Ráðstafanir vegna aflabrests í loðnuveiðum
Þriðjudaginn 19. febrúar 1991


     Guðmundur Ágústsson :
    Virðulegi forseti. Mér þykir leitt að hafa ekki hlýtt á hv. 3. þm. Vestf. hér í dag þar sem hann átti víst að hafa beint orðum til mín og míns flokks um afstöðu okkar til þessa frv., að ég best skildi. Hún liggur alveg ljós fyrir, enda erum við einn af þeim flokkum sem standa að þessu frv. og er ég þá að túlka skoðun Borgfl. en kannski ekki beint mína. Þetta var tekið fyrir á sínum tíma í þingflokknum og talið að þarna væri um að ræða þá lausn sem gæti fullnægt þeim vandamálum sem væri við að glíma vegna aflabrests á loðnuveiðum.
    Ég ætlaði ekki að hafa langt mál um þetta frv. en taldi rétt að koma hér upp og lýsa þeirri skoðun sem minn flokkur hefur á þessu frv. Ef menn vilja ræða hér málefni sjávarútvegsins að öðru leyti þá held ég að hvorki sé tími eða stund til þess. Lög um fiskveiðistjórnun eru að taka gildi þessa dagana og menn eru að reyna að feta sig áfram í þeim flóknu lagareglum sem við á Alþingi samþykktum hér í fyrra.
    En út af því sem hv. þm. Skúli Alexandersson talaði um má kannski segja að örlög þeirra sem stóðu ekki að frv. séu ráðin út af því að það er nokkuð ljóst að hv. 4. þm. Vesturl. og 3. þm. Vestf. verða mjög líklega ekki til þess að ræða næstu frv. um stjórn fiskveiða ef taka má mark á orðum þeirra sjálfra.
    En ég tel mig hafa lýst skoðun míns flokks. Þegar þetta var lagt fram í þingflokki Borgfl. var ákveðið að mæla með því að þetta frv. sem sjútvrh. leggur nú fram mundi verða stutt af þingflokki Borgfl.