Löggjöf og eftirlit með vopnasölu
Mánudaginn 18. febrúar 1991


     Flm. (Guðmundur G. Þórarinsson) :
    Virðulegi forseti. Aðeins örfá orð til að þakka þeim sem lögðu orð í belg í þessu máli. Það sem hér vakir fyrir flm. er að gerður verði alþjóðasáttmáli, í anda hafréttarsáttmála og annarra slíkra alþjóðasáttmála, um vopnasölu. Ég hygg að þróun mála á undanförnum missirum og árum sýni að slíks er ekki vanþörf.
    Menn segja það gjarnan þegar kemur að umhverfismálum að í reynd sé svo komið á jörðinni að þau geti ekki verið sérmál neinnar þjóðar. Frelsi þjóða í umhverfismálum hljóti að verða takmarkað. Með auknum hraða og aukinni fólksfjölgun má segja nánast að jörðin hafi minnkað og það sem ein þjóð gerir hefur veruleg áhrif á aðrar.
    Það er alveg ljóst að eftir að afvopnunarviðræður hafa náð nokkrum árangri hafa vopnasöluaðilar í mjög auknum mæli leitað nýrra markaða hjá hinum fátæku þróunarlöndum. Og eins og ég sagði áðan í ræðu minni er það nánast ótrúlegt að illa klæddir og vannærðir þegnar þessara landa vegast á búnir hátæknivopnum á sama tíma og börn þessara þjóða falla í tugum þúsunda á degi hverjum vegna þess að fæða er ekki til staðar. Atvinnulíf og efnahagslíf þessara þjóða bíður hnekki á sama tíma og hver ferþumlungur lands hjá þessum fátæku þróunarlöndum mörgum er þakinn sprengjum, orustuþotum og eldflaugum.
    Það eru í heiminum alþjóðasáttmálar gegn útbreiðslu kjarnavopna og efnavopna. Spurt er: Með hverjum hætti getur refsing farið fram og hvernig á að framkvæma slíka hluti? Nokkrar þjóðir reyna með lögsóknum að ná fram refsingum við brotum á slíkum sáttmálum. Frægt dæmi eru málaferli sem standa nú yfir í Þýskalandi gegn þýskum fyrirtækjum sem talin eru hafa selt Líbíu efnavopn. Ef slíkur sáttmáli sem þessi nær lagagildi í viðkomandi landi þá er unnt að lögsækja þau fyrirtæki sem hann brjóta. Öðruvísi verður ekki að þessu máli komið. Hér er ekki um að ræða einkamál þeirra fyrirtækja sem vilja auka framleiðslu sína að hagnast á slíkum viðskiptum, heldur er svo komið að menn horfa í auknum mæli til þess að heimsfriðnum jafnvel kunni að standa ógn af þeim vígbúnaði sem á undanförnum missirum hefur hlaðist upp meðal hinna fátæku þjóða þriðja heimsins. Og það hygg ég að leiði beint af sjálfu sér að úr vopnaframleiðslu hlýtur að draga ef markaðurinn er deginn saman með mikið þrengri löggjöf og meira aðhaldi.
    Virðulegi forseti. Ég vil þakka fyrir þau orð sem hér féllu um þessa tillögu. Ég lít svo á að það sé afar mikilvægt að einmitt Íslendingar hefji máls á alþjóðavettvangi, meðal alþjóðastofnana um þessi mál. Það er tími til kominn að hið alþjóðlega samfélag þjóðanna taki sig til og setji strangar reglur. Sérstaklega vil ég taka undir orð hv. þm. Stefáns Valgeirssonar þegar hann sagði að það væri vel til fallið að sú þjóð sem engin vopn hefur og engan her hefji einmitt máls á þessu á alþjóðavettvangi og beiti sér fyrir því að samkomulag náist um alþjóðasáttmála.