Stytting vinnutíma
Mánudaginn 18. febrúar 1991


     Árni Gunnarsson :
    Virðulegi forseti. Ég leyfi mér að mæla fyrir till. til þál. um styttingu vinnutíma. Eins og kom fram hjá virðulegum forseta var fyrri flm. Björgvin Guðmundsson, sem hér átti sæti um tíma sem varaþingmaður, og 2. flm. sá sem hér stendur. Í tillögugreininni segir svo, með leyfi forseta:
    ,,Alþingi ályktar að fela félmrh. að semja áætlun um almenna styttingu vinnutíma í landinu án skerðingar tekna. Skal ráðherra hafa samráð við aðila vinnumarkaðarins um málið.``
    Í greinargerð kemur fram að stjórnvöld hafa nokkrum sinnum á undanförnum árum og áratugum fjallað um vinnutíma og leiðir til þess að stytta hann. Félmrh. skipaði hinn 22. sept. 1987 nefnd til þess að fjalla um málið. Sú nefnd skilaði áliti 20. júlí 1988. Þann 13. okt. 1987 skipaði þáv. forsrh., Þorsteinn Pálsson, nefnd til þess að annast samanburðarkönnun á launum karla og kvenna. Verksvið þeirrar nefndar var síðar víkkað út þannig að nefndin skyldi gera fjölþætta lífskjarakönnun. Var á vegum nefndarinnar framkvæmd víðtæk könnun á launum og lífskjörum að norrænni fyrirmynd. Niðurstöður þeirrar könnunar voru birtar í bók sem út kom á vegum Félagsvísindastofnunar Háskóla Íslands og Hagstofu Íslands í júní 1990. Nafn bókarinnar er ,,Lífskjör og lífshættir á Íslandi``. Í bókinni er fjallað ítarlega um atvinnu og vinnutíma, vinnuaðstæður og starfsferil, laun og launatengd fríðindi, húsnæðisaðstæður, frístundalíf og félagslíf, heilsufar, menntun, afstöðu til lífskjara o.fl.
    Í lífskjarakönnuninni kemur fram að vinnutími hér á landi er mjög langur og grunnkaup frekar lágt en tekjur aukast mikið með yfirborgunum, yfirvinnu og aukavinnu.
    Fullvinnandi fólk vinnur að jafnaði um 55 stundir á viku í launuðum störfum, þegar allt er talið með. Fullvinnandi karlar eru með hátt í 60 stundir á viku. Fullvinnandi konur vinna um 49 stundir á viku.
    Samkvæmt könnuninni er vinnutíminn mjög mismunandi langur eftir starfsstéttum. Lengstur er vinnutíminn hjá bændum og sjómönnum, eða 78,2 stundir á viku. Hjá sjálfstætt starfandi mönnum er hann 59,7 stundir á viku, hjá faglærðu verkafólki 53,5 stundir á viku og hjá ófaglærðu verkafólki 52,7 stundir á viku, svo nokkrar helstu stéttir séu nefndar.
    Í greinargerð með þessari tillögu segir m.a. orðrétt, með leyfi forseta: ,,Ljóst er að vinnutími hér á landi er of langur. Ef unnt er að stytta vinnutímann án tekjuskerðingar yrði það mjög mikilvæg lífskjarabót sem auk þess mundi áreiðanlega stórlega bæta heilsufar launafólks og hafa góð áhrif á fjölskyldulíf í landinu. Í dag er ástandið hjá fjölskyldunum í landinu mjög slæmt vegna hins langa vinnutíma og vegna þess að báðir foreldrar vinna yfirleitt utan heimilisins og hafa ekki nægan tíma með börnum sínum. Stytting vinnutímans mundi væntanlega stórbæta þetta ástand.
    Tillagan gerir ráð fyrir að félmrh. semji áætlun um styttingu vinnutíma. Hugsunin er sú að stytting vinnutíma verði í áföngum, t.d. á 2 -- 3 árum. Framkvæmd málsins fer að sjálfsögðu eftir aðstæðum í þjóðarbúskapnum og mati aðila vinnumarkaðarins á mikilvægi málsins. Ef til vill gæti ný þjóðarsátt orðið um styttingu vinnutímans.``
    Svo segir í greinargerð með þessari þáltill.
    Virðulegi forseti. Það þarf nú vart að orðlengja það hversu óhæfilega langur vinnutími er hjá flestu vinnandi fólki á Íslandi og hversu mikið það þarf að hafa fyrir því að afla tekna sem nægja til sómasamlegs lífsviðurværis.
    Það gerðist fyrir nokkrum árum að verkalýðshreyfingin eða hluti af henni ákvað að hefja yfirvinnubann sem var um margt merkilegt. Það kom nefnilega í ljós eftir að þetta yfirvinnubann hafði staðið í nokkurn tíma að afköst í fyrirtækjum minnkuðu ekki. Framleiðni í frystihúsum minnkaði ekki þrátt fyrir yfirvinnubannið. Skýringin var talin sú að verkafólkið og starfsmenn almennt væru betur hæfir til að inna störf sín af hendi, ekki eins illa þreyttir og venjulega, frítíminn væri lengri og þar með tími til þess að hvílast og ná áttum eftir langan og strangan vinnudag.
    Hér á Íslandi hefur löngum verið mikil tilhneiging til þess að líta á mikla atvinnu sem sjálfsagðan þátt í þjóðlífinu. Fyrir nokkrum dögum spurðist ég fyrir um það hvernig háttað væri eftirliti með vökulögum á togurum, einfaldlega vegna þess að ég veit að þar er unninn allt of langur vinnutími og þar eru vökulög brotin. Vökulögin kveða á um það að togarasjómenn eigi að hafa í það minnsta sex klukkustunda samfellda hvíld, en það er kunnugt og yfir því hafa sjómenn kvartað að búið er að stytta frívaktina um helming, niður í þrjár klukkustundir. Við þessa umræðu kom þessi merkilegi hlutur í ljós að sá hæstv. ráðherra sem svaraði fyrirspurninni talaði í nokkrum hneykslunartón, og þeir sem til máls tóku, um það að ég væri að fárast yfir því að menn ynnu langan vinnudag hér á Íslandi. Auðvitað hafa menn orðið að gera það og hann tilnefndi nokkur dæmi um það, til að mynda sjómenn á síldveiðum o.s.frv. Ég held að við göngum að því sem allt of gefnu að vinnudagur hjá okkur þurfi að vera langur og ég hygg að meginástæðan fyrir því sé sú að kannski hafi barátta verkalýðshreyfingarinnar fyrir kjörum hins almenna launamanns á Íslandi ekki verið nægilega hörð, ekki verið nægilega öflug og ekki skilað nægilega miklu.
    Það er alveg ljóst að sá lífsgæðastuðull sem við höfum búið til og flestir reyna að klífa upp eftir er með þeim hætti að það þarf gífurlega miklar tekjur til þess að viðhalda og eignast það sem nútímamaðurinn telur að hann þurfi að eiga og hafa til þess að lifa sómasamlegu lífi. Það eru ekki allir sammála þessu. Og það eru ekki allir sammála því að menn kaupi hamingjuna með tækjum og tólum sem hverjum nútímamanni er talin trú um að hann þurfi á að halda um þessar mundir. Engu að síður er það alveg ljóst að eftirsókn eftir hvers konar þægindum þeirra tíma sem við lifum á hefur valdið því að fólk leggur á sig ótrúlega langan vinnudag. Þær stundir sem eftir eru af sólarhringnum fara þá illa og eru sjaldnast notaðar til

þess að viðhalda manneskjulegu og góðu heimilislífi. Af þessu hafa menn vaxandi áhyggjur. Menn hafa vaxandi áhyggjur af aukinni firringu í samfélaginu sem m.a. stafar af því að hornsteinn þjóðfélagsins, heimilið, hefur látið undan síga í því gífurlega kapphlaupi sem við verðum vitni að á hverjum einasta degi í þá veru að auka lífsþægindin, hvað sem það kostar. Ég held að þetta sé einn megingallinn á okkar ágæta samfélagi að við erum orðin svo trúuð á þær hagfræðikenningar sem reyna að færa okkur heim sanninn um það að hamingjan verði keypt með auknum hagvexti, aukinni framleiðni, aukinni vinnu o.s.frv. Ég hygg að þessar kenningar séu að mörgu leyti að ganga á skjön við allt mannlegt samfélag og þær séu í raun að eyðileggja það gildistmat sem menn hafa haft um það hvernig á að lifa lífinu.
    Það væri hægt að hafa um þetta mörg orð en ég er sannfærður um það að allir hv. þm. gera sér ljósa grein fyrir því að í þessum efnum er okkur mikill vandi á höndum. Við erum í raun og veru að brjóta smátt og smátt undirstöður samfélagsins sem byggja á þeirri rótgrónu íslensku hefð að heimilið skuli vera undirstaðan. Þannig hefur það verið og þannig á það að vera.
    Ég vitnaði áðan í greinargerð í nefndarálit svokallaðrar vinnutímanefndar sem starfaði árið 1987 og skilaði mjög merkilegum niðurstöum sem væri fyllsta ástæða til þess að rifja upp. Það var talsvert rætt um þetta mál þegar þessar niðurstöður birtust og komu þær mjög mörgum á óvart, m.a. hversu langur vinnutími margra stétta er. Þess er sérstaklega getið í greinargerð með tillögunni að vinnutími bænda og sjómanna reyndist vera 78,2 stundir á hverri viku þegar þessi könnun var gerð. Það kunna að hafa orðið einhverjar breytingar á því núna. Ég ætla ekki að fullyrða um það. Þessi könnun er rösklega þriggja ára gömul.
    Það sem er athyglisvert við þessa könnun er viðhorf einstaklinga til vinnutímans. Þar kemur m.a. fram að um helmingur þeirra sem spurðir voru töldu að styttri vinnutími mundi henta sér betur en sögðust þó ekki tilbúnir til að fallast á styttingu ef því fylgdi skerðing á tekjum. Hér liggur gamli hundurinn grafinn, að menn óttast tekjuskerðinguna þegar farið er að ræða um styttingu vinnutíma. Í þessari tillögu er gert ráð fyrir því að tekjur mundu í engu skerðast þrátt fyrir styttingu vinnutímans. Það eru til fjöldamargar aðferðir til að stytta vinnutíma og þeirra er m.a. getið í tillögum fyrrnefndrar nefndar. Það er ekki eingöngu með einhverri tiltekinni ákvörðun að stytta vinnutímann heldur er hægt að stytta hann með margvíslegum hætti. Það má tala um og minna á sveigjanlegan vinnutíma og t.d. að líta á breytingar á vinnutímaviðmiðun í kjarasamningum, líta á breytt vægi yfirvinnulauna o.s.frv. eins og gert er hér í nefndarálitinu.
    Virðulegi forseti. Ég held að það sé ástæðulaust að tala mikið meira um þetta mál í framsögu. Ég vænti þess að að lokinni umræðu verði málinu vísað til 2. umr. og hv. félmn. Það er nú svo að þó það sé álit

mitt að þetta mál sé hið ágætasta mál og geti komið mörgum að góðum notum þá er ekki víst að allir séu sammála því. Áður hafa vinnutímamálin verið rædd hér á Alþingi með þeim hætti að þeir sem voru að fjalla um hugsanlega styttingu vinnutímans mættu mikilli andspyrnu hv. þm. sem töldu að þetta væri fráleit kenning, hún væri óframkvæmanleg. Ég man mjög vel eftir þessari umræðu. Ég vænti þess að þetta mál fái einhvern framgang í hv. nefnd þannig að það komi a.m.k. hingað inn aftur. Ég geri mér grein fyrir því að málið er nokkuð seint á ferðinni nú áður en þingi lýkur.