninni sem við urðum aðilar að á síðasta ári. Við erum að ræða um það hvernig Íslendingar yrðu aðilar að sérstakri rannsóknaáætlun Evrópubandalagsins á sviði umhverfismála og náttúruhamfara og sömuleiðis á sviði sjávartækni og hafrannsókna. Af einstökum öðrum áætlunum mætti benda á iðnaðar - og efnistækniáætlun, fiskveiða - , matvæla - og landbúnaðartækni og áætlun um rannsóknir á sviði læknis - og heilbrigðisfræði, svo og hagfræði. Vísindaráð hefur nýlega fyrir hönd Íslands fengið aðild að European Science Foundation sem er einhver mikilvægasti samstarfsvettvangur innan Evrópu á sviði frjálsra grunnrannsókna. Við höfum gerst aðilar að Norðurlandasamningum til þess að tryggja okkar ungu vísindamönnum aðgang að áframhaldandi vísindastörfum og þannig mætti lengi telja. Það hefur sem sagt heilmargt gerst og það er augljóslega mikið líf í kringum þennan málaflokk.
    Í lok greinargerðarinnar er fjallað um það hvaða verkefni það eru sem Vísindaráð og/eða Rannsóknaráð þurfi að taka að sér núna í framhaldi af þessari stefnumótun. Fyrir utan það sem ég hef þegar nefnt má nefna að þessar stofnanir eiga
    að gangast fyrir eða taka þátt í úttektum og mati á starfsemi, starfsháttum og skipulagi einstakra rannsóknastofnana sem kostaðar eru af hinu opinbera,
    að gangast fyrir eða taka þátt í úttektum á rannsókna - og þróunarstarfsemi á einstökum sviðum vísinda og tækni,
    að gangast fyrir eða taka þátt í úttektum og kortlagningu á nýjum sviðum vísinda og tækni, sem telja verður mikilvæg fyrir rannsóknastarfsemina í landinu og atvinnuvegi þjóðarinnar,
    að gangast fyrir eða taka þátt í úttektum og mati á því hvernig hið opinbera, stofnanir þess og fyrirtæki sem það á aðild að standa að því að nýta þá þekkingu sem aflað er með rannsókna - og þróunarstarfsemi.
    Meðal þess sem lögð er sérstök áhersla á er:
    staða íslenskra rannsókna í alþjóðlegu samhengi vísinda,
    samband íslenskra rannsókna við skólakerfið og við stofnanir er vinna að þróun á sviði atvinnumála, félagsmála, heilbrigðismála og menningar,
    áherslur í verkefnavali í ljósi hlutverks rannsóknastofnana, þarfa þjóðarinnar og atvinnuvega og í ljósi þeirrar stefnu sem stjórnvöld marka,
    loks hvernig fjármagn, mannafli og aðstaða nýtist sem best.
    Til þess að vinna að framkvæmd þessarar stefnu er svo gert ráð fyrir ákveðnu ferli sem ég gerði grein fyrir í upphafi máls míns og mun ekki endurtaka hér. Greinargerðinni fylgir ítarlegt talnaefni þannig að menn geta áttað sig á því hvernig þessi mál hafa þróast hér á landi á undanförnum árum.
    Það liggur sem sagt fyrir að það hefur verið stöðnun í tíu ár í þessum málum. Það liggur fyrir að raunframlög hafa lítið hreyfst. Það liggur fyrir að atvinnufyrirtækin hafa lítið lagt fram í þessu efni, þó hefur hlutur þeirra verið að vaxa. En það er einnig ljóst að um er að ræða verulega aukningu á framlögum til vísinda og rannsókna á fjárlögum þessa árs eða 24,3%. Það er ljóst að með því er stigið myndarlegt skref til að ná því marki sem sett er, að tvöfalda framlög til rannsókna - og vísindastarfsemi á tíu ára tímabili, að auka það um 10% á ári á tíu árum eða svo og þetta er hægt ef menn vilja. Reyndar eigum við dæmi um þetta úr fjárlögum íslenska ríkisins þar sem tekin var sú stefna árin 1987 -- 1988 að tvöfalda framlög til menningarmála frá því sem þau voru í fjárlögunum fyrir 1987, þ.e. þau færu úr 1% af öllum fjárlögum íslenska ríkisins upp í 2%. Og ég man eftir því að þegar ég talaði fyrir þessari stefnu þá, að tvöfalda framlög til menningarmála, töldu menn það algera fjarstæðu, loftfimleika sem ekki væri hægt að standa við. Niðurstaðan er sú núna að framlög til menningarmála á þessu ári frá ríkinu, bein framlög, eru 1,8% af fjárlögum fyrir utan virðisaukaskatt sem felldur hefur verið niður af menningarstarfsemi og nemur um tveimur milljörðum kr. Með markvissum, pólitískum vilja

er hægt að ná marki eins og því sem hér er sett, að tvöfalda framlög til rannsókna - og menningarstarfsemi.
    Að lokum vil ég segja þetta, virðulegi forseti. Í fyrsta lagi að ég tel að aukin áhersla á rannsóknir og vísindi og þróunarstarfsemi sé í raun og veru ein meginundirstaða góðra lífskjara í þessu landi. Þá er ég ekki bara að tala um þróaðar langtímarannsóknir af ýmsum toga. Ég er líka að tala um menntun og skólakerfi í heild, ég er líka að tala um barnaskóla, ég er líka að tala um góðan grunnskóla, ég er líka að tala um framhaldsskóla og jafnvel leikskóla. Almennt gott menntunarkerfi er í raun og veru mikilvægari undirstaða batnandi lífskjara en menn fást yfirleitt til þess að viðurkenna.
    Í öðru lagi segi ég: Við eigum að leggja meiri áherslu á þessi svið þegar við erum að tala um það hvernig við ætlum að byggja upp batnandi lífskjör í landinu, meiri áherslu en á stóriðju í samvinnu við útlendinga. Það leysir að mínu mati engan vanda. Þess vegna er mjög mikilvægt að það hefur tekist að auka verulega hlut vísinda og rannsókna í fjárlögum ársins 1991. Þar er verið að taka á málum og þar er undirstrikuð sú stefnumótun að þó að það sé að sjálfsögðu þannig að þjóðin eigi að kappkosta að nýta þær orkulindir sem við eigum og fá fyrir þær gott verð, þá verður hitt í raun og veru að vera aðalatriðið af því að nýtingin á okkar orkulindum mun ekki skila sér út í þjóðfélagið í batnandi lífskjörum öðruvísi en að við eigum hér fólk til þess að taka við þeim þekkingarverðmætum sem svona starfsemi getur skilað.
    Í þriðja lagi vil ég leggja á það áherslu, sem er náskylt, að ég tel augljóst að nýting orkulindanna verði undirstaðan undir batnandi lífskjörum á Íslandi á komandi árum og áratugum. Ég tel satt að segja að Íslendingar eigi þar möguleika langt, langt umfram það sem menn hafa yfirleitt gert sér grein fyrir, langt umfram það. Við þurfum ekki að selja okkar raforku við lágu verði. Það er alveg augljóst mál að þegar kemur hér örfá ár fram í tímann þá mun verða kostur á því að selja þessa orku við góðu verði. Og það er augljóst mál að við sitjum á orkupotti, svo að segja, sem getur skapað hér aðstæður fyrir góð lífskjör og traust efnahagslegt sjálfstæði þessarar þjóðar. Ef við ætlum að gera það,
ef við ætlum ekki bara að verða hráefnisframleiðendur, ekki bara að selja hráorku til stórfyrirtækja, þá verðum við að eiga gott og öflugt menntakerfi, góða skóla, og öfluga vísinda-, rannsóknar- og þróunarstarfsemi.
    Með þessum orðum, virðulegi forseti, vildi ég gera grein fyrir þessari skýrslu og tel mig þá þar með jafnframt hafa gefið Alþingi kost á því að ræða um stefnumótun í vísinda- og tæknimálum til aldamóta eins og hún birtist í þeirri tillögu sem fylgir þessu skjali.