Löggjöf og eftirlit með vopnasölu
Mánudaginn 18. febrúar 1991


     Stefán Valgeirsson :
    Virðulegi forseti. Ég sé ástæðu til þess að þakka hv. flm. fyrir þessa tillögu og þá vinnu sem hann hefur lagt í greinargerðina sem tillögunni fylgir þótt ástand í heiminum sé kannski ekki þannig að líklegt sé að sú hugsun sem liggur að baki þáltill. leiði til þess að með skjótum hætti verði komið á því eftirliti og upplýsingum sem tillöguhöfundur ætlast til. En það er verðugt verkefni fyrir þessa litlu þjóð, sem hefur verið um langt skeið óvopnuð, að fulltrúar hennar reyni að koma þessum hugmyndum á framfæri við Sameinuðu þjóðirnar. Ég held að eftir henni verði tekið ef málflutningurinn verður í líku formi og var hjá hv. flm.
    Það er engu við það að bæta sem hann flutti hér. Ég vil ekki að þessi tillaga verði afgreidd umræðulaust. Hún er þess virði að fleiri taki þátt í umræðu um hana en flm. Þess vegna vildi ég aðeins segja nokkur orð.