Ráðstafanir vegna aflabrests í loðnuveiðum
Þriðjudaginn 19. febrúar 1991


     Skúli Alexandersson :
    Herra forseti. Það eru fyrst og fremst tveir þættir sem hafa komið fram í þessari umræðu sem getur orkað tvímælis að hafi verið skýrðir rétt. Það er í fyrsta lagi allt að því fullyrðing hv. 3. þm. Vesturl. Eiðs Guðnasonar um að sjútvrh. sé bundinn því að beita 9. gr. Skyldurnar ráðherrans eru ekki svona stífar heldur er honum heimilt að beita henni. Það er þó nokkuð mikill munur á því að hafa heimild til að gera einhverja hluti eða að það sé bundið skyldu. Ráðherra hefur að vísu lýst því yfir að hann meti stöðuna þannig að þessi heimild sé allt að því skylda eða nálægt því. En ég tel að það sé ekki á þann veg. Vitaskuld er undir þessum kringumstæðum ráðherrans að meta það.
    Svo er það yfirlýsing hv. 6. þm. Vesturl. --- báðir þessir þingmenn eru líkast til farnir af fundi --- sem hæstv. ráðherra tók undir, þ.e. að ekki væri um nema þrjá kosti að ræða í þessu máli. Í fyrsta lagi sú tillaga sem hér er uppi að beita Hagræðingarsjóði og fleiri aðgerðum, eða 9. gr. eða þá gera ekki neitt. Ég vil segja að sem betur fer er málið ekki það lokað að ekki sé hægt að hugsa sér fleiri leiðir. Ég nefndi það í ræðu minni að sjálfsagt væri staða loðnuflotans að því leyti best að það væri auðeldast að leysa það vandamál eða vandamál flotans. Það kemur m.a. til af því að eignin í loðnuflotanum er á þann veg að það er sjálfsagt miklu meira veð í flotanum en t.d. í loðnuverksmiðjunum, fiskimjölsverksmiðjunum, sem bankarnir hafa lýst yfir að þeir treystu sér ekki til að lána vegna þess að veðið í þeim eignum væri ekki mjög mikið. Sá kostur er vitaskuld fyrir hendi að þessum flota sé útvegað lán annaðhvort úr sameiginlegum sjóði eða fyrir hvert skip vegna þess að það sem hér er verið að tala um er ekkert annað en peningar. Þó að við séum að tala um þetta sem kvóta eða aflaheimildir þá er staðreyndin sú að mestar líkur eru fyrir því að fæst af þessum skipum muni nota þessar aflaheimildir heldur aðeins verða sér úti um peninga í einhverri mynd fyrir þessar aflaheimildir. Lausnin er því greinilega til á hinn veginn, annaðhvort að skipunum verði útveguð sérstök lán til langs tíma, jöfnum höndum og lán þeirra yrðu framlengd,
eða þá, sem ég teldi nú vænlegasta kostinn, að stofnaður væri aflatryggingasjóður loðnuflotans sem tæki lán svipað og gert var við myndun ríkisstjórnar Steingríms Hermannssonar 1988 þegar tekin voru lán til Verðjöfnunarsjóðs sjávarútvegsins, og veita þessum skipum lán úr slíkum sjóði. Það mætti hugsa sér að síðan yrði sá sjóður byggður upp á næstu 15 -- 20 árum um leið og vandamálin, sem við blasa í dag, yrðu leyst.
    Það er hægt að nefna ýmsa fleiri þætti, en alls ekki loka sig inni að það sé annaðhvort að gera þetta sem hæstv. ráðherra er að leggja til með þessu frv., beita 9. gr. eða gera ekki neitt. Sem betur fer eru möguleikarnir margir fleiri.
    En mér finnst, eins og hv. 3. þm. Vesturl. Eiður Guðnason sagði, að meðferð þessa máls einkennist

ekki af nægilegri alvöru. Ég tel að ríkisstjórnin hafi ekki tekið af nægilegri alvöru á þessu máli öllu saman, ekki neitt sérstaklega máli loðnuskipanna, heldur öllu í heild. ( KP: Heldurðu að þingmaðurinn hafi meint það?) Ja, hv. þm. nefndi það að sér fyndist að umræðan um þetta mál einkenndist ekki af nægilegri alvöru og ég tek alveg undir það.
    Ég ætla ekki að lengja þessa umræðu. Við eigum eftir að spjalla um þetta við 2. umr. og fjalla um frv. frekar í nefnd. En mér þykir miður að þessir ágætu þm. Vesturl. skuli ekki vera hér af því að ég taldi ástæðu til þess að benda á það sem kom fram í ræðum þeirra.