Löggjöf og eftirlit með vopnasölu
Mánudaginn 18. febrúar 1991


     Flm. (Guðmundur G. Þórarinsson) :
    Virðulegi forseti. Ég hef lagt hér fram till. til þál. um sáttmála um og eftirlit með vopnasölu. Tillagan hljóðar svo, með leyfi forseta:
    ,,Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að beita sér með málflutningi og tillögugerð á alþjóðavettvangi fyrir:
    a. Að gerður verði alþjóðasáttmáli á vegum Sameinuðu þjóðanna um skipan vopnasölu í heiminum, ekki síst til þriðja heimsins. Sáttmálinn feli m.a. í sér:
    1. ákvæði um upplýsingaskyldu varðandi vopnaframleiðslu og vopnasölu,
    2. ákvæði um skilyrði fyrir sölu vopnategunda er kaupandi og seljandi verða að uppfylla,
    3. ákvæði um refsingu ef sáttmálinn er brotinn og hversu refsing skuli framkvæmd ef til brots kemur,
    4. ákvæði um að hvert aðildarland skuli lögfesta á þjóðþingi sínu að alþjóðasáttmálinn hafi lagagildi.
    b. Að sett verði á fót á vegum Sameinuðu þjóðanna stofnun eða ráð er hafi það hlutverk að fylgjast með vopnaframleiðslu í heiminum og vopnasölu og birta upplýsingar reglulega þannig að þær séu aðgengilegar allri heimsbyggðinni. Stofnunin hafi jafnframt það hlutverk að vekja athygli hinna Sameinuðu þjóða á brotum á sáttmála sem nefndur er í a-lið.
    c. Að haldin verði alþjóðaráðstefna um vopnasölu í heiminum með þátttöku helstu vopnaframleiðslulanda."
    Á undanförnum árum hafa iðnríkin selt gríðarlegar vopnabirgðir til þriðja heimsins. Svo er komið að heimsfriðnum stafar vaxandi hætta af átökum í þriðja heiminum. Eftir að afvopnunarviðræður tóku að skila verulegum árangri hafa vopnaframleiðendur með vaxandi þunga leitað markaða fyrir framleiðslu sína meðal þróunarlanda. Lönd þessi verja mörg stórum hluta af takmörkuðum fjármunum sínum til vopnakaupa. Í löndum sem búa íbúum sínum slök lífskjör verður vart þverfótað fyrir eldflaugum og orustuþotum. Í heimi þar sem talið er að 40.000 börn deyi á degi hverjum úr hungri verja hinar fátækustu þjóðir verulegum hluta tekna sinna til kaupa á stríðsvélum. Illa klæddir og vannærðir þegnar þessara þjóða vegast á með nýtískuvopnum, tortímingartækjum, fullkomnustu tækni, sem iðnríkin hafa af góðsemi sinni og velvild selt þeim og arðurinn rennur í vasa stórfyrirtækja sem ekki vita aura sinna tal og nýta hóflausan gróða sinn til þess að fullkomna tæknina við framleiðslu tortímingartækja.
    Nýjasta og augljósasta dæmi afleiðinga þess að iðnríkin hafa selt þróunarlöndum gríðarlegar vopnabirgðir er staða mála við Persaflóa. Hinn 2. ágúst sl. réðust Írakar á Kúvæt og gjörsigruðu landið í skyndiárás. Í þessum heimshluta er Írak stórveldi hernaðarlega séð þótt mörg landanna búi yfir rándýrum nýtískuvopnum. Búnað og vopn til þess að ráðast á Kúvæt hafa Írakar keypt frá nær öllum iðnríkjum sem framleiða þessi tæki.
    Nú er svo komið að fjölþjóðalið á í styrjöld við Írak, styrjöld sem hinar Sameinuðu þjóðir hafa heimilað. Fjölþjóðaliðið, grátt fyrir járnum, á í bardaga við Íraka sem eru ótrúlega vel útbúnir efna-, sýkla- og hátæknivopnum sem þessi sömu iðnríki hafa selt þeim. Bankar iðnríkjanna hafa lánað Írökum stórar fjárhæðir til þess að þróa Scud-flugskeytin sem nú er beitt gegn Saudi-Arabíu og Ísrael, sem og önnur vopn.
    Stofnun Simons Wiesenthals hefur gefið út skýrslu um vopnasölu til Íraks. Mér vitanlega hefur þessi skýrsla ekki verið vefengd. Skýrslan greinir frá því að 207 fyrirtæki frá hinum ýmsu iðnríkjum hafi hjálpað Írak til þess að framleiða efnavopn og sýklavopn. Hluti þessara fyrirtækja hélt slíkri sölu og aðstoð áfram jafnvel eftir að Írak reyndist uppvíst að beitingu eiturgass í stríðinu gegn Íran og gegn eigin þegnum, Kúrdum. Því er haldið fram að með þessari miklu aðstoð geti Írak nú framleitt 1500 til 2400 tonn á ári hverju af eiturvopnum. En reyndar hefur fjölþjóðaliðið upplýst að það muni líklega hafa eyðilagt flestar þessar verksmiðjur. Í skýrslu Simon Wiesenthal-stofnunarinnar er þess getið að 86 þeirra fyrirtækja, sem útbúið hafa Íraka með þessari tækni, séu frá Þýskalandi, 18 frá Bandaríkjunum, 18 frá Bretlandi, 17 frá Austurríki,
16 frá Frakklandi, 12 frá Ítalíu og 11 frá Sviss þannig að breiddin er gríðarlega mikil. Flest iðnríkin hafa tekið þátt í að útbúa Íraka með þeim morðtækjum og tólum sem þeir nota nú.
    Er nú svo komið að ekki er talið nóg að hrekja Íraka frá Kúvæt. Brjóta verði hernaðarmátt þeirra á bak aftur, eyða vopnum sem fjölþjóðirnar hafa útbúið þá með.
     Fullkomnasta tækni við framleiðslu kafbáta er seld til Suður-Afríku. Pakistan og Brasilía eru aðstoðuð við að koma sér upp kjarnavopnum. Jórdanir kaupa flugvélar sem geta skotið eldflaugum og Íran kaupir hráefni í efna- og eiturvopn.
     Gróðavonin rekur auðug stórfyrirtæki iðnríkjanna til útflutnings á tortímingarvélum og tækni. Síðan fyllast þeir hinir sömu heilagri vandlætingu yfir því að vopnin skuli notuð. Sundraður heimur andstæðnanna eykur sundurþykkju sína.
    Vopnasalan á sér bæði stjórnmálalegar og efnahagslegar rætur. Vopnakaup fjölmargra landa, m.a. þróunarlanda, eru hins vegar langt umfram nauðsyn vegna varna og öryggis. Víða hamla vopnakaup þjóðfélagsumbótum og þróun atvinnulífs í þriðja heiminum. Iðulega eru vopnin notuð af óvönduðum stjórnvöldum til alvarlegra brota á mannréttindum. Vopnasalan nær síður en svo einungis til svokallaðra hefðbundinna vopna, heldur einnig hátæknivopna og flauga til að flytja kjarnavopn, efnavopn og sýklavopn. Svo er því komið að heimsfriðnum er í reynd ógnað af vígbúnaði þriðja heimsins, vígbúnaði sem iðnríkin hafa fengið honum í hendur.
    Alþjóðasamningar hafa verið gerðir til að hindra útbreiðslu kjarnavopna og efnavopna og sáttmáli hefur verið í gildi um sölu hátæknibúnaðar til austurblokkarinnar. Allt frá árinu 1949 hafa vestræn iðnríki ásamt Japan reynt að hindra útflutning háþróaðrar framleiðslu til austurblokkarinnar, framleiðslu er nota mætti

í hernaði. Árið 1949 var sett á laggirnar sérstök nefnd, COCOM (Co-ordinating Committee on Multilateral Export Controls), til þess að samræma aðgerðir í þessu skyni. Sautján gerðust aðilar að þessari samþykkt og bannlistinn náði fljótlega yfir um 100.000 vörur og vöruflokka.
     Á síðastliðnum missirum hefur fremur verið dregið úr hömlum á útflutningi hátæknivara til austurblokkarinnar og frá því í sumar hefur veruleg áhersla verið á því að losa um útflutningsbann. Sérstaklega hefur það verið gert gagnvart Ungverjalandi, Póllandi og ríki Tékka og Slóvaka. Hér er um að ræða tilraunir til að hjálpa ríkjum Austur- og Mið-Evrópu til að endurreisa efnahag sinn í kjölfar hruns hins kommúníska kerfis og aukinnar viðleitni þessara landa til þess að láta öfl markaðarins ráða meiru. En á sama tíma og hömlur hafa verið lagðar á hátækniviðskipti við Austur-Evrópu hefur útflutningur hergagna og vopna verið gríðarlegur til landa þriðja heimsins. Afleiðingar þessa verða æ skýrari.
     Hér er ekki tilefni til að rekja í ítarlegu máli upplýsingar um vopnasölu í heiminum. Þau fáu dæmi sem hér hafa verið nefnd eru aðeins örlítið brot þessara viðskipta.
     Nauðsynlegt er að bregðast við með lagasetningu á alþjóðavettvangi. Við svo búið má í raun ekki standa lengur. Því er þessi tillaga flutt. Íslendingar eiga að leggja sín lóð á vogarskálina.
    Staðan við Persaflóa, sem og víðar í heiminum, sýnir að harðra aðgerða er þörf. COCOM-nefndin starfaði aðeins gegn austurblokkinni. Nauðsynlegt er að koma á fót alþjóðlegri stofnun eða ráði, t.d. á vegum Sameinuðu þjóðanna, sem fylgist náið með allri vopnasölu í veröldinni. Komið verði á tilkynningarskyldu um vopnasölu. Allar upplýsingar um slíka sölu verður að birta og gera heyrinkunnar, gera þessi viðskipti gagnsæ. Strangar reglur verða að gilda og alvarleg refsing verður að liggja við brotum.
     Til setunnar verður ekki boðið í þessum efnum. Velferð mannkyns er í veði, þúsundir almennra borgara víða um heim falla og börn hljóta örkuml, fjármunum er varið til vopna í stað fæðu. Það er í raun ótrúlegt hve gróðavonin er sterkt afl. Aðilar innan iðnríkjanna, aðilar sem hafa allt til alls í óhófs mæli, eru tilbúnir til að fórna öllu á altari Mammons og gjörvöllu mannkyni verður æ ljósari uppskeran.
     Íslendingar eiga jafnframt með málflutningi sínum á alþjóðavettvangi að hvetja til alþjóðlegrar ráðstefnu um þessi mál með þátttöku allra helstu vopnaframleiðslulanda.
    Virðulegi forseti. Ég legg til að að lokinni umræðu um þessa þáltill. verði henni vísað til utanrmn.