Ráðstafanir vegna aflabrests í loðnuveiðum
Þriðjudaginn 19. febrúar 1991


     Guðmundur Ágústsson :
    Virðulegi forseti. Hafi mátt skilja orð mín þannig og hafi ég talað þannig að hér væri verið að leysa sjávarútvegsvandann eða vanda þessara loðnuskipa, ( KP: Það var fullyrt.) þá vil ég taka fram að meiningin á bak við mín orð var sú að að sjálfsögðu er ekki verið að leysa allan vandann, hvorki þessara skipa eða annarra skipa með sjávarútvegsstefnunni sem uppi er. Ef svo væri þyrftum við ekki að ræða þessi mál hér eða önnur sem tengjast sjávarútvegi.
    Það sem ég vildi segja er að þarna væri verið að reyna að finna leið til þess að jafna á milli skipa og reyna að finna leið til þess að koma til móts við þessa aðila sem vegna loðnubrests geta ekki farið á veiðar. Þetta var kjarninn í því sem ég vildi alla vega hafa sagt. Hafi hv. þm. Karvel Pálmason skilið mig á annan veg þá biðst ég velvirðingar á því.
    En ég vil taka það fram að þegar þetta frv. fór fyrir minn þingflokk sáum við í sjálfu sér ekki aðra leið færa en að samþykkja það, enda skildist mér að samkomulag væri milli aðila í sjávarútvegi um að þetta væri leið til þess að koma til móts við eigendur þeirra skipa sem þarna er um að ræða.